John David Lambert og Kristín Jónsdóttir eru ánægð með að hafa fundið hvort annað og vilja fá faðernið viðurkennt.
John David Lambert og Kristín Jónsdóttir eru ánægð með að hafa fundið hvort annað og vilja fá faðernið viðurkennt. — Úr einkasafni
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Jónsdóttir komst að því þrítug að aldri að maðurinn sem hún hafði talið föður sinn var henni óskyldur. Hún hóf leit að raunverulegum föður og sú leit bar árangur í febrúar á þessu ári, 18 árum eftir að hún hófst.

Kristín Jónsdóttir komst að því þrítug að aldri að maðurinn sem hún hafði talið föður sinn var henni óskyldur. Hún hóf leit að raunverulegum föður og sú leit bar árangur í febrúar á þessu ári, 18 árum eftir að hún hófst. Í ljós kom að Texasbúinn John David Lambert er faðir hennar samkvæmt DNA-prófi. Hún fær hins vegar ekki að leiðrétta faðerni sitt nema hún flytji lögheimili sitt til Íslands. Eyrún Magnúsdóttir eyrun@mbl.is

Kristín Jónsdóttir er fegin að heyra í blaðamanni þegar ég slæ á þráðinn til hennar til Ontario í Kanada, þar sem hún býr. Hún talar fína íslensku en segist þó eiga auðveldara með að tjá sig á ensku, svo við ræðum að mestu saman á ensku. Hún vill gjarnan segja frá þeirri stöðu sem hún er nú í í von um að það verði til þess að reglum hér verði breytt gagnvart fólki sem er rangfeðrað. „Ég vil ekki að neinn þurfi að lenda í þessari fáránlegu stöðu sem ég er í núna. Þess vegna vil ég segja mína sögu, í þeirri von að eitthvað breytist.“

Staðan sem Kristín vísar til er í stuttu máli þannig að hún var rangfeðruð við fæðingu, þrátt fyrir að faðernið væri staðfest fyrir dómi á grunni blóðflokkagreiningar. Það kom ekki í ljós fyrr en árið 2000 að maðurinn sem dómurinn sagði föður hennar væri henni óskyldur. Þá fór veröldin á hvolf og hún byrjaði að leita að réttum föður sínum. Sá maður sem hún taldi föður sinn fór fram á að faðerni yrði breytt í þjóðskrá, sem var gert, og er Kristín því ófeðruð. Í febrúar á þessu ári, eftir 18 ára leit, fann hún réttan föður sinn í Texas í Bandaríkjunum. Þau hafa gengist undir DNA-próf og fengið skyldleikann staðfestan. En þegar Kristín, sem er íslenskur ríkisborgari enda var móðir hennar íslensk, sendi gögnin til Þjóðskrár Íslands kom babb í bátinn. Móðir hennar er látin og því má Þjóðskrá ekki breyta faðerni heldur þarf málið að fara fyrir dómstól. Í einum og sama tölvupósti frá Þjóðskrá Íslands frá því í júní er Kristínu annars vegar tjáð að hún fái faðerni ekki breytt nema með því að fara í dómsmál og hins vegar að hún geti ekki höfðað dómsmál nema að uppfylltum tilteknum skilyrðum barnalaga, og eitt þeirra skilyrða er að vera búsett hér á landi.

Hún þarf sem sagt að fara í dómsmál – en má þó ekki fara í dómsmál nema hún flytjist milli heimsálfa.

Aldrei verið neinum lík

„Ég er í fyrsta sinn að kynnast fólki sem ég líkist eitthvað. Ég veit núna hvaðan ég hef freknurnar mínar og krullaða rauðbrúna hárið. Ég hef aldrei verið lík neinum úr minni fjölskyldu,“ segir Kristín, en þegar hún fann loks föður sinn í febrúar græddi hún um leið sjö hálfsystkini og ótal frænkur og frændur. Hún segir það ómetanlegt að fá að kynnast öllu þessu fólki. „Þau hafa verið alveg yndisleg. Þau voru mjög spennt að hitta mig. Það var svo skrítið að mér fannst eins og ég hefði alltaf þekkt hann, pabba minn. Og þau tóku mér öll vel. Við pabbi höfum talað saman í símann á hverjum degi frá því í febrúar og ég er búin að fara til Texas að heimsækja hann og fjölskylduna. Við þráum það bæði að fá skyldleikann viðurkenndan og ég vil fá fæðingarvottorðinu mínu breytt.“

Nefndi aldrei neinn annan

Byrjum á byrjuninni. Kristín fæddist hér á landi árið 1970. Móðir hennar, Unnur Pétursdóttir, var aðeins 19 ára gömul þegar hún átti hana. Hún hafði verið í tungumálaskóla í London 1969 og þegar heim var komið uppgötvaðist að hún var með barni. Kristín fæddist og faðir Unnar lagði áherslu á að barnið skyldi feðrað.

