Gylfi Kristinn Matthíasson fæddist á Ysta-Bæ í Hrísey 3. janúar 1946. Hann lést 1. október 2018.

Foreldrar hans voru Rósa Guðný Kristinsdóttir, húsfreyja, f. 21. maí 1920, d. 4. nóvember 1986, og Matthías Matthíasson, rafvirkjameistari, f. 16. ágúst 1924, d. 23. október 2017. Systkini Gylfa sammæðra eru Þórólfur Gunnar, f. 1953, d. 1976, Rósa María, f. 1954, Jónatan Sigurbjörn, f. 1956, og Anna Helga, f. 1963, Tryggvabörn. Systur Gylfa samfeðra eru Þórunn Kolbeins, f. 1953, Guðrún, f. 1954, og Þórey Anna, f. 1957, Matthíasdætur.

Hinn 10. október 1970 kvæntist Gylfi Kristínu Erlu Sveinbjarnardóttur, viðskiptafræðingi og bókara, f. 18. janúar 1947. Foreldrar Kristínar voru Sigríður Gísladóttir, f. 20.febrúar 1921, og Sveinbjörn Jóhannesson, f. 10. ágúst 1912, bændur á Hofsstöðum í Garðabæ.

Börn Gylfa og Kristínar eru: 1) Sigurður Sveinbjörn, f. 20. júlí 1970, í sambúð með Jórunni Jónsdóttur, f. 20. október 1976, og saman eiga þau Dag Þór, f. 11. febrúar 2014, fyrir átti Sigurður Helgu Kristínu, f. 19. ágúst 2001. Börn Jórunnar eru: Silja Sól, f. 12. mars 2001, og Darri Dór, f. 26. janúar 2004. 2) Erla Guðný Gylfadóttir, f. 21. október 1975, í sambúð með Jóni Ólafi Guðmundssyni, f. 14. apríl 1971, og eiga þau þrjár dætur: Guðnýju Dís, f. 4. janúar 2006, Elvu Rún, f. 14. mars 2008, og Kristínu Rut, f. 11. febrúar 2012. 3) Þórdís Anna Gylfadóttir, f. 1981.

Fyrstu æviárin ólst Gylfi upp hjá móður sinni á Ysta-Bæ í Hrísey en sex ára gamall fluttist hann með móður sinni að Litla-Hamri í Eyjafjarðarsveit. Gylfi lauk barnaskóla 1958 og gagnfræðaskóla 1960 á Laugalandi í Eyjafirði. Hann vann hjá ýmsum vinnuveitendum bæði á sjó og landi næstu árin en árið 1968 lauk hann 1. stigi vélstjóra í Vélskóla Íslands á Akureyri. Árið 1969 fluttist hann til Garðabæjar og stofnaði þar heimili með konu sinni. Þau byggðu sér heimili í Hofslundi 1 í Garðabæ og bjuggu þar allan sinn búskap. Árið 1972 stofnaði Gylfi eigið jarðvinnuverktakafyrirtæki, Uppfyllingu ehf., ásamt konu sinni og starfaði hann við það til hinstu stundar.

Gylfi verður jarðsunginn frá Vídalínskirkju í dag, 11. október 2018, klukkan 15.

Þá er komið að ferðalokum þessarar ferðar, elsku pabbi. Þú hefur farið víða og verið duglegur að ferðast, sérstaklega innanlands. Þú elskaðir landið og þekktir hvert einasta fjall og fjörð. Ég man hvað mér þótti gaman að ferðast með þér þegar ég var lítil stelpa og hálendisferðirnar okkar voru þónokkrar.

Það er ekki hægt að lýsa þér sem auðveldum manni. Þú ert þrjóskasti maður sem ég mun nokkurn tímann hitta. Þú hafðir óbilandi trú á sjálfum þér. Verkvitið og dugnaðurinn. Svo ótrúlega öflugur og kenndir mér að allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.

Þú varst kröfuharður, kenndir mér að taka ábyrgð og standa við það sem var búið að lofa. Þú fórst vel með peningana þína og talaðir oft um að það væri auðvelt að afla sér peninga en erfiðara að halda þeim.

