„Maður verður að tileinka sér það nýjasta sem er að gerast til að vera samkeppnishæfur,“ segir Davíð.
„Maður verður að tileinka sér það nýjasta sem er að gerast til að vera samkeppnishæfur,“ segir Davíð. — Morgunblaðið/Hari
Nýr forstjóri er tekinn til starfa hjá Guide to Iceland og tekur við góðu búi af Xiaochen Tian sem verður framkvæmdastjóri fjárfestinga. Framundan er áframhaldandi uppbygging og sókn út á erlenda markaði.

Nýr forstjóri er tekinn til starfa hjá Guide to Iceland og tekur við góðu búi af Xiaochen Tian sem verður framkvæmdastjóri fjárfestinga. Framundan er áframhaldandi uppbygging og sókn út á erlenda markaði.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Fyrirtækið mun leggja áframhaldandi áherslu á þróun hugbúnaðarins og að auka sjálfvirkni til hagsbóta fyrir okkar viðskiptavini. Við munum áfram nota sterka stöðu markaðstorgsins til að koma smærri og meðalstórum fyrirtækjum á framfæri og koma þar með í veg fyrir of mikla samþjöppun og einokun á markaðinum. Ein stærsta áskorunin er að sækja með hugbúnaðinn og viðskiptahugmyndina inn á erlenda markaði.

Hver hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Þau sem hafa haft mest áhrif á mig eru fjölskyldan og vinir. Af þeim eru tveir einstaklingar sem standa upp úr en það eru faðir minn og Davíð Oddsson nafni minn. Báðir eru þeir miklir húmoristar og hafa mikla hæfileika á ólíkum sviðum.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um líf þitt og afrek?

Af einhverri ástæðu hef ég verið kallaður Superman eða Clark Kent í gegnum árin og ætli ég myndi ekki fá einhvern af Superman-leikurunum til að túlka mig. Hver vill ekki bjarga deginum eins og hann gerir?

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Hugbúnaðar- og ferðaþjónustugeirinn er sífellt að taka breytingum og maður verður að tileinka sér það nýjasta sem er að gerast til að vera samkeppnishæfur. Það er fátt skemmtilegra en að fá vandamál sem ég hef ekki fengið áður og þarf að stúdera og lesa mér til um hvernig ég get leyst það.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég stunda líkamsrækt í World Class og finnst skemmtilegt að lyfta. Mig langar að breyta aðeins til og byrja aftur að spila tennis eða stunda hnefaleika til að fá fjölbreytta hreyfingu.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ef ég þyrfti að skipta um starfsvettvang myndi ég fara að kenna á háskólastigi og búa til margmiðlunarkennslubækur. Það er mjög gaman og gefandi að geta hjálpað öðrum einstaklingum. Því miður hef ég ekki mikinn tíma til að sinna kennslu.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Á sínum tíma fékk ég skólastyrk í doktorsnám í Bandaríkjunum. Ég ákvað hins vegar að hætta við þegar ég áttaði mig á því að ég hef ekki það mikinn áhuga á rannsóknum. Það að eyða fimm árum til viðbótar í nám ofan á M.Sc.-gráðu þótti mér of mikið. Ég sé ekki fram á að bæta við mig nýrri prófgráðu en vissulega er ég sífellt að bæta mig og læra nýja hluti.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Stjórnendur fyrirtækisins eru mjög ólíkir, sem er verulegur kostur. Við erum dugleg og óhrædd við að skiptast á skoðunum.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Ég myndi vilja skoða það hvernig á að efla nýsköpunarumhverfið á Íslandi og hvernig við getum bætt heilbrigðisþjónustuna. Allt kostar þetta peninga og því er þetta ekki einfalt.