Abstrakt Verk eftir Nínu Tryggvadóttur sem boðið verður upp í Gallerí Fold.
Abstrakt Verk eftir Nínu Tryggvadóttur sem boðið verður upp í Gallerí Fold.
Meðal verka á 112. uppboði Gallerís Foldar verður sérstaklega gott úrval abstraktverka eftir Nínu Tryggvadóttur og Guðmundu Andrésdóttur, ásamt þremur verkum eftir Þorvald Skúlason og nokkrum eftir Valtý Pétursson og Karl Kvaran.

Meðal verka á 112. uppboði Gallerís Foldar verður sérstaklega gott úrval abstraktverka eftir Nínu Tryggvadóttur og Guðmundu Andrésdóttur, ásamt þremur verkum eftir Þorvald Skúlason og nokkrum eftir Valtý Pétursson og Karl Kvaran. Einnig verða boðin upp verk eftir Kjartan Guðjónsson, Jóhannes Jóhannsson og Jón Engilberts. Uppboðið verður haldið kl. 18 mánudaginn 15. október, en verkin verða forsýnd í dag og næstu daga á afgreiðslutíma gallerísins og til kl. 17 uppboðsdaginn.

Af öðrum uppboðsverkum má nefna olíumálverk eftir Jóhann Briem af stúlku, en afar sjaldgæft er að slíkt verk komi í sölu, og fimm önnur verk sem listamaðurinn vann á pappír. Á uppboðinu verða líka fágæt verk eftir Hörð Ágústsson og Jón Engilberts af fólki í lautarferð, uppstilling eftir Kristínu Jónsdóttur og fantasíulandslag eftir Jóhannes S. Kjarval.

Boðin verða upp fjölmörg verk eftir starfandi listamenn, t.d. akrýlmálverk eftir Tryggva Ólafsson, þrjú málverk eftir Tolla og stórt olíuverk eftir Helga Þorgils Friðjónsson, sem sýnt var í Norðurbryggju í Kaupmannahöfn árið 2008. Einnig verk eftir Jón B.K. Ransu, Hall Karl, Gunnellu og Línu Rut. Af erlendum höfundum má nefna vatnslitaverk úr Íslandsleiðangri sir George Stuarts Mackenzies auk verka eftir Picasso og Salvador Dalí.

Hægt er að bjóða í verkin á staðnum, í gegnum síma og með forboðum.