Bjarni Sighvatsson fæddist í Vestmannaeyjum 2. desember 1932. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja 9. október 2018.

Foreldrar Bjarna voru Guðmunda Torfadóttir, f. í Hnífsdal 22.4. 1905, d. 27.9. 1983, og Sighvatur Bjarnason, skipstjóri og útgerðarmaður, f. á Stokkseyri 27.10. 1903, d. 15.11. 1975.

Bjarni var einn af 11 systkinum. Systkini hans voru Margrét, Sigurður Arnar, Guðbjartur Richard, Hrefna, Sighvatur, Magnús Torfi og Jón. Sammæðra systkini Bjarna voru Kristjana V. Jónsdóttir, Guðríður Kinloch og Haukur Guðmundsson.

Bjarni kvæntist hinn 23.5. 1953 Dóru Guðlaugsdóttur verslunareiganda frá Geysi, f. 29.12. 1934, d. 26.11. 2007. Dóra var dóttir hjónanna Sigurlaugar Jónsdóttur, f. í Hafnarfirði 28.1. 1911, d. 22.9. 1997, og Guðlaugs Gíslasonar alþingismanns, f. í Stafnesi í Miðneshreppi 1.8. 1908, d. 6.3. 1992.

Bjarni og Dóra eiga fimm börn, þau eru: 1) Sigurlaug, f. 6.10. 1954, gift Páli Sveinssyni, f. 6.8. 1950, þau eiga þrjú börn; a) Söru, f. 8.3. 1983, eiginmaður Jón Þór Klemensson, saman eiga þau tvö börn, b) Örnu Sif, f. 5.1. 1988, sambýlismaður Þorkell H. Sigfússon, og c) Sighvat, f. 14.5. 1990. Fyrir átti Sigurlaug Dóru Björk Gunnarsdóttur, f. 25.8. 1974, gift Viðari Einarssyni, þau eiga fjögur börn, Páll átti fyrir tvö börn, Helenu Sigríði og Svein Davíð. 2) Guðmunda Áslaug, f. 8.9. 1956, gift Viðari Elíassyni, f. 1.7. 1956, þau eiga fjögur börn: a) Bjarna Geir, f. 11.10. 1979, eiginkona Harpa Reynisdóttir, þau eiga þrjá syni, b) Sindra, f. 25.12. 1982, eiginkona Þórsteina Sigurbjörnsdóttir, þau eiga þrjú börn, c) Margréti Láru, f. 25.7. 1986, sambýlismaður Einar Ö. Guðmundsson, þau eiga tvö börn, og d) Elísu, f. 26.5. 1991, sambýlismaður Rasmus S. Christiansen, þau eiga eina dóttur. 3) Sighvatur, f. 4.1. 1962, kvæntur Ragnhildi S. Gottskálksdóttur, f. 3.7. 1956, þau eiga þrjú börn, Dóru Dúnu, f. 2.12. 1984, sambýliskona Anna M. Grímsdóttir, Bjarna, f. 24.3. 1987, og Eggert Rafn, f. 23.12. 1995. Áður átti Ragnhildur synina Þórð og Gottskálk Þorstein. 4) Ingibjörg Rannveig, f. 2.9. 1970, gift Halldóri Arnarssyni, f. 11.10. 1966, þau eiga þrjú börn, Örn Bjarna, f. 14.1. 2000, Hákon Inga, f. 24.1. 2004, og Jón Ísak, f. 21.9. 2005. Fyrir átti Halldór tvö börn, Hörpu og Orra. 5) Hinrik Örn, f. 15.9. 1972, kvæntur Önnu J. Sævarsdóttur, f. 24.12. 1972, þau eiga þrjár dætur, Björg Huldu, f. 26.1. 1997, Birgittu Hrönn, f. 15.1. 2000, og Alexöndru Sif, f. 5.7. 2005.

Bjarni ólst upp í Vestmannaeyjum. Hann lauk skipstjórnarprófi 1954. Bjarni starfaði alla sína ævi við útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum. Í samstarfi við viðskiptafélaga byggði hann fiskvinnslu Fjölnis snemma á sjöunda áratug síðustu aldar, jafnframt gerði hann út Hamraberg VE, Kristbjörgu VE og Sigurfara VE. Bjarni var stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar frá 1986 til 1994 er hann og Dóra eiginkona hans seldu eignarhlut sinn í fyrirtækinu. Eftir að starfsævi Bjarna lauk naut hann sín vel í Þorlaugargerði þar sem hann sinnti áhugabúskap. Bjarna var mjög umhugað um hag Vestmannaeyja og var mjög duglegur að aðstoða við ýmiss konar tækjakaup fyrir Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja.

