Ásta Guðjónsdóttir fæddist í Vogatungu, Leirársveit, 10. febrúar 1927. Hún lést á Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili, 25. september 2018.

Foreldrar hennar voru Halldóra Böðvarsdóttir og Guðjón Jónsson í Vogatungu.

Ásta var yngst átta systkina sem nú eru öll látin. Þau voru auk hennar: Ólöf, Böðvar, Ólafur, Elín, Engilbert, Sigurður og Anna.

Ásta giftist Garðari Bergmann Benediktssyni 17. febrúar 1945. Börn þeirra eru í aldursröð: Fóstursonur, Benedikt Rúnar Hjálmarsson, hann lést árið 1990. Eftirlifandi eiginkona hans er Friðgerður Elín Bjarnadóttir. Þau eiga þrjú börn, Kolbrúnu, Ástu og Ívar Örn, og fimm barnabörn. Drífa, gift Jóhannesi Jóni Eyleifssyni, þau eiga fjögur börn, Garðar, Eyleif Ísak, Lindu Dröfn og Lovísu, og sex barnabörn. Skúli, kvæntur Lilju Kristófersdóttur, þau eiga þrjú börn, Jón Örn, Edit og Kristrúnu, og fimm barnabörn. Halldóra Jóna Garðarsdóttir, gift Gunnlaugi Sölvasyni, þau eiga fjóra syni, Arnar Bergmann, Bjarka Bergmann, Garðar Bergmann og Rúnar Bergmann, og 14 barnabörn. Guðrún, gift Karli Erni Karlssyni, þau eiga tvö börn, Rakel og Styrmi, og fimm barnabörn

Auk þess að vera húsmóðir vann Ásta ýmis störf utan heimilis, aðallega við ræstingar, afgreiðslustörf og saumaskap hjá Akraprjóni og 66° norður. Einnig prjónaði hún lopapeysur fyrir Handprjónasamband Íslands í mörg ár. Hún var mikil handverkskona, skapandi og listræn í sér, hvort sem var í saumaskap, útsaumi, að prjóna eða hekla. Hún var ljóðelsk og las heilmikið. Hún hafði gaman af ferðalögum og ferðaðist mikið um landið með góðum vinum. Seinni árin fór hún einnig nokkrum sinnum til útlanda, til Hollands og Kanaríeyja.

Ásta ólst upp í Vogatungu en bjó síðan alla tíð á Akranesi, fyrst á Mánabraut 5 en lengst af í Stekkjarholti 22. Síðustu árin bjó hún á Höfða, hjúkrunar- og dvalarheimili.

Útför Ástu fer fram frá Akraneskirkju í dag, 11. október 2018, klukkan 13.

Elskuleg móðir mín lést á Dvalarheimilinu Höfða 25. sept. á 92. aldursári.

Mamma var yngst átta systkina og var ein eftirlifandi. Hún fæddist á Vogatungu í Leirársveit og ólst þar upp á mannmörgu heimili, að hennar sögn alltaf líf og fjör, þó að föðurmissir í æsku hafi skilið eftir djúp sár.

16 ára fór hún sem vinnukona á Akranes og lærði heilmikið um heimilishald og matseld. Á þessum árum kynnist hún pabba. Þau giftu sig þegar hún var 18 ára og þurfti forsetabréf til.

Mamma var aðeins 20 ára þegar þau tóku Rúnar að sér í pössun, en hann varð þeirra sonur upp frá því. Síðan komum við systkinin hvert af öðru og vorum við orðin fimm þegar mamma var 29 ára.

Við áttum góða æsku, mamma vann heima lengi vel. Á heimilinu bjó amma Dóra einnig. Mannmargt heimili, en allt gekk smurt, enda jafnaðargeð og jákvæðni mömmu ótrúleg.

Hún sá til þess að öll hefðum við ýmislegt að fást við. Hún lagði mikið upp úr því að við værum vandvirk og stæðum okkur vel í skóla. Mikið var spilað og lærðum við allt frá ólsen upp í brids og ekki má gleyma listinni að leggja kapal.

Ung lærði hún að sauma og fór á námskeið í sníðamennsku. Hún var mikil listakona í raun, hafði næmt auga fyrir hvað passaði saman og saumaði ótal flíkur upp úr öðrum.

Þetta varð til þess að við systkinin fengum ekki búðarföt fyrr en seint og síðar meir að okkur fannst. Allt var hannað og saumað af henni og vann hún við saumaskap mestan hluta starfsævi sinnar.

Mamma var líka flinkur bakari og kökuskreytir, hafði mjög gaman af að teikna fyrir okkur, og ekki má gleyma rithöndinni, sem var afar falleg.

Ég er þakklát fyrir ófáar tjald- og sveitaferðir. Í lengri ferðum var stoppað oft, borðað nesti og farið í leiki, rifjuð upp nöfn á ám og fjöllum. Lengi vel voru þau með vinum í ferðahóp, sem hét Hringsjá, og fóru vítt og breitt um landið í rútu. Þetta var góður félagsskapur, sem við nutum góðs af líka.

Ásta, mamma mín, bar sannarlega nafn með rentu, var ástúðleg við alla sem hún kynntist á lífsleiðinni. Kalli minnist þess oft hversu mamma og pabbi tóku vel á móti honum í fyrsta sinn, 16 ára stráklingi, og var það honum ómetanlegt.

Rakel og Styrmir sóttu mikið í samvistir með ömmu Ástu. Tengdasonur okkar sagði einhverju sinni að mynd af Ástu ætti að vera myndskýring á orðinu amma. Þannig var hans upplifun. Síðar á göngum Höfða hélt hún áfram að gefa af sér, hún þurfti að klappa og kyssa alla sem hún mætti. Þannig var Ásta í Vogatungu.

