Sesselja Sigurrós Gísladóttir fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 11. nóvember 1945. Hún lést í Skagafirði 29. september 2018.

Foreldrar hennar voru Gísli Guðmundsson skipstjóri, f. 14. janúar 1901, d. 22. júlí 1981, og Þorbjörg Guðrún Friðbertsdóttir húsfreyja, f. 14. ágúst 1905, d. 6. maí 1987.

Sesselja átti fjóra bræður; Jóhannes, f. 4. júní 1929, Friðbert Elí, f. 21. júní 1927, d. 2. október 1980, Gísla Pál, f. 7. ágúst 1930, d. 24. maí 1969, og Karl Helga, f. 2. febrúar 1932, d. 3. september 1980.

Hinn 27. desember 1970 giftist Sesselja Viggó Vilbogasyni rafvélavirkja, f. 11. október 1950. Foreldrar hans voru Vilbogi Magnússon, f. 22. apríl 1922, d. 21. ágúst 1994, og Sigurbjörg Rósa Viggósdóttir, f. 17. ágúst 1925, d. 19. janúar 2006. Börn þeirra eru: 1) Gísli Páll Jónsson, f. 19. desember 1962. 2) Sigurbjörg Rósa, f. 10. nóvember 1970, gift Emil Sigurði Magnússyni, f. 19. apríl 1973. Börn þeirra eru Eðvarð Leó Geirsson, f. 27. janúar 1995, og Líney Lea Geirsdóttir, f. 5. júlí 1998. 3) Reynir Örn, f. 24. maí 1976, kvæntur Berglindi Hörpu Helgadóttur, f. 12. maí 1979. Börn þeirra eru Rakel, f. 3. janúar 2001, Harpa Rós, f. 31. janúar 2008, og Emil Örn, f. 6. apríl 2010.

Sesselja, betur þekkt sem Setta, flutti ung suður til Reykjavíkur eftir að hafa alist upp á Suðureyri. Hún starfaði meðal annars á Landakotsspítala og Reykjalundi eftir að hún kom suður og síðar í Ölduselsskóla. Í Reykjavík kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum. Þau bjuggu fyrstu búskaparárin sín á Kleppsvegi 144, en fluttu síðan í Seljahverfið þegar það var í uppbyggingu árið 1976, þar bjó hún ásamt fjölskyldu sinni allt til ársins 1999 en þá færðu þau hjónin sig um set í Grafarvoginn. Hún starfaði í 30 ár hjá Íslensk-ameríska. Setta og Viggó höfðu unun af því að ferðast um landið og fóru um fjöll og firnindi í um 47 ár.

Útför hennar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 11. október 2018, klukkan 13.

Þú gafst mér líf og hlúðir að því alla tíð með þinni einstöku natni og umhyggju. Fyrir það ég þakka. Ég fagna lífinu þínu, þeirri ást og þeim kærleik sem einkenndi æsku þína og lífinu með pabba, börnunum, fjölskyldu og samferðafólki. Ég mun gera allt sem í valdi mínu stendur til að halda heiðri og minningu þinni á lofti allt til æviloka. Eftir það taka börnin mín við og afkomendur þeirra. Þótt þú sért farin frá okkur inn í draumalandið verður þú ætíð með okkur í hjarta, elsku mamma mín.

Þú sagðir mér oft litla fallega minningu úr æskunni, þegar Friðbert langafi féll frá og Ella amma, eins og hún var alltaf kölluð fyrir vestan, var ein eftir í kotinu. Þú og Bjarni Ólafs frændi þinn fóruð á hverju kvöldi og lásuð upp úr Passíusálmunum fyrir hana í tvo vetur. Hún gaf þér bók með sálmunum og kross, sem við komum til með að varðveita. Þú sagðir mér einnig af hjartagæsku hennar og að hún hefði jafnan setið við gluggann í húsinu sínu á horninu og gefið börnunum á Súganda sætamola. Þið amma Tobba voruð steyptar í sama mótið, jafn blíðar og dásamlegar.

Eftir að hafa lesið yfir nokkra sálma tengdi ég mest við 44. Passíusálminn:

Hún finnur ekkert hryggðarstríð,

hörmung né mæðu neina,

í friði skoðar ætíð blíð

ásjónu drottins hreina.

Ástarkveðja og hjartans þökk,

Rósa.

Setjið svartan borða á hvítu dúfurnar, slökkvið á sólinni því Setta er farin yfir í draumalandið, en nei, það myndi tengdamóðir mín ekki vilja og það ætlum við ekki að gera. Við munum fagna lífinu hennar og árunum sem við áttum með henni. Setta, eins og hún var alltaf kölluð, var einhver sú besta og hjartahlýjasta manneskja sem ég hef kynnst. Minningarnar og tíminn sem ég átti með henni er minn allra dýrmætasti fjársjóður sem ég á.

