Ríkharður Árnason fæddist 11. nóvember 1939. Hann varð bráðkvaddur 14. september 2018.

Útför hans fór fram 28. september 2018.

Faðir minn, hann Ríkharður Árnason, lést þann 14. september síðastliðinn. Hann dó einmitt á þeim stað sem hann skapaði ásamt henni móður minni, Hrefnu. Þegar ég horfi til baka þá var sumarbústaður mömmu og pabba samofinn mínu lífi og er ég þakklátur að hafa verið á staðnum þegar hann fór til Sumarlandsins, laus úr viðjum líkamans sem var honum til vandræða þrjú síðustu árin. Samband okkar pabba var mjög tilfinningalegt, ég vildi alltaf vera í kringum hann, vera nálægt honum enda sýndi hann mér einstaka hlýju. Þegar ég var barn þá var hann mitt ofurmenni sem gat allt. Við fjölskyldan vorum töluvert á faraldsfæti og heimsóttum marga staði innanlands, tjaldið var sett haganlega upp á topp græna Fiatsins og svo var lagt á stað í ævintýri þangað til pabbi fékk þá hugmynd að gaman væri að byggja sumarbústað uppi í Eilífsdal í Kjós. Það var svo árið 1974 sem hann fékk land sem vinur hans reddaði honum og þá tók annað ævintýri við og gistum við sumarlangt í hvítu vinnutjaldi frá símanum, enda pabbi símamaður af lífi og sál, húsið var tilbúið 1975. Pabbi var snillingur og einstaklega útsjónarsamur, enda var hann jú snillingur, hann og mamma voru ekkert í sérstaklega góðum efnum þannig að hann fékk nánast allt efnið sem fór í bústaðinn gefins eða langt undir kostnaðarverði.

Ég á margar skemmtilegar minningar þaðan. Oft var bústaðurinn eins og félagsheimilli enda foreldrar mínir félagslynd með eindæmum. Því miður, eða ekki, þá eyðilagðist bústaðurinn í ofsaveðri sem gekk yfir um veturinn 1987. Var bústaðurinn það vel tryggður að hann gat byggt nýjan sem enn stendur, er hann fullur af minningum og þar hófst fyrir alvöru skógrækt enda landið þakið trjám. Foreldrar mínir tóku miklu ástfóstri við þá rækt.

Pabbi var mín stoð og stytta og það var ekkert sem hann gerði ekki fyrir mig og alltaf fann hann lausnir enda virtist ekkert honum of erfitt þegar kom að mér eða bræðrum mínum, móðir okkar var eins. Við áttum yndislega foreldra. Pabbi var mikill áhugamaður um að festa umhverfið í form, annaðhvort fastra mynda eða hreyfi. Hann átti ljósmyndavél og átta millimetra tökuvél, síðan vídeótökuvél. Hann var duglegur að framkalla í geymslunni á Hjaltabakka 4, svarthvítar myndir, og oftar en ekki lá ég við fætur hans og svaf sem tveggja ára enda vildi ég alltaf vera nálægt honum. Ég smitaðist heldur betur af honum og er ég honum þakklátur fyrir það. Pabbi stofnaði kvikmyndaleigu sem varð svo að vídeóleigu. Einnig var pabbi mikill áhugamaður um kvikmyndir og hann elskaði að horfa á Abbott og Costello, Charlie Chaplin og fleiri og fleiri og síðan kynnti hann mig fyrir persónu sem heitir James Bond. Ég fór með honum á Bondinn í Tónabíó til að byrja með og síðan í þau bíó sem tóku við.

Eftir pabba liggur ómælt magn minninga í formi kyrrmynda og hreyfimynda, við eigum sögu fjölskyldunnar og getum yljað okkur við minningar um eiginmann, föður, afa og langafa. Hann pabbi var sérstakt eintak af ljúfmenni sem skilur eftir sig tómarúm sem hægt er að fylla með fallegum minningum um hann, enda af nógu að taka. Þegar pabbi var heill heilsu þá voru barnabörnin honum hugleikin og fengu sinn skerf af ást og umhyggju. Börnin mín fjögur, barnabörnin, konan mín og ég þökkum þér fyrir allt, ég veit að þú nýtur þín í Sumarlandinu hvar sem það nú er.

Árni Ingi Ríkharðsson.