Þú ert gull og gersemi

góða besta mamma mín.

Dyggðir þínar dásami

eilíflega dóttir þín.

Vandvirkni og vinnusemi

væntumþykja úr augum skín

Hugrekki og hugulsemi

og huggun þegar hún er brýn.

Þrautseigja og þolinmæði

– kostir sem að prýða þig.

Bjölluhlátur, birtuljómi,

barlóm lætur eiga sig.

Trygglynd, trú, já algjört æði.

Takk fyrir að eiga mig.

(Anna Þóra)

Elsku besta mamma mín, mikið var ég heppin að eiga þig að. Þín verður minnst um ókomin ár af mér og mínum fyrir skilyrðislausa ást og hlýju.

Þín dóttir,

Guðrún.

Hinsta kveðja til yndislegrar mömmu okkar.

Mamma

ég vild´ að ég gæti

ort um þig ódauðleg ljóð,

boðið þér fínustu sæti,

gefið þér dýrastan sjóð.

Þú gafst mér lífið – og ævi þín

fór í að vera mér góð.

Mamma

þú varst verndarengill æsku minnar.

Mamma

hvern dag ég hugsa enn til gæsku þinnar.

Þú hafðir á mér gætur,

hvern dag og andvökunætur.

Sérhverjum vanda þú komst í lag,

það, er mín hamingja í dag.

Mamma

þú átt það besta í því sem núna ég er.

Ég er alltaf barnið þitt

og enn í dag er minn hugur dvelur

með þér.

Mamma

með þér.

(Þorsteinn Eggertsson)

Hvíl í friði, elsku mamma.

Við kveðjum þig með söknuði, virðingu og þakklæti fyrir allt sem þú varst okkur og fjölskyldum okkar.

Drífa, Skúli, Halldóra og Guðrún.

Þegar einhver fellur frá

fyllist hjartað tómi

en margur síðan mikið á

í minninganna hljómi.

(Kristján Hreinsson)

Elskuleg tengdamóðir mín, Ásta Guðjónsdóttir, er fallin frá og minningarnar hrannast upp. Þú varst hjálparhellan okkar Rúnars á fyrstu búskaparárunum og alla tíð. Passaðir börnin okkar, gafst góð ráð, hjálpaðir við saumaskap og svo ótal margt fleira. Ég hefði ekki getað óskað mér betri tengdaforeldra en ykkur Garðars. Hlýja og ástúð streymdi frá ykkur báðum í allar áttir. Það er svo gott að eiga góðar minningar, þær getur enginn tekið frá okkur. Takk fyrir öll árin okkar, elsku Ásta, þú varst yndisleg mamma, tengdamamma, amma og langamma sem verður sárt saknað. Ég er sannfærð um að þú hefur fengið góðar móttökur og opna arma í Sumarlandinu. Guð geymi þig.

Þín tengdadóttir,

Friðgerður.

Í dag kveðjum við elsku ömmu Ástu sem var okkur svo kær. Margar áttum við stundirnar með ömmu og afa á Stekkjó og alltaf var gott að koma í heimsókn til þeirra, bæði svo ljúf og yndisleg og móttökurnar ávallt hlýjar. Þegar við systurnar vorum litlar eyddum við mörgum aðfangadagskvöldum hjá ömmu og afa og það var ómissandi hluti af jólahaldinu í mörg ár. Síðar meir þegar barnabörnunum hafði fjölgað og hópurinn stækkað var alltaf jólaboð hjá þeim og var alveg ótrúlegt hve margir komust fyrir í íbúðinni þeirra á Stekkjó. Alltaf var pláss fyrir alla. Þetta er svo sterkt í minningunni hjá okkur systkinunum. Amma og afi voru dugleg að halda utan um alla fjölskylduna, samgangurinn var mikill og sem dæmi hittumst við oft í kringum afmælið hans afa sem var á miðju sumri og gerðum eitthvað skemmtilegt.

Okkur er minnisstætt að þegar amma var að vinna í Akraprjóni þá saumaði hún á okkur systurnar peysukjóla og ullarjakka sem við vorum ákaflega montnar með. Hún prjónaði líka ullarpeysu á pabba, sem hann notaði í smíðavinnu allt til dauðadags og Ívar hefur síðan notað í sínum vinnuferðum í mörg ár. Hún var iðin við að sauma og prjóna og var flink í höndunum. Amma Ásta var afar hógvær og það var lýsandi fyrir hana þegar hún vildi ekki gera mikið úr öllum veitingunum sem hún bar á borð í jólaboðum eða öðrum veislum, og kallaði hnallþórur og aðrar kræsingar gjarnan „óttalegar drullukökur“.

Um leið og við syrgjum elsku ömmu Ástu lítum við til baka með gleði í hjarta og þakklæti fyrir alla þá ást og umhyggju sem hún gaf af sér til okkar.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Guð geymi þig, elsku amma Ásta.

Kolbrún, Ásta og Ívar Örn.

HINSTA KVEÐJA
Elsku amma.

Ég kveð þig amma með söknuð
í hjarta,
faðmur þinn opinn, þú umvafðir alla.
Kærleikur og hlýja, brosið þitt bjarta,
ljós þitt nú lýsir þegar degi fer
að halla.

Þú saumaðir, lagðir kapal og
spil aðir á spil,
dýrmætu stundirnar, á Stekkjó var gaman.
Minningarnar geymi, þær veita mér yl,
innst inni ég brosi, þið ferðist
nú saman.
(Lovísa Jóhannesdóttir)

Takk fyrir allt, hvíl í friði.
Lovísa og Drífa Katrín.