„Það hefur ekki verið auðvelt að vera ung stúlka á þessum tíma og þurfa að viðurkenna að fleiri en einn kæmu til greina sem faðirinn. Mamma upplifði skömm og var ekki að fara að nefna fleiri en einn bólfélaga. Hún nefndi aldrei neinn annan en mann að nafni Jón. Hún vildi aldrei gera neinar kröfur á hann en afi gekk eftir því að faðernið fengist staðfest. Hann hefur eflaust talið að hann væri að gera það eina rétta í stöðunni.“

Faðernið var svo staðfest með dómi Bæjarþings Reykjavíkur hinn 4. nóvember 1971. Á grundvelli blóðrannsóknar var Kristín litla sögð sannarlega Jónsdóttir. Enginn hafði sérstaka ástæðu til að efast, enda um vísindalega niðurstöðu að ræða.

Þegar Kristín var þriggja ára flutti hún með móður sinni til Kanada og sambandið við föðurinn var nánast ekkert. Þegar hún var 15 ára flutti hún til Íslands í nokkur ár og bjó hjá ömmu sinni og afa. Hún vildi rækta upprunann, enda segist hún alltaf hafa verið stolt af því að vera Íslendingur þótt hún hafi búið víða, t.d. á Englandi, í Noregi og Svíþjóð auk Kanada og Íslands.

„Þessi maður er 100% faðir þinn“

Þegar Kristín kom hingað sem unglingur bað hún um að fá að hitta föður sinn. Hann bað hana þá að fara í einhvers konar beinmergsrannsókn til að skera úr um hvort hann væri í raun faðir hennar. Svo virðist sem hann hafi alltaf efast sjálfur um að hún væri dóttir sín. Þetta fékk mjög á Kristínu en hún ákvað samt að láta það eftir honum að skoða málið. Hún leitaði því til dómstóla, þá Borgardóms Reykjavíkur, og spurði hvort einhver leið væri að taka málið upp aftur á grunni nýrra rannsókna.

„Ég vildi bara að pabbi minn, Jón, fengi frið í sálina yfir þessu. Vildi gera það fyrir hann að fara í próf og finna út úr þessu. Ég fór í eigin persónu niður í Borgardóm og hitti þar starfsmann sem náði í skjölin frá því í faðernismálinu á sínum tíma. Þá fékk ég að heyra orðrétt: „Hann er 100% faðir þinn. Þú getur tekið eitthvert próf aftur og aftur en það mun aldrei breyta neinu.“ Amma hringdi líka í Borgardóm og fékk að heyra nákvæmlega það sama. Prófið væri pottþétt sönnun á að Jón væri pabbi minn.“

Eftir þetta hætti Kristín við að samþykkja það að fara í frekari rannsóknir á faðerninu eins og Jón vildi. Hún sá engan tilgang með því og var sár og reið út í föður sinn. Hún segir að samband þeirra hafi í raun alltaf verið frekar fjarlægt. Ekki aðeins hafi þau búið hvort í sínu landinu mestalla hennar ævi heldur hafi aldrei myndast sterk tengsl. Efasemdir hans um að hann væri í raun faðir hennar hafi litað samskiptin. Móðir hennar átti erfitt með að ræða þessi mál að sögn Kristínar.

En hraðspólum áfram um 15 ár. Þegar hún var þrítug lagði hún það sjálf til að gert yrði faðernispróf. Þetta er árið 2000 og DNA-próf komin til sögunnar. Skemmst er frá því að segja að DNA-prófið leiddi í ljós að útilokað væri að Jón gæti verið faðir Kristínar, öfugt við það sem upphaflega blóðflokkagreiningin sem faðernismálið byggðist á árið 1971 hafði sýnt. „Ég get ekki lýst því hversu ruglingslegt það var að komast að því að Jón væri ekki faðir minn. Það sló mig algjörlega út af laginu. Ég bara vissi ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga, lífið fór á hvolf. Í 15 ár hafði ég trúað lygi um að það gæti ekkert próf sýnt fram á að hann væri ekki faðir minn.“

Leitaði að nál í heystakki

Jón höfðaði þá dómsmál til að vefengja faðernið og eftir að staðfest hafði verið fyrir dómstólum, með vísan í DNA-prófin, að Jón gæti ekki verið faðir Kristínar var hann strokaður út af fæðingarvottorði hennar og hún var því ófeðruð í þjóðskrá – og er enn í dag.

