Hættur Pétur Júníusson lætur nú staðar numið eftir þrálát meiðsli.
Hættur Pétur Júníusson lætur nú staðar numið eftir þrálát meiðsli. — Morgunblaðið/Golli
Handknattleiksmaðurinn Pétur Júníusson, leikmaður Aftureldingar, hefur lagt skóna á hilluna vegna langvarandi meiðsla en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Handknattleiksmaðurinn Pétur Júníusson, leikmaður Aftureldingar, hefur lagt skóna á hilluna vegna langvarandi meiðsla en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

„Pétur, sem er fæddur 1992, hefur leikið með meistaraflokki Aftureldingar frá árinu 2008. Meiðsli hafa sett mikið strik í reikninginn hjá Pétri frá árinu 2016. Pétur hefur verið lykilmaður í Aftureldingu á síðustu árum og lykilmaður í uppgangi félagsins auk þess að vera stór karakter og einn af leiðtogum liðsins.

Pétur hefur verið einn besti varnarmaður og línumaður deildarinnar og lék sína fyrstu landsleiki árið 2015. Pétri munu alltaf standa opnar dyrnar hjá Aftureldingu og hann mun áfram starfa í kringum liðið og félagið með tíð og tíma,“ segir í fréttatilkynningunni frá Aftureldingu. Pétur lék á ferlinum þrjá A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

„Það er gríðarlegt áfall fyrir okkur að Pétur þurfi að hætta. Hann hefur verið frábær fyrir Aftureldingu síðustu ár og lykilmaður innan sem utan vallar. Pétur er frábær félagi og leiðtogi sem hefur leitt liðið hin síðustu ár. Pétur verður áfram lykilmaður utanvallar hjá okkur í Aftureldingu,“ er jafnframt haft eftir Einar Andra Einarssyni, þjálfara Aftureldingar.

Þegar fjórum umferðum er lokið í Olís-deild karla á þessu keppnistímabili er Afturelding í ágætum málum. Liðið hefur farið nokkuð vel af stað og hefur unnið tvo leiki, gert eitt jafntefli en tapað einum.

Pétur var í liði Aftureldingar sem komst í úrslit Íslandsmótsins tvö ár í röð 2015 og 2016. Tapaði liðið þá fyrir Haukum í báðum tilfellum.

sport@mbl.is