Fullt hús Danielle Victoria Rodriguez lék vel að venju fyrir Stjörnuna sem hefur unnið báða leiki sína.
Fullt hús Danielle Victoria Rodriguez lék vel að venju fyrir Stjörnuna sem hefur unnið báða leiki sína. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Stjarnan fer vel af stað í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik en í gær fóru þrír leikir fram og lauk skömmu áður en blaðið fór í prentun. Stjarnan vann nokkuð öruggan sigur á nýliðunum í KR í Frostaskjólinu þótt úrslitin séu 78:74.

Stjarnan fer vel af stað í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik en í gær fóru þrír leikir fram og lauk skömmu áður en blaðið fór í prentun. Stjarnan vann nokkuð öruggan sigur á nýliðunum í KR í Frostaskjólinu þótt úrslitin séu 78:74. Í fyrstu umferðinni fóru Garðbæingar til Keflavíkur og náðu einnig í tvö stig þar. Garðbæingum var spáð góðu gengi í vetur en liðið er án Auðar Írisar Ólafsdóttur sem er handarbrotin og því mun Stjörnuliðið að líkindum eflast enn frekar þegar líður á tímabilið. Danielle Victoria Rodriguez átti stórleik og skoraði 38 stig en hjá KR skoraði Diana Johnson 30.

Íslandsmeistararnir í Haukum unnu sinn fyrsta sigur í deildinni í gær þegar liðið tók á móti Val á heimavelli sínum á Ásvöllum 75:63. Þessi lið léku einmitt til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor og þurfti oddaleik til að fá fram úrslit. Sigrún Björg Ólafsdóttir var stigahæst hjá Haukum með 20 stig og Lele Hardy tók 20 fráköst en Brooke Johnson skoraði mest fyrir Val, 24 stig.

Skallagrímur og Breiðablik áttust við í spennuleik í Borgarnesi og þar var jafnt 69:69 þegar fjórar mínútur voru eftir. Borgnesingar unnu nauman sigur og eru komnir á blað í deildinni en Blikar eru án stiga. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var stigahæst hjá Skallagrími með 24 stig en hjá Breiðabliki var Kelly Faris atkvæðamest með 28 stig.

sport@mbl.is