Þegar niðurstaða DNA-prófsins var ljós og Kristín fékk að vita að Jón væri ekki raunverulegur faðir hennar tók hún strax ákvörðun um að finna sinn rétta föður. „Mamma var algjörlega í rusli yfir þessu. Hún hafði enga ástæðu til að efast um dóminn frá 1971 og blóðrannsóknina sem þá var gerð. Hún var miður sín og vildi gera allt til að hjálpa mér að finna föður minn.“

Móðir Kristínar sagði henni þá frá því að það væri annar sem kæmi til greina, bandarískur hermaður sem var á leið í stríðið í Víetnam sem hún hafði hitt í London. Ástæða þess að hún nefndi hann aldrei fyrr var sú að hún treysti upphaflegu rannsókninni, enda hafði hún engar forsendur til annars. „En hún mundi ekki hvað hann hét fullu nafni. Þannig að ég var að leita að nál í heystakki. Ég leitaði í 18 ár, sendi þúsundir tölvupósta á menn sem gætu hafa verið í London 1969 og reyndi allt til að finna minn rétta föður.“

Það var svo í febrúar á þessu ári að leitin bar árangur. Kristín hafði skráð DNA-upplýsingar sínar inn í gagnagrunn myheritage.com og þar fékk hún svörun. Maður í Bandaríkjunum reyndist skyldur henni. Hún hringdi í manninn, þennan nýja frænda sinn, og sagði honum sögu sína. Sá hringdi einhver símtöl og fljótt kom í ljós að maður honum skyldur, raunar föðurbróðir hans, hefði rætt um ástina sína frá Íslandi sem rann honum úr greipum í London forðum daga. Föðurbróðirinn heitir John David Lambert og reyndist sannarlega faðir Kristínar. Það hafa þau fengið staðfest með 99,999% vissu með DNA-prófi.

Ástfanginn af stúlkunni frá Íslandi

Það urðu miklir fagnaðarfundir þegar Kristín og faðir hennar hittust í fyrsta sinn í maí síðastliðnum. „I don't need a DNA-test“ voru orð Johns Davids Lamberts þegar hann sá Kristínu fyrst. Prófið var nú samt framkvæmt en það var víst um leið ljóst að hún tilheyrði þessari fjölskyldu, svo sterkur er ættarsvipurinn. Faðir hennar og fjölskylda hans tóku henni opnum örmum, en faðir hennar hefur verið giftur tvisvar og á sjö börn. Í ljós kom að hann hafði reynt að leita móður hennar uppi eftir að hann kom heim frá Víetnam. Hann hafði orðið ástfanginn af henni eftir tímann sem þau vörðu saman í London 1969 og vildi hitta hana aftur. Hann hafði þó enga hugmynd um að hún hefði orðið ófrísk og eignast stúlkubarn. Svo mikil áhrif hafði móðir hennar þó haft á hann að nokkur af börnunum hans og fyrrverandi eiginkonur höfðu heyrt af ástinni hans frá Íslandi. Henni gleymdi hann aldrei þótt þeim hefði ekki lánast að hittast að nýju í þessu lífi.

Móðir Kristínar lést árið 2012 og lifði því ekki þann dag að sjá Kristínu finna föður sinn. Kristín hefur farið þrisvar til Texas að heimsækja hann og hálfsystkini sín og hefur hugleitt að flytja þangað til að geta kynnst þeim öllum betur og varið tíma með föður sínum, sem hefur verið heilsutæpur undanfarið. „Við þurfum að bæta upp þau 48 ár sem við misstum af saman. En fyrsta hindrunin er að klára þetta mál með faðernið. Það skiptir miklu máli fyrir hann að fá það viðurkennt að ég sé dóttir hans og það er mikilvægt fyrir mig að vera rétt feðruð í þjóðskrá. Ég er algjörlega íslensk lagalega séð og með íslenskt vegabréf. Ég ætti bara að þurfa að framvísa DNA-prófinu og fá þetta leiðrétt. Ég skil ekki að neinum á Íslandi geti fundist eðlilegt að neita mér um að breyta skráningunni. Það var hægt að kippa Jóni út af fæðingarvottorðinu mínu með einu pennastriki, og þá bjó ég á Englandi. Ég þurfti ekki að búa á landinu til þess. En núna, þegar ég vil fá réttan föður minn, John, skráðan á fæðingarvottorðið þá er það ekki hægt því ég bý ekki á Íslandi! Þetta er alveg ruglað. Þetta skiptir engu máli fyrir neinn í heiminum nema mig og pabba minn og okkar fjölskyldur. Þess vegna skil ég ekki af hverju er ekki bara hægt að laga þetta. Það tók mig átján ár að finna hann en nú kem ég að lokuðum dyrum.“ Kristín bendir á að í barnalögum (í þeim lögum er fjallað um faðerinsmál) er áhersla lögð á rétt barna til að þekkja báða foreldra sína. Henni þykir sem brotið sé gegn þessum rétti og í raun hafi verið brotið gegn honum þegar hún var barn með því að dómstólar hér hafi rangfeðrað hana. Hún bendir einnig á að þrátt fyrir að uppúr árinu 1995 hafi komið fram nákvæmari rannsóknir við að greina faðerni með DNA-prófum þá hafi fólk sem byggði vitneskju um sitt faðerni á eldri prófum, líkt og hún, ekki verið látið vita um ónákvæmnina sem fyrri rannsóknum fylgdi. Mikilvægt sé að málið sé leiðrétt. „Þið segið annars vegar að ég eigi rétt á föður en svo þegar ég finn hann, minn rétta föður, þá viljið ekkert gera fyrir mig. Réttindi mín sem íslenskur ríkisborgari ættu að vera í gildi hvar sem ég bý.“

