Ásgeir Orri stofnaði Stop Wait Go nýskriðinn upp úr menntaskóla.
Ásgeir Orri stofnaði Stop Wait Go nýskriðinn upp úr menntaskóla. — Ljósmynd/Stefán John Turner
Pétur Hreinsson peturhreins@mbl.is Útgefendur eru loksins byrjaðir að fá þær tekjur sem þeir eiga skilið að mati Ásgeirs Orra Ásgeirssonar hjá plötuútgáfuteyminu Stop Wait Go.

„Við lítum kannski ekki á okkur sem týpíska tónlistarmenn. Þó að við séum auðvitað tónlistarmenn hefur þetta alltaf snúist um að reka fyrirtæki. Þetta er framleiðslufyrirtæki sem selur vöru. Allt sem við gerum er sniðið að þörfum þeirra sem vinna með okkur og frá því að við byrjuðum höfum við meira og minna fylgt leiðbeiningum eða sýn þeirra sem leita til okkar,“ segir Ásgeir Orri Ásgeirsson, einn þriggja meðlima í tónlistarútgáfuteyminu Stop Wait Go.

Með Ásgeiri í teyminu eru Pálmi Ragnar bróðir hans og Sæþór Kristjánsson. Þeir voru að vissu leyti brautryðjendur í íslensku tónlistarlífi og með þeim fyrstu til að opna Íslendingum dyrnar að nútímapopptónlist eins og heyrist í Bandaríkjunum. Núorðið ættu margir Íslendingar að þekkja afurðir Stop Wait Go. Frá árinu 2010 hafa þeir samið og framleitt mörg af vinsælustu lögum landsins fyrir listamenn á borð við Friðrik Dór, Steinda jr., Pál Óskar og fleiri. Þeir hafa einnig komið að fjölmörgum öðrum verkefnum, gert vel lukkaða auglýsingaherferð fyrir Inspired by Iceland, og auglýsingar fyrir Gló og Hagkaup svo eitthvað sé upptalið.

Fjölbreyttir tekjumöguleikar

Blaðamaður settist niður með Ásgeiri í stúdíói útgáfuteymisins. Nýgenginn út var rapparinn Herra Hnetusmjör og það virðist nóg um að vera hjá þríeykinu. Útgáfufyrirtækið stofnuðu þeir nýskriðnir úr menntaskóla, 2010-11, og þremur til fjórum árum síðar var tónlistarsköpun orðin full atvinna. En útgáfubransinn á Íslandi er nokkuð skammt á veg kominn og því þurfa Stop Wait Go-menn að bregða sér í margra kvikinda líki.

„Tekjumöguleikarnir liggja í rauninni í mörgum og fjölbreyttum verkefnum, sem er mjög gaman. Við erum að taka upp, við semjum lög og útsetjum. Mixum, masterum og allt þar á milli. Það er náttúrlega alltaf einhver peningur í því að reka stúdíó en við erum að reyna að ýta tiltölulega óþekktum markaði í rétta átt,“ segir Ásgeir spurður um tekjumöguleikana í þessum bransa. „Við viljum berjast fyrir þeim sem eru á bak við tjöldin eins og við, því það vill oft verða þannig að pródúsentinn fær ekki eins mikið og hann á skilið, hvorki hvað varðar peninga né viðurkenningu,“ segir Ásgeir.

„Við erum nýbyrjaðir að semja þannig að við getum fengið borgað ef laginu gengur vel,“ segir Ásgeir og bendir á að ýmsar greiðslur, t.d. stefgjöld, séu farnar að skipta meira máli fyrir þá félaga. Þær greiðslur séu hærri en þær voru og aukinn fjöldi laga úr smiðju Stop Wait Go geti loksins skilað þeim einhverju á þeim vettvangi. Þar komi tónlistarveitur á borð við Spotify sterkar inn og bendir Ásgeir í því samhengi á greitt aðgengi að stórum hópi sem hægt sé að nálgast milliliðalaust, án plötufyrirtækja eða sambærilegra aðila.

