Bókin Þessi misserin er enginn skortur á bókum sem velta upp þeirri spurningu hvort kapítalisminn sé farinn úr böndunum og/eða lýðræðið í bráðri hættu.

Bókin

Þessi misserin er enginn skortur á bókum sem velta upp þeirri spurningu hvort kapítalisminn sé farinn úr böndunum og/eða lýðræðið í bráðri hættu. Er svo sem ekki skrítið að höfundum sé þetta efni hugleikið því hér og þar má greina merki ofstækis og sundrungar: í Evrópu hafa flokkar á jaðri stjórnmálanna komist til valda og í Bandaríkjunum er forseti við völd sem er þekktur fyrir allt annað en eðlilega hugsun.

Bandaríski blaðamaðurinn og fræðimaðurinn Robert Kuttner gerir efninu skil í nýrri bók: Can Democracy Survive Global Capitalism?

Hann bendir á að sjúkdómseinkennin séu skýr: kjör vinnandi fólks virðast standa í stað á meðan hagnaðartölur fyrirtækja hafa aldrei verið hærri. Öryggisnet samfélagsins er tekið að gliðna og kjósendur bregðast við erfiðri stöðu með því að leita langt út fyrir miðju stjórnmálanna.

Rót vandans, að mati Kuttner, er alþjóðlegur kapítalismi. Hið alþjóðlega kapítalíska kerfi veikir stöðu vinnandi fólks, að mati höfundar, en gefur fjármálastofnunum aukið frelsi og býr til glufur í skattakerfinu sem fyrirtæki nýta sér. Óbeislaður kapítalismi af þessu tagi telur Kuttner að grafi undan stoðum heilbrigðis lýðræðissamfélags. Ef hagkerfið sinnir ekki þörfum almennings þá er einhvers konar uppgjör óhjákvæmilegt, að mati Kuttners, og leggur hann m.a. til þá lausn að setja skorður á innflutning á vörum frá löndum sem fylgja ekki reglum alþjóðahagkerfisins og fara illa með vinnuafl. ai@mbl.is