Nú á síðustu dögum kom út bókin „130 vísnagátur“ eftir Pál Jónasson í Hlíð á Langanesi sem var kúabóndi í 20 ár en býr nú aðallega með æðarkollur og orð.

Nú á síðustu dögum kom út bókin „130 vísnagátur“ eftir Pál Jónasson í Hlíð á Langanesi sem var kúabóndi í 20 ár en býr nú aðallega með æðarkollur og orð. Áður hafa komið út eftir hann „Vísnagátur“ árið 2012 og „Hananú – 150 fuglalimrur“, eftirminnileg og bráðskemmtileg bók enda er höfundurinn náttúrubarn.

Í formála hinnar nýju bókar segir Páll: „Oftast er sama lausnarorðið í öllum línunum, en til að gera leikinn fjölbreyttari og skemmtilegri þá er staf eða stöfum stundum bætt við eða tekinn burt stafur eða stafir úr lausnarorðinu til að fá enn eina merkingu:

Notuð hún við útsaum er,

einn í burt er málmur.

Hana snót í hári ber,

henni eftir lyfið fer.

Hér er lausnarorðið nál. Saumnál, einn í burt (n)ál, hárnál og sprautunál.

Annað dæmi:

Bæjarnafn sem algengt er,

einn í plús er þjófavörn.

Hæsta spil á hendi þér,

heiðinn guð, og ráðið börn.

Hér er lausnarorðið ás; bærinn Ás, l-ás, ás í spilum og ás (guð) í ásatrú.“

Ég hef dundað við það á kvöldin að leysa gáturnar eða leysa ekki, – slík hugarleikfimi er í senn skemmtileg og þroskandi.

Páll er gott limruskáld, – hér leikur hann sér með stíl og orð í „Amerískri bíómynd í lit“:

Efnið var snauðara en snautt

um lík sem var dauðara en dautt,

og blárri en blá

var bólsenan grá,

en blóðið var rauðara en rautt.

Síðan kemur „Hótel Ísland“:

Starfslið er færra en fátt

og kjötið er smærra en smátt,

og hrárra en hrátt

og þrárra en þrátt

en verðið er hærra en hátt.

Nú er ekki úr vegi að rifja upp fuglalimrur eftir Pál, – „Lóan í flokkum flýgur“:

Hún horfir á flokkinn sinn fara

þennan frjálsa vængjaða skara,

hún vængbrotin er

og veit hvernig fer

þegar haustar á norðurhjara.

Þá er „Nostalgía“:

„Við síladráp áður ég undi,“

sagði aldraður, værukær lundi.

„Þá hræddist ég fátt

og hafið var blátt

og gaman á Grímseyjarsundi.“

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is