Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson
„Þessi fundur var fyrst og fremst hugsaður af minni hálfu til að leiða fólk saman til að skapa sameiginlegan vettvang fyrir bændur, verslun og neytendur til að bera saman bækur sínar og ræða með málefnalegum hætti helstu viðfangsefnin sem verið er...

„Þessi fundur var fyrst og fremst hugsaður af minni hálfu til að leiða fólk saman til að skapa sameiginlegan vettvang fyrir bændur, verslun og neytendur til að bera saman bækur sínar og ræða með málefnalegum hætti helstu viðfangsefnin sem verið er að glíma við,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Tíðarandinn breyttur

„Það skortir oft á að fulltrúar þessara þriggja aðila hittist á sameiginlegum vettvangi þar sem hægt er að varpa upp spurningum sem í sameiningu er hægt að veita einhver skynsamleg svör við,“ segir Kristján sem fannst fundurinn góður og málefnalegur, og þar hafi komið fram mörg áhugaverð sjónarmið og athugasemdir. Hann hyggst fylgja fundinum frekar eftir.

„Eins og ég skynjaði þetta er stærsta verkefnið okkar hversu hratt tíðarandinn breytist og hversu mikilvægt það er fyrir verslunina, stjórnvöld og bændur að mæta breyttum áherslum neytenda. Þörfum þeirra og kröfum um fjölbreytni, gæði og heilnæmi þeirrar vöru og matvæla sem þeir eru að leita eftir hverju sinni.“

Hlusta þarf betur á neytendur

Kristján segir mikla áherslu þurfa að vera á neytendahlið landbúnaðarins, þar sem tekið er mið af kröfum neytenda. „Það þarf að vera miklu meiri áhersla á það, hvernig sem við förum síðan að því. Heimamarkaðurinn okkar, innanlandsframleiðsla og innanlandsneyslan er það sem við þurfum einhvern veginn að vera sífellt vakandi fyrir. Hvernig hlutirnir breytast og hvernig við mætum þeirri kröfu sem er á hverju skeiði,“ segir Kristján og bendir á að mikill snúningur hafi orðið t.d. í neyslu á lambakjöti en ársneysla á hvern landsmann hafi á þrjátíu, fjörutíu árum farið úr 40-45 kílóum á hvern landsmann niður í 20 kíló á mann.