Elsku Setta, það eina sem ég þarf að gera er að loka augunum, þá ertu komin. Það eru forréttindi sem fáir hafa. Hjarta mitt er bogið en ekki brotið í sorginni. Þinn tími var kominn og þú komin á þinn rétta stað með englunum. Þú varst engill í lifanda lífi.

Megi hinn hæsti höfuðsmiður vaka yfir okkur á þessum erfiðu tímum.

Munum að fagna lífi hennar og hlýja okkur við góðar minningar af tengdamóður minni, sem var jú einhver besta tengdamóðir í veröldinni.

Hinsta kveðja frá uppáhaldstengdasyni þínum.

Emil Sigurður.

Þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa um hana Settu.

Umhyggjan sem hún sýndi öllum í kringum sig. Alltaf var fólkið hennar efst í huga hennar.

Fallegar minningar um einstaka manneskju, ljúfa og hjartahlýja, munu ylja okkur sem eftir sitjum.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta,

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Með sorg í hjarta en full þakklætis kveð ég elskulega tengdamóður mína.

Hvíl í friði, elsku Setta.

Þín

Berglind.

Þær eru ófáar minningarnar sem ég á um elsku ömmu mína. Sú minning sem er mér efst í huga og lýsir ömmu best er frá mæðgnaferðinni til Tenerife í maí 2016. Af gömlum vana var amma búin að draga upp ferðatöskuna og tilbúin nokkrum vikum fyrir brottför. Ég, mamma og amma ákváðum loks að láta verða af því að fara saman út og fá forskot á sumarið og gekk ferðalagið út mjög vel. Þegar á hótelið var komið vorum við orðnar ansi svangar og þreyttar eftir langt ferðalag og kom þá amma sem kölluð með handtöskuna sína og lagði á sófaborðið. Úr töskunni dró hún upp lítið Tupperware-box með klípu af smjörva, hangikjöt, flatkökur, plastdiska og plasthnífa. Við fórum saddar og sælar í háttinn og vöknuðum daginn eftir með ömmu tilbúnar í daginn. Amma var búin að taka upp úr ferðatöskunni teygjulök á sólbekkina, vasaljós, fanta lemon og rauðvín svo eitthvað sé nefnt. Þetta lýsir henni svo vel. Hún hugsaði alltaf allt til enda og passaði upp á allt og alla. Ef eitthvað vantaði var amma í 99,9% tilfella með það sem þurfti í veskinu.

Hún var einstök kona sem öllum þótti vænt um og er ég svo ótrúlega lukkuleg að hafa fengið hana sem ömmu.

Elsku amma mín, ég elska þig út af lífinu.

Þín

Líney Lea.

Hvílíkar hörmungarfréttir. Hún elsku Setta okkar farin, skyndilega og langt fyrir sinn tíma. Ég er ekki búin að skilja þetta ennþá og sit hér með tárin í augunum að reynda að setja saman í stuttu máli allar þær yndislegu minningar sem ég á um hana.

Ég kynntist Settu fyrir svo langalöngu að mér finnst ég hafa þekkt hana alla ævi. Við unnum saman í Isam í marga áratugi og hver dagur með henni var skemmtilegur, ég sá hana aldrei í vondu skapi, alltaf var hún jákvæð og hláturmild, hafði frábær áhrif á alla í kringum sig og ég átti mína allra bestu tíma þegar ég vann með henni og Friedel sem er sárt saknað, og fleiri yndislegum konum, hef aldrei skemmt mér betur í vinnunni. Setta var gull af konu, heyrði hana aldrei tala illa um einn eða neinn, alltaf gat ég farið til hennar og leitað ráða og alltaf tók hún mér vel. Og ekki bara mér, þegar dóttir mín fékk sumarstarf í Isam var hún að vinna með Settu og kom heim á hverjum degi með sögur af Settu og hvað hún dýrkaði hana og hlakkaði til að sjá hana næsta dag. Svona voru bara áhrifin sem Setta hafði. Við fórum saman í nokkrar vinnuferðir og var það ómetanlegt að geta setið og spjallað saman í þeim. Hún Setta mín var bara hreint og beint sú besta og heilsteyptasta kona sem ég hef kynnst á ævinni. Ég og fjölskylda mín eigum eftir að sakna hennar sárt, við eigum öll okkar minningar um hana sem okkur þykir mjög vænt um, og getum ekki einu sinni byrjað á því að þakka henni fyrir. Mig langar mikið til að hún hafi vitað hvað hún skipti okkur miklu máli, ég vona að hún hafi vitað það, en hjartað mitt er í sárum núna. Ég og við viljum senda hennar fjölskyldu allar okkar bestu kveðjur og vottum þeim okkar innilegustu samúð. Við elskuðum Settu og munum elska Settu þangað til okkar tími kemur. Hún lifir í minningum okkar og hjörtum.

