Kárnesið í framtíðinni Fyrirhugað er að byggja allt að 700 íbúðir á svæðinu á næstu árum. Hönnun stendur yfir.
Kárnesið í framtíðinni Fyrirhugað er að byggja allt að 700 íbúðir á svæðinu á næstu árum. Hönnun stendur yfir. — Tölvumynd/Onno
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Félagið Íslensk fjárfesting hefur á næstu dögum sölu á fyrstu íbúðunum í nýju íbúðarhverfi á Kársnesi. Félagið er meðal lóðarhafa á svæðinu.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Félagið Íslensk fjárfesting hefur á næstu dögum sölu á fyrstu íbúðunum í nýju íbúðarhverfi á Kársnesi.

Félagið er meðal lóðarhafa á svæðinu. Það kynnir nú í tilefni af sölunni loftmynd af hverfinu eins og búist er við að það muni líta út.

Salan sætir tíðindum í skipulagssögu Kópavogs. Efnt var til hugmyndasamkeppni um Kársnesið og eru fyrstu íbúðirnar af alls um 700 að koma á markað. Miðast sá fjöldi við hverfið fullbyggt.

Samhliða þessari uppbyggingu er verið að byggja fjölda íbúða í Naustavör, gegnt Nauthólsvík.

Stutt í alla þjónustu

Einar Steindórsson, framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá Íslenskri fjárfestingu, heldur utan um verkefnið fyrir hönd lóðareigenda.

Hann bendir á að Kársnesið sé gróið hverfi og stutt sé í alla þjónustu, auk þess sem stutt sé í nýjan Kársnesskóla og fjölgun leikskóla.

Hann segir íbúðirnar af ýmsum stærðum.

„Mikil áhersla er lögð á íbúðir sem eru vel skipulagðar, þ.e. góða nýtingu fermetra og fleiri herbergi. Þetta verður fallegt hverfi á góðum stað miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu með nálægð við sjóinn og smábátahöfnina. Þá eru fjölbreyttir möguleikar til útivistar,“ segir Einar og bendir á hjóla-, göngu- og hlaupastíga á svæðinu. Frá nýja hverfinu á Kársnesi verður gerð brú yfir Fossvog. Bæjarstjórn Kópavogs staðfesti fyrr í þessum mánuði afgreiðslu skipulagsráðs bæjarins á tillögu til auglýsingar að deiliskipulagi brúarinnar. Brúin verður fyrir umferð gangandi, hjólandi og almenningssamgöngur.

Með nýju brúnni styttist ferðatíminn til miðborgar Reykjavíkur verulega. Nauthólsvík verður í aðeins nokkurra mínútna göngufjarlægð.

Einar segir Íslenska fjárfestingu munu í fyrstu lotu setja 24 íbúðir í sölu á Hafnarbraut 9. Þær muni kosta frá tæpum 40 milljónum og bílastæði í kjallara fylgja með þeim. Síðar komi fleiri hús í sölu.

Unnið í samstarfi við íbúa

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir nýja hverfið vel staðsett. „Það er ánægjulegt að þessum áfanga skuli vera náð með því að fyrstu íbúðirnar fara í sölu eftir að aðalskipulaginu var breytt. Í mínum huga eru þetta glæsilegustu lóðir á öllu höfuðborgarsvæðinu. Álftanesið og Bessastaðir eru þar í augsýn. Norðanbirtan er hvergi fegurri,“ segir Ármann.

Hann segir aðspurður að brúin sé samstarfsverkefni Kópavogs, Reykjavíkur og ríkisins. Hún sé liður í breyttum almenningssamgöngum. „Það verður hafist handa á þessu kjörtímabili,“ segir Ármann um verkefnið.

Raunhæft sé að brúarsmíðinni verði lokið snemma á næsta áratug.