Fræðsla Fræðararnir Kári Sigurðsson og Andrea Marel og Anna Lilja Ómarsdóttir skólahjúkrunarfræðingur.
Fræðsla Fræðararnir Kári Sigurðsson og Andrea Marel og Anna Lilja Ómarsdóttir skólahjúkrunarfræðingur. — Morgunblaðið/Líney
Líney Sigurðardóttir Þórshöfn Fræðsluverkefnið Fokk Me-Fokk You sem er í höndum þeirra Andreu Marel og Kára Sigurðssonar var kynnt ungmennum og foreldrum þeirra á Þórshöfn í vikunni. Einnig fóru þau til Vopnafjarðar.

Líney Sigurðardóttir

Þórshöfn

Fræðsluverkefnið Fokk Me-Fokk You sem er í höndum þeirra Andreu Marel og Kára Sigurðssonar var kynnt ungmennum og foreldrum þeirra á Þórshöfn í vikunni. Einnig fóru þau til Vopnafjarðar.

Fræðslan á Þórshöfn var fyrir nemendur 6.-10. bekkjar en skólahjúkrunarfræðingurinn Anna Lilja Ómarsdóttir átti frumkvæði að því að fá þau Andreu og Kára með þessa fræðslu í grunnskólann.

Fokk Me-Fokk You -fræðslan fjallar einkum um sjálfsmynd, samfélagsmiðla og samskipti kynjanna, kynhneigð og kynvitund, virðingu í samskiptum, einelti og fleira sem brunnið getur á ungmennum landsins.

Að sögn Andreu og Kára voru unglingarnir áhugasamir og eru almennt mjög meðvitaðir um margvísleg vandamál, t.d. þau sem fylgt geta samskiptamiðlum en margir þekktu dæmi úr netheimum um óviðeigandi notkun þeirra. Fram kom að ungmenni telja sig oft vanta úrræði ef þau lenda í vandræðum tengdum samskiptamiðlum, t.d. vegna óviðeigandi eða meiðandi skilaboða.

Í fræðslunni er áhersla lögð á að upplýsa ungmenni um leiðir og aðstoð lendi þau í þannig aðstæðum og minnt á að ábyrgðin er ekki þolandans. Ungmenni eru almennt mjög virk á samfélagsmiðlum eins og Facebook, Instagram eða Snapchat og ákveðin pressa eða streita fylgir oft þessari notkun, að sögn Andreu og Kára.

Komið var inn á mikilvægi virðingar í öllum samskiptum og að sömu reglur gildi í netsamskiptum sem og í beinum samskiptum ásamt því að ræða um gildi sjálfsmyndar en sterk sjálfsmynd stuðlar jafnan að betri samskiptum milli fólks.

Verkefninu vel tekið

Fokk Me-Fokk You- fræðsluverkefninu hefur verið vel tekið á landinu enda um þarfa umræðu að ræða meðal ungmenna og foreldra þar sem samfélagsmiðlar gegna sífellt stærra hlutverki í lífi fólks, ekki síst ungmenna. Á aðalfundi Samfés í fyrra var það valið besta verkefnið í opnum flokki á vettvangi frítímans og hafa félagsmiðstöðvar víða um land sýnt verkefninu áhuga.

Þau Andrea og Kári hafa í fjölda ára unnið með unglingum í félagsstarfi en auk þess hafa þau farið í ýmsa landshluta með þessa þörfu fræðslu.