Allt klárt Ólafur M. Jóhannesson skipuleggur sýninguna Íslenskur landbúnaður 2018 í Laugardalshöll um helgina.
Allt klárt Ólafur M. Jóhannesson skipuleggur sýninguna Íslenskur landbúnaður 2018 í Laugardalshöll um helgina. — Morgunblaðið/Eggert
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Sýningin Íslenskur landbúnaður 2018 verður haldin í Laugardalshöllinni um helgina. Sýningin hefst á morgun og stendur fram á sunnudag. Það er fyrirtækið Ritsýn sf.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Sýningin Íslenskur landbúnaður 2018 verður haldin í Laugardalshöllinni um helgina. Sýningin hefst á morgun og stendur fram á sunnudag.

Það er fyrirtækið Ritsýn sf. sem stendur að sýningunni og framkvæmdastjóri hennar er Ólafur M. Jóhannesson. Að sögn Ólafs verður þetta stærsta landbúnaðarsýning sem haldin hefur verið í Höllinni og hafa þegar yfir 100 fyrirtæki pantað bása bæði á úti- og innisvæði. Seldust öll svæðin upp. Búist er við að gestir verði í það minnsta 20 þúsund.

Alla helgina verður stór matarsýning þar sem fjölmörg fyrirtæki kynna hreinleika íslenskrar matvælaframleiðslu. Fólki gefst tækifæri til að smakka réttina. Þá verður umfangsmikil sýning bæði úti og inni á tækjum, tólum og vörum til landbúnaðar.

Loks verður fyrirlestradagskrá í anddyri Laugardalshallar á laugardag og sunnudag, þar sem fyrirlesarar verða 18 talsins. Fólk getur kynnt sér dagskrána á www.bbl.is. Á fjórða tug starfsmanna mun vinna við sýninguna um helgina á vegum sýningarhaldara auk allra sem verða við störf á vegum sýnenda.

Að sögn Ólafs M. Jóhannessonar hefur undirbúningur að sýningunni staðið yfir um langa hríð. Að sögn hans hefur honum komið þægilega á óvart hversu fjölbreyttur landbúnaður er stundaður á Íslandi. Það séu ekki bara okkar fjölbreyttu og hreinu matvæli sem streyma frá bændum heldur stundi þeir ferðaþjónustu í æ meira mæli og líka skógrækt, orkuframleiðslu og hvers kyns heimilisiðnað og allt verði þetta kynnt á sýningunni. „Þessi sýning á eftir að koma á óvart, “ segir Ólafur.

Sýningin verður opin á föstudag klukkan 14.00-19.00, laugardag 10.00-18.00 og sunnudag 10.00-17.00. Miðaverð er 1.000 krónur og frítt fyrir aldraða, öryrkja, námsmenn og börn yngri en 12 ára í fylgd með fullorðnum.

Ritsýn hélt stóra sjávarútvegssýningu í Laugardalshöll haustið 2016. Fyrirtækið verður með sjávarútvegssýningu í september 2019 og þá í allri Laugardalshöllinni.