Tsai Ing-wen, forseti Taívans, sakaði Kínverja í gær um „alvarlegar ögranir“ gagnvart friði og stöðugleika á Kyrrahafi, og að hafa beitt þrýstingi til að neita Taívönum um viðurkenningu alþjóðasamfélagsins.

Tsai Ing-wen, forseti Taívans, sakaði Kínverja í gær um „alvarlegar ögranir“ gagnvart friði og stöðugleika á Kyrrahafi, og að hafa beitt þrýstingi til að neita Taívönum um viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Einungis 17 ríki hafa viðurkennt Taívan sem ríki, og hefur þeim fækkað um fimm frá því að Tsai tók við embætti fyrir tveimur árum.

Kínverjar hafa haldið því fram allar götur frá árinu 1949 að Taívan sé í raun hluti af Kína, og að á endanum verði eyjan „sameinuð“ meginlandinu á ný, með valdi ef þurfa þykir. Samskipti Kínverja og Taívana hafa hins vegar hríðversnað á undanförnum árum, ekki síst þar sem Tsai viðurkennir ekki stefnu kínverskra stjórnvalda um „Eitt Kína“.

Sagði Tsai í ræðu sinni að hún myndi ekki auka á spennuna í samskiptum ríkjanna, en tók fram að Taívan myndi reyna að styrkja varnir sínar og utanríkissamskipti. Þá myndi hún ekki víkja frá „vilja fólksins“ og fórna „fullveldi Taívans“.

Kínversk stjórnvöld brugðust illa við ræðu Tsai, sem var sjónvarpað í Taívan, og sögðu að hún myndi einungis leiða til enn meiri spennu í samskiptum Kínverja og Taívana.

Sveitarstjórnarkosningar fara fram í Taívan í næsta mánuði, og er talið að stjórnarflokkur Tsais muni fara halloka í þeim.