Guðjón Jensson
Guðjón Jensson
Eftir Guðjón Jensson: "Ekkert er jafn hollt hverri ríkisstjórn og að sem flestum sé gert auðvelt að fylgjast með og fletta upp nauðsynlegum upplýsingum um opinber fjármál."

Einn megingrundvöllur lýðræðis í landi þar sem löng og góð lýðræðishefð er ríkjandi er að tryggja sem best aðgengi að upplýsingum. Einnig fjárlagafrumvarpi!

Á heimasíðu Alþingis Íslendinga er unnt að nálgast fjárlagafrumvarpið ásamt öðrum framlögðum skjölum þingsins. En fjárlagafrumvarpið er gríðarlega erfitt í uppflettingu á netinu enda allmörg hundruð blaðsíðna og uppsetning miðuð við prentað rit en ekki til að vera sérlega aðgengilegt.

Meðan ég starfaði á bókasafni Iðnskólans í Reykjavík útvegaði ég safninu alltaf á hverju hausti eintak til að kennarar og nemendur ættu þess kost að rýna í þennan talnafróðleik. Oft var þetta tilefni til góðra umræðna á kennarastofunni þar sem rætt var um í hvað skattarnir okkar fara og hvernig þeim er ráðstafað.

Fyrir nokkru átti ég leið á Landsbókasafn og spurðist fyrir um hvar fjárlagafrumvarpið væri að finna. Mér var vísað á þjóðdeild þar sem unnt væri að fá aðgang að því sem beðið væri um.

Í mínum huga á fjárlagafrumvarp Alþingis Íslendinga að liggja fyrir á öllum opinberum bókasöfnum landsins. Þetta sjónarmið byggist á því að hver og einn eigi kost á því að koma með athugasemdir um ráðstöfun skatttekna landsmanna.

Ekkert er jafn hollt hverri ríkisstjórn og að sem flestum sé gert auðvelt að fylgjast með og fletta upp nauðsynlegum upplýsingum um opinber fjármál. Þannig eflum við lýðræðið og sameiginlega umræðu um þessi mikilvægu mál.

Höfundur er leiðsögumaður og fyrrverandi bókavörður. arnartangi43@gmail.com