Bjarni og Dóra hófu búskap í Garðinum í Eyjum árið 1954. Þau festu kaup á Brimhólabraut 9 í Eyjum 1954 og árið 1974 festu þau kaup á Heiðarvegi 9. Eftir andlát Dóru fluttist Bjarni að Baldurshaga 5. Bjarni bjó á Hraunbúðum, dvalar- og hjúkrunarheimili í Vestmannaeyjum, síðustu ár ævi sinnar.

Útför Bjarna fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 20. október 2018, og hefst athöfnin klukkan 13.

Síðasti bryggjurúnturinn hefur verið farinn. Allir sem hann þekkja hafa farið á bryggjurúnt með honum, minningarnar eru margar frá þessum ferðum.

Pabbi ólst upp í Eyjum og vildi hvergi annars staðar vera. Hann fór ungur til sjós, varð snemma stýrimaður og síðar skipstjóri. Eftir að hann kom í land tók við uppbygging á útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækinu Fjölni hf. í Eyjum, en fyrirtækið átti hann í félagi við aðra. Útgerð og vinnsla voru starfsvettvangur hans um 30 ára skeið.

Fjölnir og útgerðin voru síðan seld 1975, þá hóf hann störf í Vinnslustöðinni, sem var síðan hans vettvangur til 1994, fyrst sem verkstjóri og síðar sem stjórnarformaður.

Við störfuðum saman í Vinnslustöðinni frá 1992 til 1994. Það voru oft á tíðum mjög erfiðir tímar. Sameiningarmál fyrirtækjanna í Eyjum 1991 fóru illa í hann, en fyrirtækin voru að berjast fyrir lífi sínu. Hann stóð fastur á sínu. Samningaviðræðurnar um sölu bréfanna í Vinnslustöðinni eru líka minnisstæðar, hann gaf ekkert eftir í þeim viðræðum, seldi en tryggði jafnframt framtíð fyrirtækisins með aðkomu nýrra öflugra hluthafa.

Við fórum til Fecamp í Frakklandi 1993 að kaupa nýlegan norskbyggðan togara á uppboði. Við sátum fyrir framan fimm dómara og afhentum þeim tilboðið í skipið. Pabbi sagði tilboðið alltof lágt. Vorum síðastir inn, en málið var vel skipulagt. Hann hafði ekki trú á þessu. Ég sagði honum að treysta mér. Daginn eftir fengum við staðfestingu á að tilboði okkar í skipið var tekið. Hann fór síðan og sótti skipið til Frakklands með einvala áhöfn og sigldi því til Eyja.

Eftir að þau hjónin seldu hlut sinn í VSV einbeitti hann sér að því að vera frístundabóndi. Hann hafði keypt Þorlaugargerði vestra í Eyjum nokkrum árum áður, og hafði góða aðstöðu fyrir skepnurnar og undi sér vel.

Frá æsku minni koma oft fram minningar um þegar átti að girða, heyja, smala o.s.frv. Þá voru okkur systkinunum engin grið gefin. Þá var bannað að fara á æfingar; við yrðum að hjálpast að. Vinir okkar voru einnig kallaðir til.

Ung byrjuðum við systkinin að starfa í Fjölni við fiskvinnslustörf. Pabbi var á þeirri skoðun að fólk ætti að vinna. Erfiðlega gekk að fá frí til æfinga, skoðun pabba var að ég myndi aldrei lifa á því að sparka bolta, ætti að sinna námi og vinnunni.

Pabbi var góður maður, unni Eyjunni sinni afar heitt og vildi allt fyrir samfélagið í Eyjunum gera. Lagði sig fram um að aðstoða hvar sem hann gat. Hann fékk sérstaka ást á Sjúkrahúsinu í Eyjum, og fékk marga með sér í að gera það betur tækjum búið og bæta aðstöðu sjúklinga og starfsfólks.

Mig langar til þess að þakka starfsfólki Heilsugæslunnar og á Hraunbúðum fyrir umhyggju þeirra í garð föður míns. Einnig þeim er tóku hann í bíltúra um Eyjuna og á bryggjurnar, þakka Agli fyrir umhyggjuna, fyrir myndasímtölin yfir hafið sem gáfu okkur mikið. Gotta fyrir umhyggjuna og fyrir að lofa afa sínum að fylgjast vel með í hestunum. Hann naut þess.

Minningin um góðan mann lifir í hjörtum okkar, og megi pabbi hvíla í friði hjá mömmu.

Sighvatur.

Með fáeinum orðum langar mig að minnast pabba míns sem lést í sl. viku. Það er margs að minnast þegar ég hugsa til baka og rifja upp skemmtilegar minningar um pabba á uppvaxtarárum mínum í Vestmannaeyjum.

Það var alltaf mikið um að vera á Heiðarveginum, pabbi að sinna útgerð eða málefnum Vinnslustöðvarinnar og mamma átti og rak bókabúð. Í minningunni var vinnudagurinn langur og oft langt fram á kvöld. Síminn stoppaði ekki í hádeginu enda á þessum tíma farsímar varla komnir á markað. Enda var það svo að þegar Anna, konan mín, fór að venja komur sínar til Eyja með mér spurði hún mig oft hvort foreldrar mínir svæfu aldrei.

