Ásdís Magnúsdóttir fæddist í Reykjavík, 28. september 1951. Hún lést 31. ágúst 2018 á Ullerntunet sykehjem í Osló, í Noregi.

Foreldrar Ásdísar voru Magnús Ástmarsson, prentari, forstjóri Ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg og borgarfulltrúi í Reykjavík, f. á Ísafirði 7. febrúar 1909, d. 18. febrúar 1970, og Elínborg Guðbrandsdóttir, húsmóðir og kennari, f. í Viðvík í Viðvíkurhreppi í Skagafirði 6. ágúst 1913, d. 3. desember 1979.

Systkini Ásdísar eru: Björn Bragi, f. 6. mars 1940, d. 15. maí 1963, Anna Rósa, f. 14. júlí 1942, d. 31. ágúst 2008, Auður, f. 1. ágúst 1947, d. 14. mars 2007, Brynhildur, f. 30. apríl 1953, d. 17. júní 1980, og Guðbrandur, f. 20. sept. 1954.

Börn Ásdísar eru: Jóhann Þórir Jóhannsson, f. 7. nóvember 1967, maki hans er Helga Rakel Guðrúnardóttir, sonur þeirra er Magnús Torfi, f. 5. desember 2011, Guðrún Gyða Árnadóttir, f. 8. júní 1971, börn hennar eru Árni Eyþórs, f. 14. maí 2002, og Dísa María, f. 24. nóvember 2006, og Eva Vilhelmína Markúsdóttir, f. 25. október 1988. Faðir Evu Vilhelmínu og fyrrverandi sambýlismaður Ásdísar er Markús Halldórsson, f. 16. október 1949.

Ásdís lauk barnaprófi frá Melaskólanum í Reykjavík og gagnfræðaprófi frá Hagaskóla. Að loknu gagnfræðaprófi starfaði hún hjá ÍSAL. Hún starfaði sem flugfreyja, m.a. við pílagrímsflug, hjá Arnarflugi. Hún starfaði við ferðamál alla sína starfsævi, m.a. hjá Úrvali, Terra, og Úrvali-Útsýn. Um aldamótin flutti Ásdís til Noregs ásamt Evu dóttur sinni þar sem hún starfaði áfram að ferðamálum hjá Íslandsferðum.

Útför Ásdísar fór fram 12. september í Osló. Minningarathöfn og jarðsetning fór fram frá Fossvogskappellunni í Reykjavík 25. september 2018.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

(V. Briem.)

Leiðir okkar Ásdísar hafa legið saman frá því í kringum 1970, eða fyrir tæpum fimm áratugum. Samskipti okkar hafa alltaf einkennst af þægilegheitum, góðmennsku, kærleika og virðingu. Ásdís hafði mjög góð áhrif á alla í kringum sig. Hún var greiðvikin, blíð og „rosalega góð kona“ eins og ein frænka hennar orðar það. Þetta eru sömu eiginleikar og einkenndu móður hennar og föður. Ásdís starfaði um tíma við að vísa til sætis í Háskólabíói, en það var mikil virðingarstaða í þá daga. Sætavísurnar voru með vasaljós og vísuðu bíógestum til sætis. Ein lítil frænka minnist þess að hún sá „Sound of Music“ sjö sinnum fyrir tilstuðlan Ásdísar frænku. Frá Háskólabíói var stutt í Granaskjól 26, þar sem elskulegir foreldrar hennar Magnús Ástmarsson, prentari, forstjóri Gutenberg og borgarfulltrúi, og Elínborg Guðbrandsdóttir kennari höfðu búið fjölskyldu sinni fallegt heimili sem var opið stórfjölskyldunni og fjölda vina – enda barnahópurinn stór og honum fylgdu enn fleiri börn. Granaskjól 26 var í enda götunnar. Fyrir framan húsið myndaðist óviðjafnanlegt leiksvæði þar sem börnin úr hverfinu söfnuðust saman og fóru í ýmsa leiki. Leiksvæðið fyrir framan húsið var framlenging af heimilinu sem var yndislegt í minningu svo margra. Ásdís ólst upp við mikinn samgang á milli fjölskyldna föður- og móðursystkina sinna. Hún ólst einnig upp við það ásamt elstu systkinum sínum að þurfa að gæta yngri systkina sinna eins og gerist og gengur í stórum systkinahópum. Hún hélt því hlutverki áfram eftir að hún varð fullorðin.

Þegar Ádís eignaðist Jóa minnist ein sjö ára frænka hennar þess að Ásdísi fannst ekkert skemmtilegra en að liggja með litlu frænku á stofugólfinu í Granaskjóli þar sem þær nutu þess að lita saman í litabækur. Ásdís fór ekki í manngreinarálit.

Eftir gagnfræðapróf í Hagaskóla fór Ásdís að vinna. Hún vann á skrifstofu hjá ÍSAL og síðan mjög lengi hjá Ferðaskrifstofunni Úrvali-Útsýn. Hún varð vel að sér í öllu varðandi ferðamál. Eftir að Eva fæddist fannst Ásdísi ekkert eðlilegra en að bjóða einni frænku með þeim til Mallorca svo Eva hefði félagsskap og frænkan kæmist til Spánar. Hún hélt sambærilegu starfi áfram þegar hún flutti síðar til Noregs. Þrátt fyrir fjarlægðina milli Noregs og Íslands hefur hún veitt eftirlifandi bróður sínum umhyggju og alúð með stuðningi Jóa, sem heldur því mikilvæga umhyggjuhlutverki áfram.

Það fór ekki á milli mála hvað skipti Ásdísi mestu máli. Hún sagði við mig fyrir stuttu: „Börnin mín eru mitt stolt og gleði.“ Hún átti varla orð til að lýsa því hvað hún var stolt af því að vera amma. Magnús var í hennar augum „algjör gimsteinn“.

Ég sendi börnum Ásdísar og öðrum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Dýrmætar minningar um „rosalega“ góða konu, móður, ömmu, systur, frænku og vinkonu lifir.

Far þú í friði

Friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.)

Valgerður Snæland Jónsdóttir.