[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Guðrún Erlingsdottir ge@mbl.is „Allt frá því ég komst yfir þýðingu á Reisubók séra Ólafs Egilssonar fyrir nokkrum árum hefur sagan ekki látið mig í friði. Hvernig var fyrir Ástu, konu séra Ólafs, að fæða barn í ræningjaskipi?

Viðtal

Guðrún Erlingsdottir

ge@mbl.is

„Allt frá því ég komst yfir þýðingu á Reisubók séra Ólafs Egilssonar fyrir nokkrum árum hefur sagan ekki látið mig í friði. Hvernig var fyrir Ástu, konu séra Ólafs, að fæða barn í ræningjaskipi? Hvernig var að vera þræll í ókunnu landi og hvernig var líðanin þegar 11 ára sonur var seldur frá fjölskyldunni? Hvernig var að koma í ólíka menningu og loftslag? Hvernig tókst Ástu að aðlaga sig í ánauðinni? Hvernig var líðanin að skilja börnin eftir í Alsír og hvernig gekk Ástu að aðlagast lífinu í Vestmannaeyjum þegar hún kom til baka úr ánauðinni? Þetta er meðal þess sem leitaði á huga minn við lestur Reisubókar Ólafs,“ segir Sally Magnússon, rithöfundur og sjónvarpskona hjá BBC, sem skrifaði bókina Sagnaseið sem fjallar um Tyrkjaránið árið 1627 og afleiðingar þess þegar meira en helmingur íbúa Heimaeyjar var drepinn eða fluttur í ánauð til Alsírs.

Sally leitaði heimilda í Reisubók séra Ólafs Egilssonar sem tekinn var til fanga á Heimaey ásamt konu sinni Ástu og tveimur börnum en þeim hjónum fæddist sonur um borð í ræningjaskipinu á leið til Alsírs. Egill, eldri sonur hjónanna, er tekinn strax frá foreldrum sínum við komuna til Alsírs og seldur en Ólafur, Ásta, barnung dóttir þeirra og nýfæddur sonur voru seld til sama þrælahaldara sem freistaði þess að senda sr. Ólaf til Danmerkur til þess að beiðast lausnargjalds frá konungi fyrir Íslendinga í ánauð í Alsír.

„Ólafur skrifar frásögnina í rauntíma. Frá því að lagt var úr höfn frá Vestmannaeyjum þar til 34 eru leystir úr ánauðinni og hluti þeirra kemst aftur til Íslands níu árum síðar. Ólafur stendur sig vel sem fréttaritari en hann skrifar reisubókina undir þungu trúarmáli og líkt og aðrir sagnamenn þess tíma ritar hann lítið sem ekkert um konu sína. Almennt var ekki sagt frá konum nema þær væru drottningar. Mér fannst spennandi að nýta mér frelsi skáldsögunnar í bland við ritaðar heimildir. Ég varð að skálda allt sem viðkom Ástu nema það að hún var kona séra Ólafs, átti fjögur börn, var hneppt í ánauð og kom til baka,“ segir Sally, sem er dóttir hins þekkta sjónvarpsmanns Magnúsar Magnússonar, sem flutti ungur til Skotlands með íslenskum foreldrum.

„Ég er hálfur Íslendingur og pabbi deildi Íslandi með okkur systkinunum. Hann kynnti okkur fornsögurnar. Pabbi skrifaði mikið um Ísland og þýddi meðal annars Laxdælu, Njálu og fleiri fornsögur yfir á ensku,“ segir Sally, sem minnist föður síns sitjandi við ritvélina að slá inn sögurnar.

Á ferð með Vigdísi um landið

Sagnaseiður er tileinkuð gömlum fjölskylduvini, Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.

„Árið 1976 kom ég til sumarvinnu hjá Ferðaskrifstofu ríkisins í þeim tilgangi m.a. að læra íslensku. Ég bjó hjá föðurbróður mínum. Hann var nýfluttur með fjölskylduna frá Svíþjóð og talaði ekki mikla íslensku. Um helgar kom Vigdís og keyrði mig um landið. Hún sagði mér sögur af tröllum, álfum og selfólki,“ segir Sally, sem lagði mikla áherslu á að skoða gögn sem til eru um Tyrkjaránið. Sally fann mikið af upplýsingum í Sagnheimum – byggðasafni Vestmannaeyja og á gosminjasýningu í Eldheimum, sem varpaði ljósi á draum selkonunnar sem dreymdi eldgos sem varð rúmum þremur öldum síðar.

Sally segist m.a. hafa notið góðs af rannsóknum Þorsteins Helgasonar prófessors sem hann notaði í bók sinni The Corsairs' Longest Journey: The Turkish Raid in Iceland 1627 og rannsóknum Steinunnar Jóhannesdóttur vegna skrifa hennar á Reisubók Guðríðar Símonardóttur.