Athvarf mömmu og pabba var að fara í Þorlaugargerði um helgar þar sem pabbi naut sín vel í að sinna rollunum. Enda eru minningarnar margar tengdar Þorlaugargerði, í heyskap eða að leita að lömbum á vorin í sauðburðinum.

Pabbi var alla tíð mikill framkvæmdamaður. Skipti þá engu hvort það væri í atvinnulífinu, á heimili okkar á Heiðarvegi, í Þorlaugargerði eða jafnvel þegar hann var fluttur upp á öldrunarheimilið Hraunbúðir í Eyjum. Fram á síðasta dag var verið að skipuleggja eitthvað.

Þrátt fyrir að hafa stigið til hliðar í útgerð og fiskvinnslu fyrir nær 24 árum fylgdist hann alltaf vel með hvernig fiskaðist hjá skipunum í Eyjum. Í seinni tíð fylgdist pabbi betur með íþróttum og þá sér í lagi þegar barnabörn og barnabarnabörn hans voru að keppa og mér er mjög minnisstætt eitt af síðustu samtölum okkar er hann furðaði sig á hvaðan þessi íþróttagen væru komin. Hann sagðist hafa spilað einn fótboltaleik með Þór en var samt nokkuð viss um að hann ætti hluta í þessum íþróttagenum barnabarna sinna.

Pabbi var litríkur persónuleiki. Það var aldrei lognmolla í kringum hann. Hann hafði skoðanir á öllu og var ekkert að fela þær. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur. Pabbi var mýkri maður en margir hafa eflaust haldið. Honum var mjög annt um fjölskyldu sína og óskaði þess heitast að öll stórfjölskyldan byggi í Eyjum. Hann skildi aldrei hvað fólk þyrfti að þvælast upp á land, hvað þá til útlanda.

Pabba var mjög annt um Vestmannaeyjar og var ófeiminn við að hafa samband við alþingismenn og ráðherra til að koma málefnum Vestmannaeyja á framfæri. Eftir að mamma dó fékk hann aukinn áhuga á að bæta búnað sjúkrahússins í Eyjum og gerði það myndarlega eins og svo margt annað sem hann gerði.

Ég vil nota tækifærið og þakka starfsfólki Hraunbúða og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja fyrir frábæra umönnun.

Þinn sonur,

Hinrik Örn.

Í dag kveðjum við elskulegan föður og tengdaföður.

Hann var útgerðarmaður, fiskverkandi og síðar ásamt konu sinni stór hluthafi í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum, pabbi var maður framkvæmda og fylgdi hugðarefnum sínum vel eftir. Hvatti okkur börnin eindregið til að standa á eigin fótum og vera sjálfstæð í einu og öllu, var alltaf tilbúinn að styðja við bakið á okkur varðandi það sem við tókum okkur fyrir hendur.

Hann var mikill dýravinur, átti hesta, kindur og hænsni. Til að geta sinnt þessu áhugamáli sínu keyptu þau hjónin Þorlaugargerði vestra og hófu þar á seinni árum tómstundabúskap. Það átti hug hans allan, hann elskaði að hafa alla fjölskylduna með sér í Þorlaugargerði við bústörfin og höfðu börnin okkar mjög gaman af þessu áhugamáli afa síns.

Það urðu kaflaskipti í lífi hans þegar hann missti eiginkonu sína Dóru Guðlaugsdóttur í lok árs 2007.

Þau voru samrýnd hjón, studdu hvort annað í sínum hugðarefnum. Upp frá þeim tíma fóru kraftar hans að beinast að uppbyggingu Sjúkrahússins í Vestmannaeyjum, en hann stóð ásamt fleirum fyrir söfnunum til styrktar starfsemi sjúkrahússins og var það gert af myndarskap.

Pabbi hafði skoðanir á mönnum og málefnum alveg fram á síðasta dag, oft var tekist á í umræðunni, sem við teljum að hafi gert okkur víðsýnni.

Samfélagið okkar var honum kært, mikill áhugamaður um að hér væri gott mannlíf og öflug fyrirtæki.

Pabbi elskaði að fara í bíltúra um Eyjuna sína og dáðist að framkvæmdagleði fyrirtækjanna og einstaklingsins, og hann var alltaf jafn hissa á því að fólk vildi ekki búa í Vestmannaeyjum.

Pabbi mátti ekkert aumt sjá og var alltaf tilbúinn að aðstoða þá sem minna höfðu og gerði það af rausnarskap.

Takk, elsku pabbi, fyrir að vera til staðar fyrir okkur og börnin okkar.

Við munum sakna þín.

Guð blessi þig.

Guðmunda Bjarnadóttir

Viðar Elíasson.