Þetta mun ég taka með mér sem veganesti í lífinu. Þú dekraðir við mig, gerðir allt það sem ég bað þig um og samband okkar var mjög gott, sérstaklega síðastliðin ár.

Mér fannst gaman að hjálpa þér þó svo verkefnin væru stundum mjög skrautleg. Ég var ekki orðin 10 ára þegar þú settir mig í valtarann og kenndir mér að keyra hann. Ferðin okkar í Eyjafjörð fyrir nokkrum vikum verður mér alltaf kær.

Það var gott að sjá þig slaka á og segja mér sögur. Segja mér frá æsku þinni og ævintýrum. Fyrir tímann okkar saman og allar góðu stundirnar verð ég ævinlega þakklát. Þú varst mikill dýravinur og byggðir upp sveitina okkar og nefndir Hulduheima.

Ást þín á bílum og öllu vélknúnu var einstök. Hvítar Scaniur og vínrauðir bílar, það þótti þér fallegt. Og Weabon-in.

Þrjóskan, harkan og stoltið hefur komið þér langt en það hefur líka tekið sinn toll af þér. Það var svo gott að hitta þig á sunnudaginn. Þú varst kátur og spenntur fyrir verkefnunum framundan. Baðst mig um að vera þér innan handar og hugsa fallega til þín. Það mun ég alltaf gera, elsku pabbi minn.

Lyklarnir þínir eru í jakkavasanum og ökuskírteinið í brjóstvasanum svo þú getir sett í gang og keyrt um þarna hinumegin. Við hittumst svo aftur seinna, elsku pabbi, og klárum það sem við áttum eftir í sameiningu.

Þín dóttir,

Þórdís Anna Gylfadóttir.

Vinnusamur og verklaginn, staðfastur og fylginn sér. Hafði sterkar skoðanir á mörgu og fór sínar eigin leiðir. Það var ekkert og enginn sem haggaði honum.

Það var ekki til í hans orðabók að gefast upp. Þetta er lýsingin á pabba. Hann var eins og oft er sagt af gamla skólanum.

Dugnaður og harka einkenndu hann en fyrir innan harðan skráp var mjúkur maður sem fannst gott að geta aðstoðað sína með greiðvikni eða góðum ráðum og ábendingum.

Hann minnti mig reglulega á það hversu rík ég væri að eiga dætur mínar þrjár, minnti mig á að þær væru ríkidæmið mitt sem ég þyrfti að passa og hlúa vel að.

Hann tók alltaf vel á móti þeim og fylgdist með í fjarska. Síðustu sumur hafði hann ákaflega gaman af því að fylgjast með þeim í hestastússi þeirra í Hulduheimum, sveitinni sem hann ásamt mömmu byggði upp svo að við hin gætum notið.

Nægjusamur var hann á alla hluti að bílum undanskildum en bílar og vélar, vélsleðar og snjóbílar voru hans aðaláhugamál ásamt því að ferðast um landið og þá einna helst um hálendi Íslands.

Það eru ótal minningar um jeppaferðir og ferðalög á vélsleðum um óbyggðir landsins. Þar lék pabbi á als oddi, þekkti hvern krók og kima, vissi alltaf upp á hár hvar best væri að fara og hvað best væri að gera í þeim aðstæðum sem komu upp í ferðalögum sem þessum. Hann var traustur og vissi sínu viti.

Mamma var stoð hans og stytta og aðdáunarvert var að fylgjast með hvernig hún fylgdi honum í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Fyrir rúmum 46 árum stofnuðu þau verktakafyrirtækið Uppfyllingu sem samanstóð af miklum bíla- og tækjaflota. Fyrirtækinu sinnti pabbi öllum stundum, allt frá stofnunardegi fram til dánardags.

Vinnan var hans ær og kýr og lagði hann mikinn metnað í að skila verkum sínum vel af sér sem hann gerði svo sannarlega, höfðu margir samferðamenn hans sérstakt orð á því hversu fljótt og vel verk hans voru unnin.

Þau voru mörg dagsverkin sem hann skilaði af sér, stór og smá.

Elsku pabbi. Skyndilega er leik þínum lokið. Svo sárt, svo óraunverulegt, maðurinn sem aldrei gafst upp.