Elsku Setta mín, takk fyrir allt, takk fyrir að hafa verið eins og þú varst, við elskum þig.

Ragnheiður Lára Hanson.

Í dag kveðjum við okkar elskulegu vinkonu. Minningar um okkar ævintýralegalegu ferðalög innanlands sem utan eru okkur dýrmætar. Næsta áætlaða ferð átti að vera til Póllands í mars. Alltaf tókst okkur að hafa samverustundirnar sögulegar, skemmtilegar og ævintýralegar. Alltaf skipulögðum við ferðir okkar vel og þá var mikið hlegið og sprellað.

Setta var kærleiksrík, hjálpsöm, sú skipulagðasta af okkur og alltaf til staðar.

Innilegar samúðarkveðjur sendum við Viggó og fjölskyldu á þessum erfiðu tímum.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Guðrún og María.

Það er erfitt að trúa því að þú sért farin, elsku Setta mín. Þú sem lýstir upp lífið, lést blómin brosa og græddir með góðmennsku þinni. Ég ætla í örfáum orðum að þakka þér fyrir okkar fallega vinasamband sem við áttum í meira en hálfa öld. Það var ómetanlegt að hafa kynnst þér, þú varst einstaklega góð og trygg vinkona.

Það er margs að minnast gengum öll okkar ár sem við áttum saman. Við áttum mörg sameiginleg áhugamál en eitt af þeim var að ferðast. Við þreyttumst aldrei á því að skreppa í smá bíltúr út úr bænum með börnin okkar, þá var keyrt víða um og mikið skoðað.

Árin færðust yfir og börnin hættu að koma með en við héldum áfram að ferðast með mökum okkar vítt og breitt um landið í húsbílum sem kólnuðu varla allt sumarið. Það var alltaf mikil tilhlökkun þegar ákveðið var að leggja af stað í ferðalag enda vitað mál að það myndi verða stanslaust fjör og stutt í grínið og glensið. Svo tóku utanlandsferðirnar við en þær eru ógleymanlegar.

Okkur leiddist aldrei að ferðast, hvorki til útlanda né um landið okkar fagra. Aldrei nokkurn tímann var ein einasta stund leiðinleg í okkar ferðum. Ég gæti endalaust haldið áfram að skrifa um margar skemmtilegar stundir úr okkar lífi en ég ætla að láta þetta duga.

Mig langar að þakka þér fyrir svo margt, elsku vinkona. Ég vil sérstaklega þakka fyrir að hafa haft þig í lífi mínu öll þessi ár. Það mun aldrei líða ein einasta stund sem ég á ekki eftir að minnast þín með hlýju og kærleik. Hjartans þakkir fyrir samfylgdina, elsku vinkona, og takk fyrir öll fallegu góðu og skemmtilegu árin. Minning þín mun lifa í hjarta mínu, án þín hefði ég ekki viljað vera. Megi allir heimsins englar umvefja þig, elsku góða vinkona mín.

Tárin renna

sorgin snertir hjarta mitt

lítið tré fellir laufin

eitt og eitt

uns þau hverfa ofan í jörðina

og koma ekki aftur.

Ég sé þig í huga mér

og dagurinn hverfur út í buskann

og eilífðin sjálf stoppar.

Ég kveð þig

með sorg í hjarta og tár á hvarmi.

Eins og hörpustrengur er hjarta mitt

þegar ég hugsa um brosið þitt.

Eins og fallegur dagur sem kemur og fer

mun stjarnan þín lýsa upp hjá mér

þetta er kveðjan mín til þín

elsku hjartans Setta mín.

(Solla Magg)

Í huga mínum mun minning þín lifa um ókomin ár.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Viggó. Við hjónin vottum þér, börnunum, barnabörnum og tengdabörnum okkar dýpstu samúð.

Megi Guð blessa ykkur öll á þessari sorgarstund.

Sigurveig Snæfeld

Jóhannsdóttir (Sísí), Styrmir Haukdal Þorgeirsson.

Það eru ekki mörg ár síðan við hjónin kynntumst Settu og Góa. Samt finnst manni maður alltaf hafa þekkt þau.

Leiðir okkar lágu saman í Þórsmörk þar sem þau hjónin tóku á móti okkur í vorferð Félags hústrukka er við fórum í okkar fyrstu hústrukkaferð. Þar kynntumst við þessum heiðurshjónum sem tóku svo innilega á móti okkur að við ákváðum að þarna værum við í góðum félagsskap og upp frá því héldum við svo áfram að ferðast með þeim.

Sumarið nú á bak og burt eftir mörg ferðalög með Settu og Góa og nú er hún skyndilega fallin frá.

Setta var ein af þessum konum sem manni leið vel með alltaf og alls staðar. Hún var límið í hústrukkahópnum og það verður erfitt að hugsa sér ferðalögin án hennar.

