Á sama tíma og kúariða greinist í Skotlandi og fréttir berast frá Evrópusambandinu um að til standi að draga eigi úr eftirliti með sjúkdómum í kjúklingi þá lýsir landbúnaðarráðherra því yfir að ekkert hrófli við EES-samningnum.

Á sama tíma og kúariða greinist í Skotlandi og fréttir berast frá Evrópusambandinu um að til standi að draga eigi úr eftirliti með sjúkdómum í kjúklingi þá lýsir landbúnaðarráðherra því yfir að ekkert hrófli við EES-samningnum. Á sama tíma hefur ráðherrann ekki hugmynd um hvernig hann ætlar að verja íslenska neytendur eða íslenskan landbúnað fyrir sjúkdómum sem berast munu til landsins með hráu kjöti eða þá hvernig hann ætlar að berjast gegn auknu sýklalyfjaónæmi sem ógnar heilsu manna. Kannski treystir hann á að Félag atvinnurekenda setji neytendur fyrst og svo gróðann.

Ýmsa löggjöf höfum við fengið í gegnum EES-samninginn en margt er líka óþarfi og passar ekki Íslandi. Marga góða löggjöf höfum við einnig fengið frá Norðurlöndunum án þess þó að vera gert skylt að innleiða þá löggjöf. EES-samningurinn er gamall samningur sem ber að endurskoða teljum við ástæðu til þess og nú er ástæða til þess. Það getur verið að einhverjir skammsýnir menn muni komast að því að betra sé að fórna íslenskum landbúnaði í stað ferðafrelsis en að þora ekki að meta samninginn er dapurt.

Ótakmörkuð ást ráðherrans á EES-samningnum er ekki það eina undarlega við embættisfærslur hans undanfarið. Nýlega fréttist að hann hefði lagt niður landbúnaðardeildina í ráðuneytinu og fært verkefnin á alþjóðasvið. Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins hefur óskað eftir því að ráðherra mæti á fund Atvinnuveganefndar til að skýra þessa ákvörðun. Ráðherrann mætir hins vegar ekki og lætur þau boð berast að hann ætli að ræða málið annarsstaðar. Ráðherranum ber að mæta svo alþingi geti rækt eftirlitshlutverk sitt. Hann getur tafið það að mæta með málefnalegum ástæðum en ekki bara af því bara!

Tveir hópar bænda, sauðfjár- og loðdýra-, hafa beðið eftir viðbrögðum frá ráðherra við erindum þeirra og beðið lengi. Báðir þessir hópar skipta miklu fyrir þjóðina hvor á sinn hátt. Landbúnaður er ein af undirstöðum hverrar þjóðar m.a. vegna fæðuöryggis, orkuþarfar, gjaldeyrissparnaðar os.frv. Það er því hlutverk ráðherra á hverjum tíma að gera allt sem hann getur til að treysta og efla starfsumhverfi greinarinnar. Það er ekki gert með því að draga lappirnar í að svara erindum eða finna lausnir við vandamálum nema skilningurinn sé sá að greinin sé ekki svo merkileg. Ég þekki ekki til neinnar þjóðar sem vill ekki eiga öflugan landbúnað.

Að lokum. Haustið 2016 ákvað ég að fiskeldissvið Hafrannsóknastofnunar yrði á Ísafirði frá árinu 2018. Það var gert eftir fundi með forstjóranum og embættismönnum ráðuneytisins. Það var því ótrúlegt að heyra ræðu ráðherra sl. mánudag er hann upplýsti að forstjóri stofnunarinnar vildi ekki gera þetta og hann réði! Nei, kæri ráðherra, þú ræður, þannig eru lögin.

Höfundur er alþingismaður Suðvesturkjördæmis og varaformaður Miðflokksins. gunnarbragi@althingi.is

Höf.: Gunnar Bragi Sveinsson