Jón Bjarki Bentsson
Jón Bjarki Bentsson
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir tölur Þjóðskrár vísbendingu um að miðborgarálagið sé að festa sig í sessi. Álag á eignir miðsvæðis hafi fyrr á árum verið tiltölulega hóflegt.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir tölur Þjóðskrár vísbendingu um að miðborgarálagið sé að festa sig í sessi. Álag á eignir miðsvæðis hafi fyrr á árum verið tiltölulega hóflegt.

„Í fljótu bragði, án þess að hafa gert samanburð, virðist verðið ekki vera orðið fram úr hófi hátt. Frekar má segja að álagið hafi farið úr því að vera óvenjulágt til þess sem má búast við í miðju þéttbýliskjarna upp á tvö hundruð þúsund manns,“ segir Jón Bjarki sem telur aðspurður að tölur Þjóðskrár Íslands bendi til að jafnvægi sé að skapast á íbúðamarkaði. Fasteignaverðið á höfuðborgarsvæðinu hafi hreyfst í rykkjum síðustu misserin. Verðið hafi hækkað mikið fram undir sumar í fyrra. Svo hafi komið hik á markaðinn en hann tekið við sér í sumar.

„Ég tel að markaðurinn sé að átta sig á breyttu umhverfi þar sem er ekki sami eindregni skortur á framboði. Markaðurinn er greinilega að fikra sig í átt að jafnvægi þar sem greiðslugeta kaupenda annars vegar og söluvilji hins vegar mætast.“

Samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands var meðalfermetraverð seldra íbúða í 101 um 540 þúsund á þriðja ársfjórðungi.

Jón Bjarki segir aðspurður að eftir því sem fasteignaverðið er hærra, og hvert prósent í hækkun vegur þyngra, megi ætla að prósentuhækkanir verði minni en síðustu misseri.

Orðið þyngra fyrir tekjulága

„Með því styttist í að verðið fari framyfir greiðslugetu umtalsverðs hóps kaupenda. Greiðslugetan hefur enda breyst mun hægar,“ segir Jón Bjarki og bendir á að í kraganum í kringum höfuðborgarsvæðið hafi meðalverðið verið umtalsvert undir fjögur hundruð þúsund krónum. Það sé að breytast.

„Á þessu bili virðist vera þyngdarpunktur fyrir stóran hóp kaupenda. Þá til dæmis fjölskyldur með eitt til þrjú björn sem eru að leita að þriggja herbergja íbúðum og upp í sérhæðir. Þess vegna sjáum við eftirspurnina færast jafnt og þétt út frá miðjunni, eftir því sem farið er fjær hálfri milljón á fermetra, og út í jaðrana sem til skamms tíma voru með töluvert lægra verð. Nú er orðið erfiðara fyrir fólk sem hefur fremur lítið milli handanna að kaupa fasteignir á jöðrunum,“ segir Jón Bjarki um stöðu tekjulágra á fasteignamarkaðnum. baldura@mbl.is