„Steinunn gerir sögu Guðríðar vel skil og það er merkilegt að varðveist hafi heillandi brot úr bréfi Guðríðar sem hún sendi alla leið frá Algeirsborg til Eyjólfs eiginmanns síns í Vestmannaeyjum.“ En Guðríður, eins og margir vita, giftist Hallgrími Péturssyni sálmaskáldi, sem hún kynntist þegar hún var skikkuð til endurmenntunar í kristinni trú í Kaupmannahöfn á leið heim til Íslands úr ánauðinni í Alsír.

„Ég heillaðist af Ástu, eiginkonu Ólafs, annars af prestum Eyjanna. Hinn presturinn, Jón Þorsteinsson, sem kallaður var píslarvottur eftir dauða sinn, dó með guðsorð á vörum eftir að sjóræningjar höfðu hálshöggvið hann,“ segir Sally, sem svarar í skáldsögunni spurningum sem komu í huga hennar varðandi upplifanir Ástu sem móður og eiginkonu sem er tekin úr umhverfi sínu og flutt til framandi landa í ánauð; konu sem þarf að horfa á eftir 11 ára syni seldum í ánauð, eiginmanni sem sendur var um langan veg og óvíst hvort þau hittust aftur. „Hún þurfti að venjast nýjum siðum, nýju loftslagi, öðruvísi mat og að vera svipt frelsi sínu. Elsta dóttir Ástu og Ólafs var ekki í Eyjum þegar Tyrkirnir komu og Ásta veit ekki í níu ár hvernig hennir reiðir af,“ segir Sally og bætir við að þegar Ásta losni úr langþráðri ánauð verði hún að skilja ung börn sín eftir í Alsír og fái aldrei að vita hver örlög þeirra urðu. Eftir allt sem á Ástu hefur verið lagt þarf hún að aðlagast lífinu án barnanna í Vestmannaeyjum, í kulda, myrkri og harðri lífsbaráttu. Ásta og Ólafur þurfa einnig að takast á við hjónabandið eftir níu ára aðskilnað, missi og sorg.

„Það þurfa allir sögur til þess að lifa af. Sögurnar sem hún kom með frá Íslandi hjálpuðu henni að komast af,“ segir Sally og veltir því upp hvað geri það að verkum að manneskjan geti tekist á við stór áföll.

Sally segir að Sagnaseiður taki einnig á því hvernig maðurinn geti aðlagað líf sitt algjörlega nýjum aðstæðum. „Í sögunni eiga Ásta og Cilleby þrælahaldari hennar í einhvers konar rökræðu-ástarsambandi og takast á við siðferðisspurninguna um það hvort ránsferðir og strandhögg norrænna víkinga hafi verið eitthvað betri eða verri en ánauðin sem alsírsku sjóræningjarnir hnepptu Íslendinga í,“ segir Sally sem er ánægð með viðtökurnar sem bókin hefur fengið frá því hún kom út í Bretlandi í febrúar á þessu ári. Þar í landi heitir bókin The Sealwoman's Gift en Sagnaseiður í íslenskri þýðingu Urðar Snædal.

„Bókin hefur verið tilnefnd af Historical Writers's Association til verðlauna sem ein af sex bókum í flokknum Frumraun sögulegra skáldsagna. Bókin hefur hlotið góða dóma í bókaklúbbum og sjónvarpsþáttum,“ segir Sally og bætir við að bókin hafi opnað augu Breta fyrir Tyrkjaráninu á Íslandi og ekki síður fyrir því hversu lítið breska þjóðin veit um sambærilega atburði á Írlandi og í Bretlandi þar sem hundruð manna frá suðurströnd Englands voru hneppt í ánauð.

Muna hvar á að fela sig

„Það virðist algjör þögn um þessi mál í sögu Bretlands, en nú eru fræðimenn í Cornwall farnir að skoða þetta þögla tímabil. Á sama tíma þekkir næstum því hvert mannsbarn á Íslandi söguna. Mér hefur verið sagt frá því að enn lifi fólk á Austfjörðum sem muni eftir því að hafa verið sagt hvar þau ættu að fela sig ef Tyrkirnir kæmu,“ segir Sally, sem þykir mikið til þess koma hvernig Íslendingar hafa haldið sagnahefðinni við.

Sally kom til Íslands í þeim tilgangi að taka þátt í ráðstefnu ISBA-samtakanna en Sally skrifaði árið 2014 bókina Handan minninganna sem fjallaði um glímu móður hennar við alzheimer.

Í dag kl. 17 verður Sally viðstödd þegar Sagnaseiður verður kynntur í Landakirkju í Vestmannaeyjum. Staðsetningin á vel við þar sem legsteinn sr. Ólafs Egilssonar er í anddyri kirkjunnar og flutt verða lög Lilju Þorbjörnsdóttur tónskálds við texta sr. Jóns Þorsteinssonar. Að sögn Sallyar og Helgu Hallbergsdóttur, safnstjóra í Sagnheimum, hefur áhugi ferðamanna aukist á Tyrkjaráninu eftir að The Sealwoman's Gift kom út.

Sally vinnur nú að bók sem gerist á miðri 19. öld og segist hlæjandi vera að færa sig nær nútímanum.