Elsku pabbi, kveðjustund okkar var ljúfsár. Þú varst hvíldinni feginn að afloknu góðu dagsverki, enda var líf þitt litríkt og þú náðir að áorka því sem þú ætlaðir þér. Ég rakst á eftirfarandi orð: „Stundum tjáir hamingjan sig best gegnum tár sem fellt er fyrir vin.“ Vinskapur okkar var sannur og þau tár sem ég hef fellt og mun fella er ég hugsa til þín eru hamingjutár. Ég er svo heppin að eiga hafsjó af minningum um samverustundir okkar. Æska mín einkenndist af uppátækjum með þér, við brölluðum mikið saman og var ég strákastelpan þín. Þegar ég hugsa um horfna tíma með þér kemur upp í hugann „grey mamma!“ því oft var hún að gefast upp á uppátækjum okkar.

Á banalegunni rifjuðum við upp gamla tíma, eins og t.d. þegar ég var næstum drukknuð í hænsnaskít, þegar við vorum að brasa saman. Lyktin í bílnum á leiðinni heim og reiði mömmu þegar hún sá okkur! Eða þegar þú teymdir mig á reiðhjólinu á hvíta Benzinum upp Heiðaveginn, því ég nennti ekki að hjóla í skólann. Við áttum skap saman, gátum hlegið og þráttað og endalaus virðing og ást var á milli okkar.

Ég man hversu vel þið mamma tókuð á móti Halldóri, eiginmanni mínum, er ég kynnti ykkur þegar þið sáust í fyrsta skipti. Þú hafðir mikla trú á honum, enda duglegur maður sem vann við fisk. En dugnað og elju við vinnu áleist þú stærstu mannkosti.

Þú varst börnum okkar Halldórs yndislegur afi sem fylgdist vel með lífi þeirra. Í þeirra augum varstu alltaf sterkur og stór, gast allt, reddaðir öllu. Þau elskuðu þig af einlægni. Þú varst mikill húmoristi og skemmtilegur maður, vinur vina þinna og elskaðir eyjuna þína. Þú hafðir engan skilning á að börnin þín bjuggu ekki öll í Eyjum. Eins og þú sagðir, hér er gott að vera, og næg atvinna fyrir alla sem nenna að vinna. Hvað vill fólk meira?

Þú kenndir mér að vera sjálfstæð, standa á eigin fótum, berjast fyrir því sem ég hef trú á. Koma jafnt fram við alla og bera virðingu fyrir fólki. Þetta eru mannkostir sem ég hef reynt að lifa eftir og bera áfram til barna minna.

En elsku pabbi! Þú sagðir oft að þú þyldir ekki þegar fólk væri lofað í hástert aðeins vegna þess að það var komið yfir móðuna miklu. Því verð ég að segja satt og rétt frá. Þú varst ansi litríkur karakter og ekki allra. Þú sagðir hlutina umbúðalaust, sama hvort þeir væru jákvæðir eða neikvæðir. Þú varst harðstjóri, en sanngjarn, gerðir miklar kröfur til fólksins í kringum þig og afskaplega óþolinmóður. Ekkert gerðist nógu hratt! En með ákveðni, trú og úrræðasemi gast þú framkvæmt ótrúlegustu hluti.

Elsku pabbi! Góða ferð! Þú kyssir mömmu frá mér og treysti ég því sem þú lofaðir að þú munir vaka yfir okkur um ókomna framtíð.

Þín

Ingibjörg R. Bjarnadóttir.

„Ég get sagt þér það, Halldór minn, ef ég væri yngri, þá myndi ég...“ Þannig hófust margar samræður okkar á seinni árum. Bjarni, athafnamaður af guðs náð, alltaf með hugmyndir, skoðanir og ósk um að framkvæma.

Bjarni var „original“, kom til dyranna eins og hann var klæddur. Hann talaði hreina og beinskeytta íslensku þar sem enginn var í vafa um hvað hann meinti, en það var aðdáunarvert að hann talaði með sama hætti til allra hárra sem lágra. Hann var í eðli sínu skipstjóri, stjórnandi sem vildi stýra og gefa fyrirmæli. Persóna sem gat verið hrjúf á yfirborðinu en var í raun góðhjartað ljúfmenni. Karakterum eins og Bjarna fer fækkandi og ég þakka fyrir að hafa verið svo lánsamur að hafa kynnst honum.

Vestmannaeyjar hafa þróast og dafnað m.a. fyrir tilstuðlan manna eins og Bjarna. Hann var gallharður Eyjamaður, sem barðist fyrir hag Eyjanna alla tíð, bæði sem einn af meiri athafnamönnunum á sínum tíma, og fyrir hag sjúkrahússins á seinni árum.

