Lögmaður Kristjönu Valgeirsdóttur, fjármálastjóra Eflingar, mótmælir í yfirlýsingu ýmsum ummælum Gunnars Smára Egilssonar um hana í skrifum hans um málefni Eflingar og reikninga eiginkonu sinnar. Lögmaðurinn, Lára V.

Lögmaður Kristjönu Valgeirsdóttur, fjármálastjóra Eflingar, mótmælir í yfirlýsingu ýmsum ummælum Gunnars Smára Egilssonar um hana í skrifum hans um málefni Eflingar og reikninga eiginkonu sinnar. Lögmaðurinn, Lára V. Júlíusdóttir, segir að í skrifunum komi fram falskar og rangar ávirðingar og ljóst að þær séu alvarleg aðför að mannorði hennar og meira en nægt tilefni til meiðyrðamáls og kröfu miskabóta á hendur Gunnari Smára. Lára segir þó að enn hafi ekki verið tekin ákvörðun um málsókn.

Í yfirlýsingunni segir að skrif Gunnars séu full af tilhæfulausum ásökunum og ávirðingum sem séu til þess eins gerðar að koma af stað óhróðri um Kristjönu. Tilgangur hans sé sýnilega ekki annar en að sverta mannorð hennar og leitast við að draga úr þeim trúverðugleika sem hún hafi ætíð notið innan Eflingar. „Það hlýtur að teljast mjög ómaklegt að ráðast með þessum hætti gegn starfsmanni í ábyrgðarstarfi á skrifstofu stéttarfélags og lítillækka hann og vanvirða með tilhæfulausum ásökunum, starfsmanni sem nú um stundir er óvinnufær vegna veikinda,“ segir þar.