Eftir situr mikill missir og söknuður en jafnframt fjársjóður af góðum minningum og góðum ráðum.

Ég kveð þig með virðingu, hafðu þökk fyrir allt.

Hvíl í friði.

Þín dóttir

Erla Guðný Gylfadóttir.

Árið 1976 starfaði ég sem verkstæðisformaður hjá Scania-umboðinu, Ísarn. Þangað kom oft viðskiptavinur sem mér fannst svolítið sérstakur. Hann kom gjarnan síðdegis með vörubílana sína og óskaði eftir viðgerð, helst samdægurs. Það þýddi að við á verkstæðinu þurftum að vinna lengur til að mæta kröfum þessa viðskiptavinar.

Það voru ekki bara þessar kröfur hans sem mér fundust sérstakar, það vakti líka athygli mína og aðdáun, sú virðing og umhyggjusemi sem hann sýndi okkur sem unnum fyrir hann fram á kvöld. Iðulega færði hann okkur vinnandi mönnunum rausnarlegan kvöldmat. Viðskiptavinurinn var að sjálfsögðu Gylfi.

Ég áttaði mig fljótt á því að þarna fór traustur maður sem ávallt stóð við orð sín og ætlaðist til þess sama af öðrum. Fljótt myndaðist vinátta milli okkar, sem með árunum varð dýpri og kærari. Eiginkonur okkar kynntust einnig og smám saman mynduðust kær tengsl á milli þeirra og fjölskyldna okkar.

Gylfi hafði gaman af að ferðast og var fróður um landið sitt.

Hann þeysti um landið, stundum einn, en oft í góðra vina hópi.

Fjölskyldan mín gleymir aldrei fyrstu Þórsmerkurferðinni með Gylfa og fjölskyldu, árið 1978. Þá var ekki á margra færi að keyra á eigin vegum inn í Þórsmörk. Gylfi hafði hins vegar tök á því að bjóða vinum og starfsmönnum sínum í Merkurferð. Í bílaflotanum sem renndi á hárréttu vaði yfir Krossá voru m.a. Scania og Land Rover. Svo var slegið upp tjöldum í Húsadal á fallegu sumarkvöldi og allir skemmtu sér vel.

Þetta var bara fyrsta ferðlagið okkar saman en þau áttu eftir að verða óteljandi. Það má segja að við höfum ferðast saman í gegnum lífið í rúm 40 ár. Fyrstu árin keyrðum við um Ísland á jeppunum okkar með konur og börn, helst um hálendi og óbyggðir.

Gylfi þekkti landið og leiðirnar. Við hin fylgdum honum bara og vissum alltaf að hann myndi rata.

Og hann rataði alltaf. Síðar þeystum við um Evrópu á húsbílunum og nutum einnig lífsins í sólarlöndum. Þó Gylfi hafi líklega kunnað best við sig undir stýri þá naut hann þess líka að ganga á fjöllum.

Minnisstæð er gönguferð okkar um Laugaveginn þar sem Gylfi fór létt með gönguna og náði alltaf að koma fyrstur á áfangastað.

Gylfi var ekki bara stór vexti, hann var stór á svo margan hátt.

Hafði hann stórt hjarta, var stórtækur í gerðum og hafði stórt skap. Eiginleikar hans komu honum áfram og hann átti mikilli velgengni að fagna á sínu sviði. Eiginleikar hans hafa líka mögulega hindrað hann og komið í veg fyrir farsæld að einhverju leyti.

Gylfi var vinur minn, ferðafélagi og stundum vinnuveitandi minn.

Vinskapur okkar og öll okkar samskipti hafa byggst á kærleika og trausti. Það var gott að vinna fyrir Gylfa alla tíð og gott eiga hann að sem vin.

Ferðalögin okkar verða ekki fleiri í bili. Nú er Gylfi lagður af stað í sína hinstu ferð. Hann lagði af stað á undan okkur hinum. Við vitum að hann ratar réttu leiðina og mun vísa okkur veginn þegar að því kemur.

Stínu og allri fjölskyldunni færi ég innilegar samúðarkveðjur frá mér og fjölskyldu minni.

Vernharður Aðalsteinsson.