Bjarni var mikill fjölskyldumaður og var svo lánsamur að giftast Dóru sinni og eignast með henni stóran hóp afkomenda. Samband Bjarna og Ingibjargar, konu minnar, var sérstakt og í þau 20 ár sem við höfum búið saman hefur varla liðið sá dagur sem þau hafa ekki verið í símasambandi, þrátt fyrir að við höfum meira og minna búið í Danmörku undanfarin 16 ár. Bjarni var frábær afi og börnin okkar sáu ekki sólina fyrir „afa Bjarna“ og hann sá ekki sólina fyrir þeim. Það var alltaf tilhlökkun og ævintýraljómi að koma til Eyja, til afa og ömmu. Fara í Þorlaugargerði og taka þátt í frístundabúskapnum, heyskapnum, gefa rollunum og hestunum, keyra bryggjurúnt o.s.frv. Enda svo í veislu á Heiðarveginum meðan Dóru naut við. Alltaf blíða í Eyjum og það er lens, var hans staðlaða mat á veðrinu fyrir Herjólf.

Bjarni var tíður gestur hjá okkur í Danmörku og það var alltaf jafn frábært að hafa hann inn á okkar heimili. Ingibjörg og strákarnir stjönuðu við hann í hvert sinn og hann kunni ákaflega vel við sig hjá okkur. Bjarni kom til okkar í síðasta sinn í maí sl. til að taka þátt í fermingu Hákons Inga. Þá var Bjarni orðinn heilsulaus og átti erfitt með gang. Hann ætlaði sér hins vegar ekki að missa af þessu og það var lýsandi dæmi um viljann og baráttuna að honum tókst að láta þann draum rætast, þrátt fyrir aðstæður væru honum ekki í hag.

Ég kveð með söknuði Bjarna tengdaföður minn. Bjarni minn takk fyrir allt og allt! Ég bið góðan guð að taka vel á móti þér í himnaríki þar sem ég vona að þú sameinist Dóru þinni á ný.

Halldór Arnarson.

Ungur var ég þegar leiðir okkar Bjarna lágu saman eftir gos á eyjunni sem Bjarni unni. Bjarni rak útgerð og var virtur atvinnurekandi í Eyjum. Ég vann þá hjá Flugfélagi Íslands og kallaði hann mig oft til vinnu á kvöldin. Þá þurfti að vinna fisk fram eftir kvöldum og um helgar. Eyjamenn, rétt eins og Bjarni, eru dugnaðarfólk og vissu að margar hendur vinna létt verk.

Tíminn leið en okkur Bjarna var ávallt vel til vina. Ég lærði mikið af honum og hann sá, rétt eins og ég, að atorkan er það sem máli skiptir þegar viðskipti eru annars vegar. Að hafa ungur unnið með manni eins og Bjarna, sem síðar varð tengdafaðir minn, var mikill skóli og þroskaðist ég og lærði tökin þegar kom að útgerð og fiskverkun. Þarna rak Bjarni í raun stoðir undir þá vegferð sem leiddi til að ég fór og sérhæfði mig í því námi sem hann lagði grunn að.

Af þeim árum sem við fjölskyldan bjuggum og ég starfaði á Bretlandi var heimili Bjarna og Dóru skjöl barna okkar Sillu, þar fengu þau að reyna sig og kynnast Vestmannaeyjum, ömmu og afa sem og öðrum frændsystkinum. Það var ómetanlegt og minning sem lifir. Ekki má gleyma því að heimili þeirra hjóna var einnig skjól fyrir dóttur Sillu, hana Dóru Björk sem átti hjá þeim sitt annað heimili og skjól. Hlýja og umhyggja þeirra hjóna gagnvart okkur öllum umlukti okkur þótt fjarlægðin væri oft mikil. Heimili þeirra var okkar heimili í Heimaey.

Bjarni var ávallt tengdur útgerð eins og margir í Eyjum. Hann var einnig tómstundabóndi og hafði afskaplega mikla ánægju af að umgangast hesta, ær og annan búfénað. Fékk hann mann oft til að smala og þindarlaus hljóp maður tindahlaup í Eyjum löngu fyrir tíð þeirra hlaupagarpa sem það stunda í dag. Það hefur svo sannarlega hjálpað til að maður hefur meiri orku í dag en annars væri.

Á síðustu æviárum sínum bjó hann hjá okkur Sillu í Kópavogi þegar hann leitaði m.a. eftir heilbrigðisþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Sá tími nýttist okkur öllum vel til að eiga þessar síðustu stundir saman og efla andann með umræðum um heimsins gagn og nauðsynjar. Við Bjarni náðum vel saman og óhætt er að segja að hann hafi verið orðinn saddur lífdaga og af hógværð tjáði mér það að nú væri hann sáttur, sæll og glaður til að yfirgefa þennan heim fyrir annan betri hjá henni Dóru sinni.

Börn okkar Sillu, Dóra Björk, Sara, Arna Sif og Sighvatur, sakna þeirra beggja. Svona er gangur lífsins og þau þroskast með þeirri reynslu sem felst í því að kveðja. Óhætt er að segja að þau njóti minninganna sem veita þeim hlýju alla tíð.

