Guðmundur Arnar Hermannsson fæddist á Akureyri 21. maí 1962. Hann lést á heimili sínu 28. september 2018.

Foreldrar hans eru hjónin Hermann Guðmundsson útgerðarmaður frá Árskógssandi, f. 22. apríl 1940, og Margrét Ágústa Arnþórsdóttir úr Glerárþorpi, f. 17. ágúst 1938. Systkini hans eru Agnes Eyfjörð, Arnþór Elvar, Heimir og Jónína Hafdís.

Árið 1984 stofnaði Guðmundur heimili á Árskógssandi ásamt eiginkonu sinni, Önnu Guðrúnu Snorradóttur frá Krossum, Árskógsströnd, f. 4. desember 1965. Foreldrar hennar eru hjónin Snorri Eldjárn Kristjánsson, bóndi og hreppstjóri frá Hellu, f. 7. janúar 1917, d. 23. ágúst 1987, og Anna Soffía Sigurlaug Gunnlaugsdóttir, bóndi frá Brattavöllum, f. 5. febrúar 1934.

Börn þeirra eru Sigurlaug Dröfn f. 25. maí 1985, Hermann, f. 8. maí 1988, Hjörvar Blær, f. 15. október 1998, og Hafrún Mist, f. 13. október 2002.

Sín fyrstu ár bjó Guðmundur í Sandgerði, Akureyri. Á þriðja aldursári fluttist hann ásamt foreldrum sínum í Pálmalund á Árskógssandi þar sem hann bjó öll sín æskuár. Guðmundur byrjaði til sjós sem háseti árið 1976 á sínu fjórtánda aldursári. Eftir grunnskólapróf lá leiðin í Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum og öðlaðist hann þaðan skipstjórnarréttindi af 2. stigi árið 1982. Að námi loknu starfaði hann sem skipstjóri og stýrimaður á Arnþóri EA 16 og Sæþóri EA 101 sem gerðir voru út af G. Ben Árskógssandi. Árið 2001 stofnaði hann útgerð ásamt föður sínum og bræðrum. Þar vann hann ýmis störf bæði á sjó og í landi allt til loka.

Útförin fer fram í Stærra-Árskógskirkju í dag, 11. október 2018, klukkan 14.

Elsku bróðir. Nú hefur þú kvatt okkur alltof snemma eftir erfið veikindi sem þú þurftir því miður að lúta í lægra haldi fyrir.

Þú varst næstelstur í okkar systkinahópi en bara tvö ár voru á milli okkar og vorum við því í miklum samskiptum alla tíð.

Íþróttir áttu hug okkar allan og fylgdumst við að þar, minnist ég þess hvað þú hafðir mikið keppnisskap og fórst alltaf af stað með það að markmiði að vinna.

Við tókum líka báðir snemma þá ákvörðun að feta í fótspor pabba og gerast sjómenn, drifum okkur hvor í sinn stýrimannaskólann og útskrifuðumst úr skipstjórnarnámi sama ár eða 1982.

Ég guttinn var þá nýkominn með bílpróf og var farinn að huga að kaupum á bíl en þú þegar búinn að festa kaup á flottum Volvo og til marks um góðmennsku þína, þá býður þú mér afnot af honum sem mér þótti mjög vænt um og sýnir hve fallega þú hugsaðir til litla bróður.

Samskipti okkar hafa alla tíð verið mikil. Við stunduðum sjómennsku saman nánast óslitið frá fermingu, stofnuðum okkar eigin útgerð ásamt litla bróður og pabba, við vorum einnig svo lánsamir að búa hvor á móti öðrum og samgangur því mikill á milli okkar og fjölskyldna okkar.

Þú varst alltaf mikið snyrtimenni og vildir hafa fínt í kringum þig, við vorum því oft samstiga að bardúsa í görðunum okkar þegar tími gafst til og kölluðumst við gjarnan á yfir götuna svona til að athuga hvernig gengi eða til að gera góðlátlegt grín hvor að öðrum.

Ég mun sakna þess mikið að heyra ekki lengur köllin frá þér yfir til okkar og heyra þig ekki lengur kalla á Gunnu þína til að fá álit á hinu og þessu eða bara til að spjalla.

Þú varst líka mikill fuglaáhugamaður og var krían í miklu uppáhaldi hjá þér. Þú fylgdist vel með komu farfuglanna og spurðir okkur gjarnan hvort við hefðum séð hina og þessa fuglategundina þann morguninn.

Eftir að þú greindist með þennan sjúkdóm þá þurftir þú að fara í land en komst þó einn og einn túr þegar heilsan leyfði en varst alltaf mættur á kranann í löndun.

Þú hringdir daglega um borð til að taka stöðuna á aflabrögðum, veðri og hvernig hefði gengið og sama hvernig gangurinn var hjá okkur þá sagðir þú alltaf: þetta er bara fínt.

Þú varst heldur ekki fyrir að gefast upp og ætlaðir svo sannarlega að sigrast á þessum veikindum.

Lýsir það hugarfari þínu svo vel þegar við bræður sóttum endurmenntun í Slysavarnaskólanum fyrir rúmum mánuði, heilsunni farið að hraka en þú ákveðinn í að endurnýja þín réttindi til að vera klár um borð þegar þar að kæmi.

Elsku bróðir. Við yljum okkur við góðar minningar sem munu alltaf lifa í hjörtum okkar, minnumst allra samverustundanna með fjölskyldum okkar, bústaðaferðanna, ferðanna til útlanda en við vorum búnir að plana aðventuferð eitthvað út í heim með konunum okkar, sem þú varst svo spenntur fyrir.

Við þökkum þér svo mikið fyrir samfylgdina gegnum öll árin og munum alltaf vera til staðar fyrir elsku Gunnu þína, Sigurlaugu, Hermann, Hjörvar og Hafrúnu sem voru þér allt.

Arnþór, Erla

og Aníta Rut.