[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HÓPFIMLEIKAR Ívar Benediktsson iben@mbl.

HÓPFIMLEIKAR

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Við teljum okkur standa í svipuðum sporum varðandi styrkleika kvennaliðsins og fyrir EM fyrir tveimur árum,“ sagði Björn Björnsson, annar yfirþjálfari íslensku landsliðanna í hópfimleikum, þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans í gær. Eftir viku hefst Evrópumeistaramótið í hópfimleikum í Portúgal. Ísland sendir fjögur lið til leiks og hafa strangar æfingar staðið yfir síðustu vikur og mánuði. Alls taka 48 íslenskir keppendur þátt í mótinu. Þeir sýndu listir sínar í fimleikahúsi Stjörnunnar á síðasta laugardag.

Alls verður keppt í sex flokkum á EM, þremur unglingaflokkum og í jafn mörgum flokkum fullorðinna. Eins og áður sendir Ísland ekki keppendur í fullorðinsflokki karla né í unglingaflokki drengja.

Flestra augu munu vafalaust beinast að kvennalandsliðinu en það stóð uppi sem Evrópumeistari 2010 og 2012 en hafnaði í öðru sæti 2014 og fyrir tveimur árum þegar EM fór fram í Maribor.

„Við höfum hvorki meiri né minni væntingar til kvennalandsliðsins nú en fyrir tveimur árum, svo dæmi sé tekið. Liðið er afar reynslumikið og öflugt. Nokkrir keppendur hafa tekið þátt í EM áður, sumir verið með á Norðurlandamótum auk nokkurra nýliða því alltaf er einhver endurnýjun hjá okkur,“ sagði Björn.

Björn kemur inn í hópinn sem yfirþjálfari að þessu sinni eftir að hafa verið fjarri góðu gamni fyrir tveimur árum þegar hann bjó í Ástralíu ásamt konu sinni Hrefnu Þorbjörgu Hákonardóttur sem er hinn yfirþjálfari íslenska landsliðshópsins. Björn var þjálfari kvennalandsliðsins á EM 2010, 2012 og 2014 og Hefna var keppandi í kvennalandsliðinu á EM 2010 og 2012.

Öflugar Norðurlandaþjóðir

Björn segist reikna með að Svíar verði með afar sterkt kvennalið eins og þeirra er venja. Sænska liðið hefur orðið Evrópumeistari í kvennaflokki á tveimur síðustu mótum. Þá séu Danir alltaf með öflugt lið auk þess sem fleiri ríki sæki í sig veðrið, t.d. Finnar. „Við vitum ekki mikið um andstæðingana frekar en áður. Fyrir okkur skiptir öllu máli að búa okkar lið sem best undir keppnina með bjartsýnina að leiðarljósi eins og áður.“

Auk kvennalandsliðsins sendir Ísland lið til leiks í blönduðum flokki karla og kvenna í fullorðinsflokki, í stúlknaflokki og í blönduðum hópi unglinga. Stúlknalið Íslands var Evrópumeistari fyrir tveimur árum en bæði blönduðu liðin hlutu bronsverðlaun en þetta var í fyrsta sinn sem blandað lið fullorðinna krækti í verðlaun á EM.

„Danir hafa sótt mjög í sig veðrið í stúlknaflokki á undanförum árum. Ekki síst í ljósi þess var það gríðarlegt afrek hjá Íslandi að vinna í stúlknaflokki á EM í Slóveníu fyrir tveimur árum,“ sagði Björn Björnsson, annar yfirþjálfari íslensku landsliðanna í hópfimleikum.

Alls senda 16 þjóðir 51 lið til keppni að þessu sinni. Á EM fyrir tveimur árum voru liðin 47 frá 14 þjóðum.

EM í Portúgal
» Fer fram 17.-20. október í Odivelas, úthverfi Lissabon.
» Ísland sendir fjögur lið, hvert skipað tólf keppendum, landslið kvenna, blandað landslið karla og kvenna í fullorðinsflokki, unglingalandslið í kvennaflokki og blandað unglingalandslið stúlkna og pilta.
» Á EM fyrir 2 árum í Maribor í Slóveníu unnu íslensku liðin til tvennra silfurverðlauna og tvennra bronsverðlauna.