Nú kveðjum við þennan mæta mann og söknuður okkar er mikill. Hann var góðmenni, vinur vina sinna og þeirra sem eru minni máttar. Blessuð sé minning þín Bjarni.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Hávamál)

Páll Sveinsson.

Bjarni var litríkur og skemmtilegur karakter. Stór, mikill og ákveðinn maður sem á yfirborðinu virtist harðari en raun bar vitni. Undir niðri var hann þessi mjúki maður sem mátti ekkert aumt sjá og var stöðugt tilbúinn að rétta hjálparhönd og passaði vel upp á sína. Þegar ég kom í fyrsta skiptið á heimili hans og Dóru í Eyjum var fyrsta spurning mín hver hefði átt stórafmæli. Ástæðan var sú að um allt hús voru blómavasar með rauðum rósum. Hinni útskýrði þá fyrir mér að það væri árlegt uppátæki pabba síns að færa Dóru rós fyrir hvern mánuð sem liðinn var frá því að hann „valdi rétt“. Þarna voru liðin níu ár frá því að hann hafði hætt að drekka og rósirnar því orðnar 108 talsins sem hann færði henni þetta árið.

Mjög lýsandi fyrir það hversu stórtækur hann var og hjá honum var alltaf lifað eftir mottóinu „að hika er sama og tapa“. Það var mikill erill á heimilinu á Vinnslustöðvarárunum og naut hann sín vel um helgar í Þorló úti að stússast í hestunum og rollunum og fékk þá útrás fyrir bóndann í sér. Fyrir barnabörnin var draumur að fá að vera með afa úti á túni, fara á hestbak og fara svo inn til ömmu sem alltaf var klár með eitthvað nýbakað. Við náðum vel saman og hafði ég gaman af því hversu hreinn og beinn hann var og dugði ekkert annað en að svara honum í sömu mynt og því kunni hann vel.

Ég var um tvítugt og við á leið á aðalfundarhóf SÍF og Bjarni kom til dyra á hótelherbergi þeirra hjóna, leit á mig og sagði: „Það hefur nú ekki kostað mikið efnið í þennan kjól.“ Mjög lýsandi fyrir Bjarna, sem lét allt flakka óritskoðað. Hann lá ekki á skoðunum sínum og oft gustaði í kringum hann þegar hann lét í sér heyra um málefni sem honum þóttu mikilvæg og fékk hann oft orð í eyra frá konu sinni, sem var öllu varfærnari í máli. Alltaf bar hann hag Eyjanna fyrir brjósti, hvort sem það var að tryggja að kvótinn héldist í Eyjum þegar þau seldu hlut sinn í Vinnslustöðinni, að sjúkrahúsið væri sem best búið eða hvernig bæta mætti aðbúnað aldraðra þar.

Bjarni bar mikla virðingu fyrir Dóru sinni og var honum virkilega erfitt að sjá á eftir henni í lok árs 2007. Þau voru vissulega mjög ólík hjón og eftir fráfall hennar varð fjölskyldunni betur ljóst að hún hafði átt fullt í fangi með að tempra framkvæmdagleði hans. Hann var framkvæmdamaður mikill og fékk endalausar hugmyndir og því gott að eiga maka sem fékk hann til að staldra örlítið við áður en farið var af stað. Hann var mikill fjölskyldumaður og var aldrei ánægðari en þegar öll fjölskyldan safnaðist saman í Eyjum. Börnunum okkar sýndi hann alltaf mikla væntumþykju og fékk ég ómetanlegan stuðning og hlýju frá honum fyrir ári þegar ég þurfti að gangast undir stóra aðgerð. Þó að heilsan hjá honum gæfi eftir síðustu ár var hugurinn fullur af eldmóði. Ferðin til Lemvig í fermingu Hákonar í maí sl. sýndi það að hann lét ekkert stoppa sig þegar hann hafði tekið ákvörðun. Heilsan tæp en þegar við ræddum hvort hann treysti sér í verkefnið þá var svarið: „Mér er alveg sama þótt ég drepist í Danmörku.“ Þetta gekk þó allt framar björtustu vonum og naut hann sín vel þar í faðmi fjölskyldunnar og við glöð að fá að njóta með honum þessarar ferðar sem við óttuðumst þó að væri hans síðasta.

Ég er þakklát fyrir hann sem tengdapabba og megi hann nú hvíla í friði og minningarnar okkar lifa um ókomna tíð.

Anna Jónína.

Það var alltaf gott að koma í heimsókn til afa Bjarna, hvort sem það var á Heiðarvegi hjá afa og ömmu Dóru, Þorlaugargerði, Baldurshaga eða jafnvel á elló. Það var alltaf nóg að gerast hjá afa og var það sjaldan sem manni leiddist að vera með honum. Þegar við vorum yngri var það hin fullkomna blanda að fara til Eyja til ömmu og afa, að dúllast með ömmu tímunum saman og síðan eltandi afa út um öll tún og alltaf voru búin að bætast við ný dýr sem hann þurfti að sinna.

