Vefsíðan Ekki er auðvelt að rata um heilsu- og fæðubótarefnafrumskóginn.

Vefsíðan

Ekki er auðvelt að rata um heilsu- og fæðubótarefnafrumskóginn. Allir vita að rétta næringin getur skipt sköpum fyrir heilsuna, hjálpað vöðvum að stækka og mittinu að mjókka, en vandinn er sá að mikill munur getur verið á vörunum í heilsuhilllum verslana og ekki alltaf hægt að treysta því sem stendur á innihaldslýsingunni.

Fólkið á bak við vefsíðuna Labdoor (www.labdoor.com) vill leysa þennan vanda og notar til þess sniðugt viðskiptamódel.

Labdoor gerir nákvæmar rannsóknir á innihaldsefnum heilsuvara af ýmsum toga, greinir niðurstöðurnar og gefur vörunum einkunn. Niðurstöðurnar eru öllum aðgengilegar á Labdoor.com og eiga að auðvelda neytendum að velja bestu vörurnar. Það eina sem Labdoor fær í sinn hlut er smávægileg þóknun þegar gestir síðunnar nota þar til gerðan hlekk við hverja vöru til að panta hana frá seljanda.

Forvitnilegt er að skoða niðurstöðurnar á Labdoor, og kemur m.a. í ljós að það próteinduft sem er með besta næringarinnihaldið og bestu virknina fær bara miðlungseinkunn fyrir nákvæmni innihaldslýsingar. Þá er próteinduftið sem er neðst á lista Labdoor ekki með nema rétt rösklega 26% próteininnihald. Svona má lengi telja og er t.d. lakasta kalkvaran með helmingi minna kalk en stendur á merkimiðanum, og lélegasta lýsið kemst ekki með tærnar þar sem það besta er með hælana.

ai@mbl.is