Alltaf var maður svo innilega velkominn í hústrukkinn þeirra þar sem hún var tilbúin að fórna sér fyrir allt og alla. Boðin og búin að aðstoða hvern sem var. Hún var bara þannig kona, gjafmild, ástrík, skemmtileg og frábær ferðafélagi.

Þau hjónin ávallt fyrst á staðinn til að taka á móti vinum sínum í hópnum, allir svo hjartanlega velkomnir í þeirra hóp og alltaf var gleðin og hamingjan í kringum þau.

Elsku Gói og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra, megi minningin um góða, fallega og elskulega konu ylja ykkur um ókomin ár. Settu verður sárt saknað.

Sigrún og Vigfús.

Ég gleymi seint símtalinu sem ég fékk frá Reyni, syni Settu, um þrjúleytið laugardaginn 29. september þar segir hann mér að Setta hafi dáið þá um morguninn. Þetta fannst mér mjög óraunverulegt því hún hafði komið heim til mín fjórum dögum fyrir andlát sitt og við pöntuðum okkur enn eina Bostonferðina.

Setta hafði mikinn áhuga á ferðamennsku, ég held að það séu ekki margir sem hafa komið á eins marga staði á Íslandi og Setta og Viggó.

Við hittumst nokkrum sinnum í útilegum og mikið var það gaman. Það var einkar ánægjulegt að fá þau til okkar í sumarbústaðinn sunnudaginn 16. september þegar þau voru að koma úr Jökulgili og Rósa dóttir þeirra með þeim.

Ég kynntist Settu haustið 2000 þegar ég fór að vinna hjá Íslensk Ameríska og við urðum strax góðar vinkonur. Þær eru ófáar ferðirnar sem við vinkonurnar erum búnar að fara í til Boston og við vorum búnar að bralla margt saman. Eitt skipti fyrir árshátíð fórum við saman í brúnkuklefa og vorum eins og svertingjar í marga daga á eftir.

Hún Setta mín var alltaf til í að prófa eitthvað nýtt. Ég er búin að fara heim til Settu og Viggós í mörg ár annaðhvort á Þorláksmessu eða á aðfangadag til að færa henni lagtertu og sörur og því ætla ég ekki að hætta. Það verður skálað fyrir þér, elsku vinkona mín, í Boston.

Þín er sárt saknað.

Elsku Viggó, Rósu, Emil, Reyni, Berglindi og barnabörnum Settu votta ég mína dýpstu samúð.

Sólveig Ásgeirsdóttir.

Mér var brugðið þegar ég heyrði af ótímabæru fráfalli Settu vinkonu minnar.

Hún var einn af fyrstu starfsmönnum Íslensk Ameríska. Setta byrjaði sinn starfsferil hjá okkur við framleiðslu á snyrtivörum. Við áttuðum okkur fljótt á að Setta var fyrirmyndarstarfsmaður, rösk til allra verka og hvers manns hugljúfi.

Setta gegndi mörgum störfum hjá okkur á langri starfsævi, hún var lengst af símasölumaður og einnig sinnti hún sérverkefnum á lagernum.

Lengi framan af, þegar mikið stóð til hjá okkur eins og móttaka innlendra og erlendra gesta, litlu jólin og árshátíð félagsins voru Setta og Friedel heitinn, annar góður starfsmaður, í essinu sínu. Undirbúningur og framkvæmd hvíldi á þeirra herðum. Allt átti að vera upp á það besta, helst heimatilbúið, gert af meistarahöndum.

Enda tókust veislurnar vel og allir fóru glaðir heim eftir góðan viðgjörning þeirra Settu og Friedels og þeirra sem með þeim unnu að undirbúningi. Sú hefð skapaðist hjá okkur að senda starfsmönnum og viðskiptavinum jólagjafir og persónulegar kveðjur sem Setta vann alltaf með mér dagana fyrir jól. Þetta voru skemmtilegir tímar.

Setta var einstaklega farsæl og vel liðin af samstarfsmönnum og viðskiptavinum sem kunnu vel að meta hennar góða viðmót. Ég var heppinn að eignast Settu að góðum vini fyrir lífstíð.

Ég votta eiginmanni hennar Viggó og börnum þeirra, Rósu, Reyni og fjölskyldum þeirra, mína innilegustu samúð.

Egill Ágústsson.

HINSTA KVEÐJA
Elsku amma, takk fyrir allar stundirnar okkar saman, útilegurnar, samtölin, matarboðin, jólin, afmælin, takk fyrir allt. Aldrei gleyma að þú ert besta kona í heimi. Ég mun elska þig og sakna þín alltaf, við sjáumst einn daginn aftur.
Kveðja, þinn Velló.
Eðvarð Leó Geirsson.