Sundahöfn Mikill fjöldi gáma setur svip sinn á athafnasvæði Eimskips og Samskips. Spáð er áframhaldandi aukningu á flutningum um höfnina næstu ár.
Sundahöfn Mikill fjöldi gáma setur svip sinn á athafnasvæði Eimskips og Samskips. Spáð er áframhaldandi aukningu á flutningum um höfnina næstu ár. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Með góðu samstarfi allra lykilfyrirtækja og skipulagsyfirvalda við mótun á stefnu hafnarinnar, markvissri uppbyggingu, góðum samgöngum á landi og geymslusvæðum til dæmis í vaxandi mæli í útjaðri byggðar ætti Sundahöfn að nýtast marga áratugi inn í framtíðina.

Þetta er niðurstaða skýrslu sem ráðgjafarsvið KPMG hefur tekið saman. Faxaflóahafnir sf. fengu fyrirtækið til þess að skoða starfsemina í Sundahöfn út frá þróun í flutningum, áhrifaþætti á þá þróun, áætlað vörumagn til framtíðar og nýtingu lands auk fleiri þátta. Í nýlegri skýrslu um atvinnustarfsemi í Sundahöfn kemur m.a. fram að þar eru nú yfir 100 fyrirtæki og starfsfólk í þeim fyrirtækjum um 3.500.

Faxaflóahafnir hafa um nokkra hríð verið með til skoðunar skipulagsmál á Sundahafnarsvæðinu, m.a. með landgerð utan Klepps og nýjum viðlegubakka fyrir stækkandi skip. Ljóst er að framboð á lóðum í Sundahöfn er takmarkað og eftirspurn langt umfram það sem mögulegt er að verða við. Sundahöfn er hins vegar lykilhöfn í inn- og útflutningi. „Þess vegna er mikilvægt að höfnin geti sinnt hlutverki sínu til lengri framtíðar. Í því sambandi eru nokkur atriði sem mikilvægt er að hafa í huga þegar starfsemin í Sundahöfn og skipulag er skoðað. M.a. hefur fyrirhuguð lega Sundabrautar áhrif svo og krafa um aukna hagkvæmni í nýtingu lands og skipulag umferðaræða til og frá framstöðvunum,“ segir m.a. á heimasíðu hafnanna.

Í skýrslu KPMG segir að með því að byggja upp í markvissum skrefum vel skipulagða og tæknivædda gámahöfn og góðar samgöngur til og frá henni og að vöruhúsa- og geymslusvæðum í næsta nágrenni eða lengra í burtu sé hægt að nýta Sundahöfn um mjög langa framtíð. Geymslu- og vöruhúsasvæði gæti verið í vaxandi mæli í útjaðri byggðar þar sem landrými er nægt og góðar tengingar við aðra samgönguinnviði, t.d. á Esjumelum, Hólmsheiði, sunnan Hafnarfjarðar og á Grundartanga.

Yrði fyrst og fremst gámahöfn

Sundahöfn yrði fyrst og fremst gámahöfn og fyrir skemmtiferðaskip en önnur starfsemi yrði víkjandi á svæðinu. Til að rýma fyrir gámahöfn, þar sem áherslan væri á hagfellda nýtingu á landi og mikinn veltuhraða, gætu vörur sem geymdar eru til lengri tíma á svæði næst höfn færst annað þegar þörf er á slíku, til dæmis gætu bílar færst á lokað svæði utan hafnarsvæðis eða yrði skipað upp í annarri höfn í vaxandi mæli. Slíkt þyrfti að vinnast með tollyfirvöldum og jafnvel lagabreytingu. Að sama skapi gæti fóðurmóttaka og geymsla einnig flust annað, t.d. til Þorlákshafnar.

Í Sundahöfn þyrfti að koma upp þjónustu/aðstöðu til að mæta kröfum um umhverfisvæna orkugjafa fyrir skip, það er rafmagn og/eða LNG, sem er skammstöfun fyrir fljótandi gas.

Stærð lands í Sundahöfn er 166 hektarar en samkvæmt aðalskipulagi 2010- 2030 er það áætlað 175 ha. Í breytingu á skipulagi er fyrirhuguð stækkun um fimm hektara.

Í Sundahöfn skiptist gámamarkaðurinn milli Eimskips og Samskips. Lóðir sem Eimskip leigir af Faxaflóahöfnum í Sundahöfn nema alls um 32 ha. en Samskip leigir alls um 24 ha. Samtals leigja þessi tvö stærstu skipafélög landsins um 42% af lóðum í Sundahöfn.

Fram kemur í skýrslunni að á árinu 2017 fóru alls um 310.000 TEU af gámum um Sundahöfn. Á næstu áratugum má búast við að heildarfjöldi TEU í Sundahöfn á ári vaxi töluvert en spár gera ráð fyrir að flutningsmagn á alþjóðavísu muni aukast um 3,2% að jafnaði árlega á tímabilinu 2017- 2022. Eftir bankahrunið drógust flutningar til Íslands saman en hafa aukist á seinni árum.

Þróun flutningsmagns og hagvaxtar hefur haldist í hendur.

Til skýringar þá er TEU mælieining, meðal annars til að sýna flutningsgetu gámaskips eða geymslurými gámaafgreiðslu. Ein TEU jafngildir gámi sem er 20 fet á lengd, átta fet á breidd og átta og hálft fet á hæð að ytri málum.