Starfsemin var frosin erlendis

„En við semjum líka þannig að við tökum bara eina greiðslu af því það veitir okkur mesta vernd. Fólk leitar til okkar og kaupir ákveðna þjónustu. Við semjum þá um eitt verð í flestum tilfellum í skiptum fyrir masterinn á laginu,“ segir Ásgeir og á þar við hina áþreifanlegu upptöku af laginu.

„Við hvetjum alla þá sem eru að taka upp, gera takta eða semja tónlist fyrir aðra á landinu að sjá til þess fyrirfram að það gangi allir jafnir út úr viðskiptunum,“ segir Ásgeir.

Ásgeir segir að ástríða þeirra félaga sé að geta einbeitt sér 100% að því að semja popptónlist. Árið 2011 sömdu þeir við bandaríska umboðsskrifstofu en þeir bjuggu frá 2012-13 í Los Angeles og aftur frá seinni hluta árs 2013 til 2014. Það hafi hins vegar ekki farið eins vel og þeir vildu en þeir áttuðu sig fljótt á því að samningarnir sem þeir gerðu voru ekki fyrir þá og reyndu að losna undan þeim.

„Það sem gerist svo er að umboðsskrifstofan hættir að sinna okkur og skaffa okkur verkefni og við hættum að vinna fyrir þá,“ segir Ásgeir og bætir því við að samningurinn hefði líklegast verið ógildur sökum vanefnda á Íslandi en hlutirnir séu flóknir í Bandaríkjunum. Aðrir erlendir aðilar vildu ekki semja við þá félaga þar sem þeir voru skuldbundnir umboðsskrifstofunni. „Við gátum því ekki leitað á önnur mið meðan þessi samningur var í gildi því hvert sem við fórum var samningurinn álitinn kvöð sem aðrir útgefendur og umboðsmenn höfðu enga ástæðu til að blanda sér í. Á meðan við vorum skuldbundnir þessum samningi var því í raun öll starfsemi frosin erlendis,“ segir Ásgeir, en samkvæmt ákvæði í samningnum var Stop Wait Go meðal annars skylt að greiða til umboðsskrifstofunnar 15-20% hlut af öllum tekjum þeirra fyrir verkefni sem þeir útveguðu jafnvel sjálfir.

„Samningarnir sem við skrifuðum undir voru mjög einhliða. Við vorum ungir og vitlausir og skrifuðum undir lélegan samning í góðri trú í gegnum sameiginlega vini. Á sínum tíma fannst okkur þetta frábært tækifæri,“ segir Ásgeir.

„En seinna meir, síðustu þrjú, fjögur árin, höfum við þurft að þola virkilega erfiða tíma út af þessu. Við hefðum viljað færa út kvíarnar til Evrópu, en það var bara mjög takmarkað aðgengi út af þessum samningum. Við vorum fastir og reyndum oft að rifta. En það var enginn hvati fyrir umboðsskrifstofuna til þess að sleppa okkur,“ segir Ásgeir, sem segir að besta niðurstaðan hafi á endanum verið sú að láta samninginn renna út.

Sjö árum síðar eru félagarnir frjálsir menn, ef svo má að orði komast, og standa þeim nú allar dyr opnar. „Nú erum við t.d. að byrja að gefa út tónlist undir okkar eigin nöfnum og það er ýmislegt skemmtilegt fram undan,“ segir Ásgeir. „Við viljum gera lag sem verður vinsælt úti um allan heim. Það er kannski okkar helsta ástríða í þessum bransa,“ segir Ásgeir aðspurður um markmið þeirra félaga. „Það er auðvitað hellingur af peningum í þessu í Bandaríkjunum en þú þarft ekki einu sinni að fara þangað. Norðurlöndin, og lönd víðar í Evrópu, Þýskaland, Austurríki og Sviss, samsvara öðrum stærsta tónlistarmarkaði í heiminum. Útgefendur nú til dags, í gegnum Spotify, eru loksins byrjaðir að fá pening.“