Við eigum fullt af skemmtilegum minningum um afa og var í miklu uppáhaldi þegar við vorum yngri að rúnta um eyjuna á bláa bílnum hans, skemmtilegast var þegar við vorum allt upp í sex frændsystkinin og sátum í hrúgu saman aftan á pallinum og var ekkert mikið verið að huga að beltum. Afi bjó stundum til sínar eigin reglur sem voru aðeins hentugri en aðrar, enda ekkert mikið fyrir það að hlusta á aðra. Maður velti því stundum fyrir sér hvort afi þekkti bókstaflega alla í Vestmannaeyjum þar sem hann heilsaði öllum sem urðu á vegi hans meðan á rúntinum stóð.

Afa Bjarna verður sárt saknað og erum við þakklátar fyrir að hafa átt svona æðislegan afa sem hugsaði alltaf vel um mann.

Björg Hulda, Birgitta Hrönn og Alexandra Sif.

Elsku afi minn, ég er svakalega þakklát fyrir allar minningarnar sem ég á um þig. Það eru ekki margir viðburðir í mínu lífi sem við höfum ekki notið saman og sakna ég þess mikið að hafa þig ekki hjá mér áfram. Þú gekkst með mér inn kirkjugólfið þegar ég gifti mig, þú varst einn af þeim fyrstu til að sjá börnin mín eftir fæðingu og þú tókst þátt í öllum stóru dögunum í mínu lífi.

Við vorum ekki alltaf sammála en gátum alltaf verið sammála um að vera ekki sammála. Þegar við tókum slagina og vorum farin að æsa okkur aðeins of mikið sagðir þú alltaf: „Jæja, Dóttla mín, ertu ekki hress?“ Þá vissi maður að nú myndum við taka upp léttara hjal. Þú lést mig alltaf vita ef þú varst óánægður með eitthvað sem ég gerði en þú varst líka óspar á hrósið þegar þér fannst ég standa mig vel.

Þú varst krökkunum mínum mikill og góður afi sem fylgdist ótrúlega vel með þeim verkefnum sem þau voru í og þá sérstaklega íþróttunum. Þú lést peyjana heyra það þegar þér fannst árangurinn ekki nægilega mikill og sagðir þá: „Hvaða aumingjaskapur var þetta í ykkur að tapa þessum leik?“ Stóru strákarnir mínir voru oft með þér uppi í Þorlaugargerði að vesenast í lömbum, hænum, heyskap eða girðingum þar sem reglurnar hans afa voru þær einu sem voru í gildi. Ég fór yfir það með þér að ég vildi ekki að strákarnir væru uppi á pallinum á bílnum hjá þér og sagðir þú að þeir væru aldrei þar en næst þegar ég mætti ykkur sátu þeir brosandi á pallinum og þú vissir að þú hefðir nú verið gripinn í landhelgi. Ég þekkti gleðina í strákunum varðandi þessa samveru því ég fékk að vera mikið mér þér í sveitinni að brasa þegar ég var yngri.

Uppátækin þín eru óendanlega mörg og mörg brosleg eins og þegar þú komst allur blár heim til mín eftir að hafa verið að reyna að merkja hænu sem var að leggja aðrar í stofninum í einelti eða þegar þú tengdir bílasímann við flautuna í bílnum þannig að það var ólíft í kringum bílinn fyrir hávaða því síminn var alltaf að hringja. Þú fékkst mikið af góðum hugmyndum sem þú komst í verk og er óhætt að segja að þú hafir verið lausnamiðaður og horfðir yfirleitt á vandamál sem verkefni sem auðvelt væri að leysa. Við ræddum oft hugmyndir þínar með að fá hænur eða kött á Hraunbúðir sem gæti stytt heimilisfólkinu stundirnar og gátum við ekki verið sammála um að þessu myndu fylgja töluverð vandamál því þú varst með lausnir við öllum mínum áhyggjum.

Þú passaðir alltaf mjög vel upp á mig og eru mikil forréttindi að hafa verið elsta barnabarnið þitt, þú brostir alltaf þegar ég sagði við þig að ég væri uppáhalds elsta barnabarnið þitt. Við áttum fallegt samband sem hefur mótað mig mikið sem manneskju og er ég óendanlega þakklát fyrir að hafa notið þeirra forréttinda að eiga margar samverustundir með ykkur ömmu Dóru.

Afi, það er gott að þú sért kominn til ömmu og treysti ég á að þú munir halda áfram að vaka yfir mér og mínu fólki. Ég mun passa upp á að krakkarnir mínir gleymi ekki öllum skemmtilegu minningunum um þig.

Hvíl í friði,

Dóra Björk (Dóttla).

Elsku afi.

