Kínverjar líta ekki á sig sem þróunarríki en hafa ekkert á móti forskoti með niðurgreiðslum

Kína er eitt helsta efnahagsveldi heims og stendur aðeins Bandaríkjunum að baki. Efnahagur landsins vex og dafnar. Lætur sennilega nærri lagi að daglegur vöxtur kínversks efnahags nemi hér um bil þjóðarframleiðslu Íslands.

Kínverjar láta að sér kveða um allan heim. Samkvæmt bandarísku hugveitunni American Enterprise Institute námu fjárfestingar og þátttaka Kínverja í framkvæmdum erlendis 1.870 milljörðum Bandaríkjadollara á tímabilinu 2005 til 2018.

Kínverjar hafa undanfarin misseri gert tilkall til forustu í efnahagsmálum í heiminum. Þar af hafa 298 milljarðar dollara farið í framkvæmdir í Afríku. Hafa Kínverjar lánað meira fé til framkvæmda þar en Þróunarbanki Afríku, Evrópusambandið, Alþjóðafjárfestingastofnunin (sem er hluti af Alþjóðabankanum) og G8-löndin samanlagt.

Kínverjar áttu frumkvæði að stofnun og hafa lagt langmest fé í Innviðafjárfestingabanka Asíu, sem Íslendingar eru aðilar að og á að styrkja uppbyggingu innviða í álfunni.

Þessi upptalning sýnir að Kínverjar hegða sér ekki eins og þróunarríki heldur forkólfur í efnahagslífi heimsins.

Það vakti athygli þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að hann myndi að óbreyttu draga Bandaríkin út úr Alþjóðapóstsambandinu. Trump hefur gagnrýnt Kínverja harðlega fyrir óprúttna viðskiptahætti. Hann hefur jafnframt sýnt að séu alþjóðasáttmálar honum ekki að skapi sé hann tilbúinn að láta þá róa.

Í fjölmiðlum var yfirlýsingu Trumps lýst sem hluta af efnahagsstríði hans við Kína. Kínverjar hafa reynt að láta líta út fyrir að í þeirri viðureign séu þeir rödd skynseminnar, sem vilji sem mest frelsi í alþjóðlegum viðskiptum.

Ekki er þó allt sem sýnist. Kínverjar hafa notað Alþjóðapóstsambandið til að maka krókinn svo um munar.

Sambandið var stofnað árið 1874 í Sviss í þeim tilgangi að móta alþjóðlegar reglur í póstmálum, eins og fram kom á viðskiptasíðu Morgunblaðsins í gær. 192 lönd eiga aðild að sambandinu og er því einnig ætlað að ýta undir jafnræði milli landa í þessum efnum.

Kínverjar hafa notið góðs af því. Hjá sambandinu eru Kínverjar skilgreindir sem þróunarríki. Fyrir vikið fá þeir 70-80% af póstkostnaði niðurgreidd.

Kínverjar hafa verið mjög atkvæðamiklir í póstverslun á netinu. Segja Bandaríkjamenn að niðurgreiðslurnar skekki samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja í póstverslun svo um munar.

Staða Kínverja hefur einnig gríðarleg áhrif hér á landi. Í Morgunblaðinu í gær kemur fram að í skýrslu Copenhagen Economics frá þessu ári komi fram að tap Íslandspósts vegna erlendra sendinga sé um 475 milljónir á ári. Netverslun fari vaxandi og því megi búast við að sá kostnaður muni halda áfram að aukast.

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, hefur vakið athygli á að vegna þessa séu skilyrði í samkeppni ójöfn í alþjóðlegri netverslun. Hann lýsir því í samtali við Morgunblaðið hvernig reynt hafi verið að fá alþjóðapóstsamninginn endurskoðaðan í sumar, en það hafi ekki náð fram að ganga. Næst verði hægt að taka samninginn til endurskoðunar árið 2021, eftir heil þrjú ár.

Kínverjar eru augljóslega sáttir við óbreytt fyrirkomulag í þessum málum og láta sig engu varða þótt forsendur hafi breyst verulega frá því að þeir voru settir í niðurgreiðsluflokk þróunarríkja hjá Alþjóðapóstsambandinu.

Hvað er þá til ráða? Trump hefur tekið þá afstöðu að þessu verði ekki unað og frekar muni Bandaríkjamenn ganga úr sambandinu en búa við þetta áfram. Bandaríkjamenn muni einfaldlega gera tvíhliða eða marghliða samninga þar sem tekið verði tillit til þeirra sjónarmiða. Verði samningar Alþjóðapóstsambandsins hins vegar endurskoðaðir séu þeir tilbúnir að draga tilkynninguna um úrsögnina til baka og vera áfram í sambandinu.

Augljóst er að Íslendingar eiga samleið með Bandaríkjamönnum í þessari deilu.