London. AFP. | Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hefur höfðað mál gegn stjórnvöldum í Ekvador fyrir „að brjóta gegn grundvallarréttindum“ hans með því að takmarka aðgang hans að umheiminum í sendiráði landsins í London.

London. AFP. | Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hefur höfðað mál gegn stjórnvöldum í Ekvador fyrir „að brjóta gegn grundvallarréttindum“ hans með því að takmarka aðgang hans að umheiminum í sendiráði landsins í London.

Assange fékk hæli í sendiráðinu í júní 2012 eftir að breskur dómstóll samþykkti beiðni um að hann yrði framseldur til Svíþjóðar þar sem hann hefur verið ákærður fyrir kynferðisofbeldi. Assange óttast að hann verði framseldur til Bandaríkjanna og saksóttur fyrir að birta bandarísk leyniskjöl á uppljóstrunarvefnum.

Missir hann verndina?

WikiLeaks sagði í gær að lögmaður vefjarins hefði farið til Ekvadors í því skyni að höfða mál gegn stjórn landsins. „Þetta er gert næstum sjö mánuðum eftir að stjórn Ekvadors hótaði að svipta hann verndinni og meina honum aðgang að umheiminum, m.a. með því að neita að leyfa blaðamönnum og fulltrúum mannréttindasamtaka að ræða við hann.“

Stjórn Ekvadors hefur staðfest að hún hafi meinað Assange aðgang að netinu og farsíma. Fjölmiðlar hafa verið með vangaveltur um að stjórnin sé að búa sig undir að binda enda á verndina sem hann hefur notið í sendiráðinu.