Á Gran Canaria 2017 Hjónakornin, Maggi og Fríða, bregða á leik og hafa gaman af: „Maður verður víst aldrei of gamall til að leika sér.“
Á Gran Canaria 2017 Hjónakornin, Maggi og Fríða, bregða á leik og hafa gaman af: „Maður verður víst aldrei of gamall til að leika sér.“
Friðgerður Pétursdóttir, eða Fríða eins og hún er kölluð, fagnar 75 ára afmæli sínu í dag. Fríða er Bolvíkingur í húð og hár eins og hún segir sjálf. Hún fæddist í Tröð en ólst upp í Meiri-Hlíð í Bolungarvík.

Friðgerður Pétursdóttir, eða Fríða eins og hún er kölluð, fagnar 75 ára afmæli sínu í dag.

Fríða er Bolvíkingur í húð og hár eins og hún segir sjálf. Hún fæddist í Tröð en ólst upp í Meiri-Hlíð í Bolungarvík. Hún stundaði nám við Héraðsskólann í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og við Húsmæðraskólann að Laugalandi í Eyjafirði.

Fríða hefur mest starfað í eigin rekstri í gegnum tíðina, í útgerð og í blómabúð. Fjölskyldan átti heima í Bolungarvík en flutti svo árið 1995 til Ólafsvíkur. Um tíma áttu þau íbúð bæði í Ólafsvík og í Reykjavík en núna búa þau hjónin, Fríða og Maggi, í Reykjavík. Aðaláhugamál Fríðu eru hannyrðir ýmiskonar, ferðalög, blómastúss og að skella sér á ball.

En hvað skal gert í tilefni dagsins?

„Ég verð heima svo ég missi nú ekki af neinni afmæliskveðju. Verð tilbúin að svara símanum og taka á móti gestum. Mér finnst svo gaman að eiga afmæli.“

Fríða er gift Magnúsi Snorrasyni og eiga þau fimm börn. Þau eru Pétur Hlíðar, f. 1965, Þorbjörg Jónína, 1966, Jón Ólafur, f. 1967, Arnþór, f. 1970 og Fjóla Rós, f. 1981. Þau eiga 14 barnabörn og sex barnabarnabörn.