Síðustu daga hef ég fylgt eftir karlalandsliðinu í fótbolta í litlum bæjum í norðvesturhluta Frakklands, nánar tiltekið Saint-Brieuc og Guingamp. Það fylgdi því nokkurt stress að ná til Saint-Brieuc fyrir fyrstu æfingu en ég var ekki einn í þeim sporum.
Síðustu daga hef ég fylgt eftir karlalandsliðinu í fótbolta í litlum bæjum í norðvesturhluta Frakklands, nánar tiltekið Saint-Brieuc og Guingamp. Það fylgdi því nokkurt stress að ná til Saint-Brieuc fyrir fyrstu æfingu en ég var ekki einn í þeim sporum. Aðrir fjölmiðlamenn þurftu að koma sér í flýti frá París og hið sama gilti um suma leikmenn sem koma úr ýmsum áttum.

Ég hitti til dæmis Hannes Þór Halldórsson í því sem hann lýsti síðar sem miklu stresskasti, á Charles de Gaulle. Hannes virkaði reyndar pollrólegur á mig þar sem hann reyndi að flýta sér í næsta flug, en á endanum varð hann að nýta sér leigubíl og lest til að ná á áfangastað.

Ég vissi reyndar allan tímann að Hannes yrði mættur á fyrstu æfinguna því ég man söguna af því þegar hann fór á þjóðhátíð í Eyjum um árið, þá lærisveinn Þorvaldar Örlygssonar hjá Fram. Hannes átti að vera mættur á æfingu hjá Fram á mánudeginum og það var eina reglan um verslunarmannahelgina. Flugsamgöngur gengu hins vegar eitthvað illa vegna veðurs, og Hannes fór á endanum frá Eyjum sem laumufarþegi í Herjólfi, í skottinu á bíl ef ég man rétt. Hann er sem sagt ekki maður sem missir af æfingu.

Nú er ég í Guingamp þar sem leikið verður við Frakka í kvöld á glæsilegum 18.000 manna velli bæjarliðsins, sem leikur í efstu deild þrátt fyrir að vera í bæ sem hefur helmingi færri íbúa en rúmast á vellinum. Það angrar mann alltaf svolítið að koma til dæmis á svona glæsilega leikvanga á litlum stöðum og hugsa til aðstöðunnar sem landsliðunum okkar í hinum ýmsu greinum er boðið upp á heima á Íslandi. Það bara hlýtur að líða að úrbótum.