Stytta Skúli fógeti í Víkurgarði.
Stytta Skúli fógeti í Víkurgarði.
Ekki eru áformuð nein jarðvegsskipti í Víkurgarði (Fógetagarði), hinum forna kirkjugarði á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis í Reykjavík í tengslum við byggingu nýs hótels á svokölluðum Landssímareit.

Ekki eru áformuð nein jarðvegsskipti í Víkurgarði (Fógetagarði), hinum forna kirkjugarði á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis í Reykjavík í tengslum við byggingu nýs hótels á svokölluðum Landssímareit. Þetta segir Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúi Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið.

Fram kom í gær að gögn sem blaðið fékk frá Minjastofnun sýndu að starfsmenn þar hefðu áhyggjur af því að mikið rask væri framundan í hluta Víkurgarðs þar sem merkt hefði verið inn á teikningar borgaryfirvalda af svæðinu að gera yrði ráð fyrir sérstöku björgunarsvæði við vesturhlið nýja hótelsins, þar sem inngangur verður, og hafa þar sérstyrkt undirlag. Töldu starfsmenn Minjastofnunar að þetta gæti þýtt að skipta yrði um allt að 20% jarðvegs í garðinum.

Nikulás Úlfar segir að þetta sé misskilningur. Sérstyrkt undirlag geti allt eins falið í sér breiðari hellur en nú eru í Víkurgarði.