Ráðherra Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðaði til fundarins.
Ráðherra Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, boðaði til fundarins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Andri Steinn Hilmarsson ash@mbl.is Miklar umræður spunnust um landbúnaðarmál á fundi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um tækifæri í íslenskum landbúnaði.

Andri Steinn Hilmarsson

ash@mbl.is

Miklar umræður spunnust um landbúnaðarmál á fundi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um tækifæri í íslenskum landbúnaði. Fundurinn var haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins í gær og voru þar mættir fulltrúar bænda, neytenda, verslunar og stjórnvalda. Fundurinn var vel sóttur og voru umræðurnar heilt yfir mjög jákvæðar.

Afmarki ríkisstuðning við búgreinar sem hafa byggðagildi

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, var fyrstur framsögumanna. Fjallaði hann um það í erindi sínu að í landbúnaði væru um fjögur þúsund störf og hlutur atvinnugreinarinnar í landsframleiðslu væri um eitt prósent. Nauðsynlegt væri að taka upp annars konar styrkjafyrirkomulag sem tryggði betri tekjudreifingu en gamla kvótakerfið og að hugsa þyrfti um byggðastefnu sem lífskjarastefnu með það að markmiði að tryggja jöfnuð tekna í landinu öllu. Sýndi hann því til stuðnings dreifingu miðgildis tekna eftir landshlutum þar sem landbúnaðarsvæðin koma mun verr út en önnur svæði á landinu. Þá sagði hann mikilvægt að afmarka ríkisstuðning við þær búgreinar sem raunverulega hefðu byggðagildi, en ekki við verksmiðjur með hvítt kjöt, þ.e. svínakjöt og kjúklingakjöt, og miða ætti styrki til landbúnaðar við innanlandsneyslu.

Samkeppni að utan fari fram á jafnréttisgrunni

Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri Bændasamtakanna var næstur með erindi en hann benti á að 17.900 manns byggju í strjábýli á Íslandi, eða rétt rúmlega fjórfaldur fjöldi þeirra starfa sem í landbúnaði eru. Hann sagði mikilvægt að bændur seldu réttu söguna með meiri og betri upplýsingum til neytenda og að tækifæri væru í staðbundnum matvælum og ferðaþjónustu. Þá ætti íslenskur landbúnaður tækifæri í framleiðslu fleiri afurða og aukinni vinnslu, en Ásgeir hafði komið inn á sama punkt í erindi sínu þar sem hann talaði um að auka breiddarhagræði íslensks landbúnaðar. Þá tóku þau Brynhildur Pétursdóttir, formaður Neytendasamtakanna, og Jón Björnsson, stjórnarformaður Krónunnar, til máls og töluðu um breyttar kröfur neytenda.

Björt Ólafsdóttir, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar, Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sunna Gunnars Marteinsdóttir, verkefnastjóri hjá MS, og Finnur Árnason, forstjóri Haga, komu þá í pallborð og fóru yfir tækifæri íslensks landbúnaðar og voru á einu máli um að styrkja þyrfti nýsköpun í landbúnaði á Íslandi. Sagði Finnur þar að neytandinn væri á endanum sá sem stýrði ferðinni, sem endanlegur kaupandi vörunnar, og því þyrfti með hvatningu og nýsköpun að horfa til neytandans. Óli Björn sagði enga atvinnugrein hafa aukið framlegð eins mikið og íslenskir kúabændur hefðu gert á undanförnum árum. Ljóst væri að samkeppni við íslenskan landbúnað ætti eftir að aukast á næstu árum og því þyrfti að ákveða með hvaða hætti þeirri samkeppni yrði mætt. Sagði hann að í sínum huga væri krafa að samkeppnin færi fram á jafnréttisgrunni þar sem íslenskur landbúnaður væri í samkeppni við ríkisstyrktan landbúnað erlendis.