Víkverji er búinn að vera í líkamsræktarátaki núna í dágóðan tíma. Árangurinn hefur hins vegar látið á sér standa.

Víkverji er búinn að vera í líkamsræktarátaki núna í dágóðan tíma. Árangurinn hefur hins vegar látið á sér standa. Víkverji virðist þeirri náttúru gæddur að alveg sama hversu mörg kíló hann léttist um; ein óráðleg máltíð dugar til þess að skella þeim öllum á aftur. Á þessum rússíbana hefur nú gengið svo mánuðum skiptir og veit Víkverji varla hvað hann á að gera, því ekki kemur til greina að svelta sig.

Annars hefur Víkverji tekið eftir einu í matvörubúðinni. Í hillunum þar sem „hollu“ líkamsræktarmáltíðirnar eru er jafnan að finna ógrynnin öll af alls kyns „orkustöngum“, sem við nánari skoðun reynast vera þurrkaðir ávextir, ber og/eða hnetur, og allt saman húðað með salti og súkkulaði. Alveg sérstaklega súkkulaði. Það liggur við að hægt sé að fá súkkulaðihúðað súkkulaði, sem samt er sagt á einhvern hátt hollara en annað súkkulaði.

Svo eru það fæðubótarefnin, sem flest eru í formi einhvers konar prótíndufts, sem á að blanda við vatn og hrista duglega. Víkverji hefur ekki lagt í að fá sér þannig ennþá, en var næstum því búinn að taka af skarið um daginn þegar hann rakst á stóran dunk af prótíndufti, sem ekki bara var sagt vera með súkkulaðibragði heldur var dunkurinn merktur „MARS“ í bak og fyrir. Annar við hliðina var síðan merktur „Snickers“. Aðdáendur Mars- og Snickers-súkkulaðistykkjanna, sem hingað til hafa ekki beint verið fyrsti kostur þeirra sem eru að reyna að rækta líkamann, geta nú farið áhyggjulausir í ræktina og hrist sér síðan einn góðan Snickers eftir á.

Fyrir Víkverja var þessi uppgötvun hins vegar mjög upplífgandi. Nú þarf hann ekki lengur að vera með sektarkennd þegar hann sniglast í eins og eitt súkkulaðistykki, ekki þegar hann veit að öll vaxtarræktartröllin sem hann sér í ræktinni eru í raun bara algjörir sælgætis- og súkkulaðigrísir.