Þór Steinarsson thor@mbl.is Danmörk er ekki land ótæmandi auðlinda og Danir hafa að miklu leyti þurft að treysta á eigið hugvit og nýsköpun til að skapa öflugan efnahag. Danir standa framarlega á ýmsum sviðum t.d. í hönnun og matvælaiðnaði.

Þór Steinarsson

thor@mbl.is

Danmörk er ekki land ótæmandi auðlinda og Danir hafa að miklu leyti þurft að treysta á eigið hugvit og nýsköpun til að skapa öflugan efnahag.

Danir standa framarlega á ýmsum sviðum t.d. í hönnun og matvælaiðnaði. Lego, Bang & Olufsen, Søstrene Grene og Carlsberg eru örfá dæmi um magnað danskt hugvit.

Í fyrrakvöld sögðu fjölmiðlar frá enn einu dæminu um slíkt þegar þeir upplýstu að Reykjavíkurborg greiddi um 750 þúsund krónur fyrir „höfundarréttarvarin“ dönsk strá.

Danskir aðilar náðu semsagt að selja einhverjum hjá Reykjavíkurborg þá hugmynd að sniðugt væri að flytja sérstaklega til landsins strá til þess að gróðursetja fyrir utan bragga í Nauthólsvík. Þrátt fyrir að hér vaxi fátt annað en gras og strá.

Stjórnmálamenn keppast nú um að gagnrýna þessa meðferð á skattfé Reykvíkinga og sjálfur borgarstjóri hefur meira að segja rofið þagnarbindindið til að fordæma málið.

Um leið og ég tek undir mikið af fram kominni gagnrýni get ég ekki annað en dáðst að hugmyndaflugi dönsku aðilanna sem náðu að selja Reykvíkingum strá. Það er þó spurning hvort Reykjavíkurborg reyni að ógilda kaupin með vísan til misneytingarákvæðis samningalaga og þess að Danirnir hafi nýtt sér einfeldni viðsemjanda síns. Ég útiloka það ekki.