Veðurstofan gaf í gær út gula viðvörun sem nær til allra landshluta í dag og sums staðar til morguns. Víðast er spáð suðvestan hvassviðri, allt að 25 m/s, rigningu og skúrum. Hvassast verður á Norðvesturlandi. Hviður geta orðið allt að 40 m/s við fjöll.

Veðurstofan gaf í gær út gula viðvörun sem nær til allra landshluta í dag og sums staðar til morguns. Víðast er spáð suðvestan hvassviðri, allt að 25 m/s, rigningu og skúrum. Hvassast verður á Norðvesturlandi. Hviður geta orðið allt að 40 m/s við fjöll.

Er almenningur hvattur til að huga að lausamunum við híbýli sín.

Á höfuðborgarsvæðinu telur Veðurstofan varhugavert að vera á ferðinni með aftanívagna eða ökutæki sem taka á sig mikinn vind. Einnig geti verið hvassir sviptivindar í efri byggðum og við háar byggingar. Er fólk hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón. Sams konar viðvörun gildir fyrir miðhálendið.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tók undir viðvörun Veðurstofunnar í gærkvöldi. Spáð væri leiðindaveðri, sannkölluðu „inniveðri“. Minnt er á að ganga frá lausum munum. „Enginn vill þurfa að útskýra fyrir nágrönnum sínum að þetta sé þeirra trampólín eða sólbekkur sem hafi fokið af stað,“ segir á Facebook-vef lögreglunnar.