Sigurður Demetz Franzson fæddist í St. Ulrik í Grödendal í Suður-Týról, á landamærum Austurríkis og Ítalíu, 11.10. 1912, sonur hjónanna Franz og Mariu Demetz.

Sigurður Demetz Franzson fæddist í St. Ulrik í Grödendal í Suður-Týról, á landamærum Austurríkis og Ítalíu, 11.10. 1912, sonur hjónanna Franz og Mariu Demetz. Hann var skírður Vincenz og kenndur við bæinn Four en tók upp íslenskt nafn er hann settist hér að.

Sigurður stundaði söngnám vetrarlangt í Padova á Ítalíu og var í læri hjá Vincenzo Pintorno, nafntoguðum flautuleikara og hljómsveitarstjóra. Berklaveiki og hörmungar stríðsins hömluðu mjög söngferli hans, en þó þáði hann vegtyllur af heimsþekktum hljómsveitarstjórum eins og Karajan og Böhm og söng við ýmis virtustu óperuhús Evrópu, svo sem í Zürich, Bern og Barcelona, og við Scala-óperuna, fyrst 1949.

Sigurður kom til Íslands 1955, kenndi hér söng og ílengdist hér á landi. Hann sinnti söngkennslu og kórstjórn í Reykjavík, Keflavík, á Akureyri og víðar, söng í óperum og á fjölda tónleika hér á landi og í Ríkisútvarpinu.

Meðal íslenskra óperusöngvara sem stunduðu nám hjá Sigurði má nefna Kristján Jóhannsson, Gunnar Guðbjörnsson, Guðjón Óskarsson, Erling Vigfússon, Jón Sigurbjörnsson, Kolbein Ketilsson og Guðbjörn Guðbjörnsson. Jafnframt var hann vinsæll fararstjóri um árabil fyrir fjölda útlendinga í kynnisferðum um landið.

Sigurður Demetz var sæmdur stórriddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu söngmenntunar á Íslandi, riddarakrossi ítalska ríkisins og kjörinn heiðursborgari í fæðingarbæ sínum. Hann var verndari Nýja söngskólans – Hjartansmáls.

Sigurður Demetz kvæntist Þóreyju Sigríði Þórðardóttur árið 1960, en hún lést árið 1992.

Systkini Sigurðar Demetz, öll yngri, eru Ulrike, læknisfrú, Ivo, forstjóri, Franz, listamaður, og Giancarlo, húsvörður, sem er látinn.

Ævisaga Sigurðar kom út árið 1995.

Sigurður lést 7.4. 2006.