Kristín er ósátt við þau svör sem hún fær frá Þjóðskrá að hún þurfi að flytja lögheimili sitt til Íslands og höfða dómsmál. Það að flytja milli landa sé enda ekkert sem sé hrist fram úr erminni. „Ég á ekki að þurfa að fara heim til Íslands til að fá þetta leiðrétt. Ég myndi missa vinnuna og þyrfti að fara frá börnunum mínum bara til að flytja lögheimilið mitt tímabundið og höfða dómsmál. Það bara hlýtur að vera einhver leið til að veita undanþágu. DNA-próf liggur fyrir og það hlýtur að vega þyngst í þessu. Það er enginn vafi á því að þetta er faðir minn en samt þarf málið að fara fyrir dóm og ég að flytja milli landa til að geta farið í mál. Ég skil ekki af hverju svona lítið land þarf að vera með svona flókið kerfi. Ég myndi alveg skilja það ef ég og pabbi minn þyrftum að mæta t.d. í eitthvert íslenskt sendiráð og skrifa undir, en ég skil ekki að ég þurfi virkilega að fara alla þessa leið til að fá þetta leiðrétt.“

Einn þingmaður svaraði

Kristín hefur reynt hvað hún getur til að vekja athygli á stöðu sinni, meðal annars með því að skrifa bréf til allra þingmanna. „Ég er búin að senda öllum 63 þingmönnunum tölvupóst, en aðeins einn þeirra hefur svarað, það er Helgi Hrafn Gunnarsson. Hann gat svo sem ekki mikið gert en sýndi mér þó allavega þá virðingu að svara.“

Einn annar möguleiki mun þó vera í stöðunni en það er að faðir Kristínar sæki um að hún sé skráð dóttir hans fyrir dómstól í Texas. Ekki er orðið fyllilega ljóst hvort það gengur upp. En Kristín er afar ósátt við að geta ekki fengið faðernið leiðrétt hér á landi, þar sem hún er fædd og kallar heima. Hún kemur hingað reglulega og heimsækir ömmu sína og vill halda tengslum við landið.

„Ég hef alltaf verið stolt af því að vera Íslendingur, einmitt vegna þess að Ísland stendur framarlega í mannréttindum eins og rétti barna og rétti feðra. Þetta var fyrsta þjóðin til að kjósa konu sem forseta, landið er fyrirmynd þegar kemur að jafnrétti og mannréttindum. Ég er alltaf að segja fólki að fara til Íslands því hér sé allt svo frábært. Fólkið er enn frábært, en kerfið er gallað.

Ég veit ekki hvað við pabbi höfum langan tíma saman en ég vil reyna að nýta tímann sem best. Hann er eina foreldrið sem ég á eftir á lífi og eini afi barnanna minna. Ég eyddi öllum mínum frítíma í 18 ár í að finna hann og enginn hjálpaði mér. Börnin mín ólust upp við það að ég væri alltaf að leita. Ekkert af þessu er mér að kenna og ég ætti ekki að þurfa að taka út refsingu fyrir eitthvað sem gallað kerfi bjó til. Ef þetta er reglan, þá þarf að breyta reglunum. Mér finnst ég hafa þurft að líða nóg fyrir þetta nú þegar og vil bara fá þetta leiðrétt. Ég bið ekki um mikið.“