Jóhannes Loftsson
Jóhannes Loftsson
Eftir Jóhannes Loftsson: "Frelsi og ábyrgð eru mun farsælli fyrir þróun fiskeldis en vanhugsuð forsjárhyggja."

Hvernig ætli það mundi ganga að opna nýja veitingastaði, ef veitingasalar væru ávallt krafðir um að leggja fram valkosti fyrir yfirvöld, sem síðan ættu lokaorðið um hvers konar veitingarekstur mætti fara fram, óháð viðskiptahagsmunum veitingasalans.

Hvernig ætli það mundi ganga ef flugfélög yrðu ávallt krafin um að leggja fram valkosti yfir nýja áfangastaði fyrir yfirvöld, sem síðan ættu lokaorðið um hvert mætti fljúga, óháð viðskiptahagsmunum flugfélagsins.

Slíkt mundi aldrei ganga. Í samkeppnisumhverfi verða fyrirtæki að hámarka hagnaðinn og enginn kemst upp með að elta vitlausar viðskiptahugmyndir. Hvorki veitingasalinn né flugfélagið hafa því nokkurt val ef hið opinbera leyfir aðeins vitlausu hugmyndirnar. Báðir verða að hætta við áformin, ellegar tapast fjárfestingin.

Í nýlegum úrskurði úrskurðarnefndar auðlinda og umhverfismála, vegna fiskeldis á Vestfjörðum, var rekstrarleyfi fellt niður því úrskurðarnefnd krafði framkvæmdaraðila að skoða aðferðir eins og „notkun geldfisks, eldi á landi, eldi í lokuðum sjókvíum eða minna sjókvíaeldi“. Allar þessar hugmyndir fela í sér grundvallarbreytingu á viðskiptalíkaninu og byggjast ýmist á tækni sem er enn í þróun eða er mun óhagkvæmari.

Þar sem umhverfismat er opið ferli, sérsniðið að því að gefa hagsmunaaðilum tækifæri til að hafa áhrif á matsvinnuna meðan á henni stendur, þá er ansi undarlegt að slíkar getgátur séu að fá vægi löngu eftir að ferlinu er lokið. Enn undarlegri er sú nálgun, að fara að þvinga framkvæmdaraðila til að rannsaka fjárfestingakosti sem hann vill ekki fjárfesta í. Með því er í raun verið að breyta matsferlinu í skrípaleik. Hvers konar umfjöllun búast menn við að framkvæmdaaðilinn skili um viðskiptahugmynd sem hann er afhuga? Hlutlausri umfjöllun? Auðvitað á að afmarka matsferlið við raunverulega fjárfestingakosti sem að framkvæmdaraðili vill fjárfesta í en ekki við slíkar gervisviðsmyndir. Framkvæmdaaðilinn er sá eini sem ber ábyrgð á fjárfestingunni og því þarf að leyfa honum að taka viðskiptaákvörðunina. Ef hann telur aðeins eina nálgun koma til greina, þá ætti í matsferlinu ýmist að leggjast gegn henni eða mæla með henni með eða án skilyrða. Yfirvöld eiga hins vegar aldrei að leggja til nýjar viðskiptahugmyndir.

Hin hlið þessa máls, sem flækir það, er að veiðirétthafar laxveiðiáa óttast að verða fyrir tjóni frá fiskeldinu og þar sem erfitt gæti verið að sækja bætur eru margir þeirra andsnúnir eldinu. Veiðiréttur þeirra afmarkast hins vegar við laxveiðiána og getur því aldrei gefið þeim neinn einokunarrétt til að hindra hagkvæma uppbyggingu annarra atvinnugreina. Það er heldur aldrei réttlætanlegt að kæfa alla nýsköpun með því að dæma frumkvöðla fyrirfram seka fyrir glæpi sem þeir hafa ekki framið. Sérstaklega ef ætlað tjón er mikið til fjárhagslegt og því bætanlegt.

Þannig væri vel hægt að mæta sjónarmiðum beggja aðila með því að auka ábyrgð fiskeldisfyrirtækjanna t.d. með skýrari skaðabótaábyrgð og kröfu um öflugri tryggingar gegn sannanlegu tjóni. Fiskeldisfyrirtækið sæi þá enn meiri hag í því að gæta ýtrustu varkárni, á sama tíma og réttindi veiðirétthafa væru betur tryggð.

Frelsum fiskeldið

Í fyrra nam fiskeldisútflutningur Norðmanna 940 milljörðum íslenskra króna og taldi 72% af sjávarfangaútflutningstekjum þeirra. Hér á landi nam fiskeldið ekki nema um um 7% af útflutningstekjum sjávarafurða. Vaxtamöguleikar fiskeldis eru því af stærðargráðu sem sjaldan hefur sést áður hér á landi. En ef Íslendingar vilja ekki sitja eftir þá verður að leyfa greininni að þróast á hagnaðargrundvelli. Vanhugsuð forsjárhyggja sem tekur ekkert tillit til viðskiptaumhverfisins á ekkert erindi í viðskiptaákvarðanir því ósjálfbær iðnaður getur ekki vaxið. Ef frumkvöðlum í greininni væri gefið frelsi til að bera ábyrgð á eigin framtakssemi, yrði öll slík forsjárhyggja óþörf og greinin mundi þróast eðlilega með heilbrigð hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi. Leyfum fiskeldisiðnbyltingunni að byrja. Frelsum fiskeldið.

Höfundur er formaður frjálshyggjufélagsins. lififrelsid@gmail.com

Höf.: Jóhannes Loftsson