Helga Fríða Kolbrún Jóhannesdóttir fæddist 28. febrúar 1940. Hún lést 28. september 2018.

Útför Kolbrúnar fór fram 9. október 2018.

Hrikalega finnst mér erfitt að vera svona langt að heiman á svona erfiðum tímum.

Elskuleg amma mín komin á annan og betri stað.

Ég á ekki margar minningar um hana þegar hún var heilbrigð og í fullu fjöri en man þó að hún var alltaf svo glöð og brosandi. Hún hafði svo gaman af að heyra frá því hvað við værum að gera og var sérstaklega áhugasöm ef við höfðum einhverjar vandræðalegar og fyndnar sögur til að segja henni.

Síðan ég fékk fréttirnar að hún væri farin þá er ég búin að vera að söngla „Somewhere over the rainbow“ endalaust í hausnum mínum vegna þess að hún söng það alltaf aftur og aftur eftir að hún veiktist og ég heyri röddina hennar á meðan ég syng það.

Hún er reyndar líka eina mállausa manneskjan sem ég þekki sem hefur skráð sig í kór, mér hefur alltaf þótt það svo fyndið. Sérstaklega þegar hún náði að útskýra það að kórstjórinn væri svo myndarlegur.

Elsku amma mín. Ég vona að þér líði betur núna, einhvers staðar í sumarlandinu þar sem þú getur gengið, hlaupið, talað og verið skemmtlegi stríðnispúkinn sem þú varst alltaf aftur.

Ég hef oft og mörgum sinnum skemmt vinum mínum með sögum sem ég hef heyrt um þig, það sem þú hefur sagt og gert og það mun ég aldrei hætta að gera.

Í sögunum og í hjarta okkar allra lifir þú að eilífu. Ég mun sakna þín alltaf, elsku besta amma mín.

Þín

Kolbrún.

Ég var ekki gamall þegar ég áttaði mig á því að allt var heldur flóknara í fjölskyldu pabba en hjá mömmu.

Pabbi átti sex hálfsystkini, sum þekkti ég en önnur lítið. Ég man eftir því að pabbi talaði stundum um Kollu hálfsystur sína sem bjó í Reykjavík og vann á Hressingarskálanum. Þau pabbi voru sammæðra, en Kolla var alin upp á Ánabrekku á Mýrum hjá Jóhannesi föður sínum og fjölskyldu hans.

Pabbi alinn upp á Sauðárkróki hjá móðurforeldrum sínum, en stundum hittust hann og Kolla þegar þau voru bæði í heimsókn hjá móður sinni, henni Laugu ömmu minni.

Sennilega var ég orðinn átta eða níu ára gamall þegar ég hitti Kollu frænku í fyrsta skipti og hún kom eins og stormsveipur á Krókinn.

Pabbi hafði tekið við rekstri Ábæjar, bensínsölu og veitingastaðar á Sauðárkróki.

Hann ætlaði að taka þetta með stæl, setja upp eldhús á staðnum og selja Króksurum og ferðafólki grillaða hamborgara, samlokur og franskar. Auðvitað var enginn betri en Kolla til að kenna starfsfólki réttu handtökin við eldamennskuna.

Ég man ennþá þegar pabbi sagði frá því að Kolla myndi koma á Krókinn og vera í viku við að kenna réttu handtökin og hún hefði tilkynnt honum að hún tæki punglausan kokk með sér.

Ég man að maður velti fyrir sér í hvaða hremmingum þessi kokkur hefði lent, ekki síst vegna þess að Kolla og kokkurinn áttu að gista heima.

Á þessu var auðvitað einföld skýring. Kokkurinn var kona, en orðbragðið lýsti Kollu – aldrei lognmolla, hvorki í orði né á borði.

Kolla var einstaklega dugleg, ósérhlífin og framtakssöm. Hún lét ekkert stoppa sig, enda lét hún til sín taka í veitingarekstri. Fyrst stofnaði hún veitingastaðinn Torfuna ásamt fleirum og síðan Lækjarbrekku sem hún rak í um áratug eða svo. Rúmlega fimmtug varð Kolla fyrir því að fá slæmt heilablóðfall og eftir það tók lífið aðra stefnu.

Samskipti pabba og Kollu voru alla tíð góð og að mörgu leyti voru þau systkin lík. Þegar þau hittust var líf og fjör og ýmislegt látið fjúka.

Þeim þótti vænt hvoru um annað og þó svo að samskipti þeirra hefðu verið minni en systkina alla jafna þá kom það ekki að sök.

Fyrir hönd pabba, okkar bræðra og fjölskyldu okkar sendum við börnum Kollu, þeim Lindu og Gumma og fjölskyldum þeirra, samúðarkveðjur.

Páll Snævar Brynjarsson.