Þýskaland gerir kröfur til annarra en framleiðir kol og brennir af kappi

Ný skýrsla loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sendir svipuð skilaboð og fyrri skýrslur, þ.e. að draga þurfi úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og leggja áherslu á endurnýjanlega orkugjafa. Ísland stendur mjög vel að þessu leyti og ætti að vera fyrirmynd annarra ríkja. Væru öll ríki heims með sambærilega samsetningu orkugjafa og Ísland væri óþarfi að hafa áhyggjur af útblæstri af mannavöldum.

Það er til dæmis sláandi að horfa á orkugjafana hér á landi, að langstærstum hluta nýting vatnsfalla og háhitasvæða, og í Þýskalandi, sem hefur sig mjög í frammi í umræðu um loftslagsmál. Þjóðverjar, og þar með Evrópusambandið, gera miklar kröfur til annarra í þessum efnum, en staðreyndin er sú að í Þýskalandi hefur útblástur gróðurhúsalofttegunda farið vaxandi á allra síðustu árum og lítið þokast niður á við þó að horft sé áratug aftur í tímann. Eini árangur Þýskalands sem heitið getur stafar af sameiningu þýsku ríkjanna og þeirri staðreynd að óhagkvæmum verksmiðjum var lokað í austurhluta landsins eftir fall múrsins. Að öðru leyti er „árangurinn“ aðallega í áætlunum sem lítið útlit er fyrir að gangi eftir. Og Þjóðverjar eru enn að undirbúa nýjar kolanámur og fá um 40% orkunnar frá kolum.

Íslendingar geta verið stoltir af því hvernig þeir framleiða sína orku og ef markmiðið er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu ættu Íslendingar að auka orkuframleiðslu þrátt fyrir viðmið sem sett voru fyrir nokkrum áratugum og henta sameinuðu Þýskalandi en ekki þeim sem þegar höfðu lagt sitt af mörkum í þessum efnum.