Þá er komið að kveðjustund en það yljar mér um hjartarætur að vita til þess að loksins ertu kominn aftur við hlið ömmu, en þú hefur saknað hennar mikið síðan hún kvaddi okkur fyrir 12 árum. Ég held að flestir sem þig þekktu eða hafa hitt þig eigi af þér nokkrar góðar sögur enda litrík persóna með eindæmum sem lét ekki sitt eftir liggja og sagði sína meiningu sama hvernig á stóð. Þau eru ófá skiptin sem rifjast upp fyrir mér, þegar verið var að reyna að tala þig ofan af einhverri hugmynd eða jafnvel skammast í þér, þar sem þú hallaðir bara hausnum fram og klóraðir þér í kollinum þangað til að viðkomandi var búinn. Þú sagðir sem minnst á meðan á stóð en svo kom glottið til þeirra sem voru viðstaddir, sem gaf til kynna að ólíklegt var að ræðan hefði borið tilsettan árangur! Um leið máttir þú þó ekkert aumt sjá og passaðir sérstaklega vel upp á þá sem þú taldir að þyrftu á þér halda. Fyrir það mun ævinlega virða þig.

Hvíldu í friði, elsku afi minn

Þín,

Sara.

Símtalið er mér enn ógleymanlegt, þá nýkjörinn alþingismaður, Bjarni Sighvatsson í Vestmannaeyjum, hringdi í mig og kvaðst vilja hitta mig sem fyrst.

Ég minnist þess hversu röddin var sterk og maðurinn hispurslaus og ákveðinn. Fundum okkar bar saman nokkru síðar á skrifstofu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum og þar tókst með okkur vinátta og einstakur trúnaður sem varði til lokadags. Ég hringdi í vin minn Sigurgeir Kristjánsson á ESSÓ fyrir fundinn með Bjarna og bar undir hann erindið. Hann sagði með sinni sérstöku rödd og hægð, það skaðar þig ekki að hitta Bjarna, hann er auðvitað íhald og tengdasonur Guðlaugs Gíslasonar, fyrrverandi alþingismanns, en í pólitík er best að tala við sem flesta, þín staða batnar bara hér í eyjunum við að kynnast honum.

Oft eftir þetta kom ég til Bjarna og Dóru á heimili þeirra og fannst mikið til um þau bæði og hversu góð þau voru mér. Við Bjarni áttum hjartalag saman, áhugamenn um hagsmuni lands og þjóðar, skoðanir okkar féllu saman og svo var hann bóndi inn við hjartaræturnar. Hann ók oft með mig um eyjarnar, sagði mér frá fólkinu og fræddi mig um sjómennskuna og sögu eyjanna og náttúruna.

Stundum skruppum við saman í Þorlaugargerði, hann hellti á könnuna og þá var eins og kominn væri annar strengur í Bjarna en í Þorlaugargerði rak hann búskap, átti bæði sauðfé og hesta, enda góður hestamaður. Þarna sat með mér bóndinn Bjarni Sighvatsson, útgerðarmaðurinn og skipstjórinn voru horfnir úr skapgerðinni, jafn heillandi fannst mér þeir, en bóndinn Bjarni var ekta eins og ég þekkti sveitamenn besta.

Hvergi fannst mér jafn gaman að hitta kjósendur mína eins og í Vestmannaeyjum, þar var að vísu fylgi flokks míns ekki alltaf sterkt en fólkið tók manni vel og fundirnir voru harðir og þeir töluðu við okkur á sjómannamáli eða með tveimur hrútshornum ef þannig stóð í bælið þeirra. En svo áttu þeir í manni hvert bein þegar fundi lauk, ég tala nú ekki um ef maður hafði burði til að svara fullum hálsi.

Bjarni Sighvatsson var sannur Eyjamaður, stór í sniðum, orðhvatur ef honum rann í skap og skóf ekki utan af hlutunum, maður fann hvernig brimaði í sálinni og svo kom sólskin og sundin blá, einlægnin og væntumþykjan. Bjarni var velgjörðarmaður Vestmannaeyja, hann vissi að á eyjunni sinni gat allt lokast vegna veðurs á augnabliki, þar þurfti allt að vera til staðar til að bjarga mannslífum. Því var hann ötulasti velgjörðarmaður Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja og stóð fyrir fjársöfnunum til tækjakaupa og gaf sjálfur oft tæki og peninga.

Bjarni bognaði aldrei þótt elli kerling væri farin að vinna á honum, röddin var sterk til loka. Og ekki dró hann af sér í baráttunni fyrir heimabyggðina sína en hann hlaut að brotna í bylnum stóra síðast, þeir hraustu deyja líka.

Ævintýrið um drenginn sem gerðist sjómaður fermingarárið sitt varð sigurganga, Bjarni var einn af bestu sonum Vestmannaeyja. Nú er Bjarni farinn á vit feðra sinna og þau Dóra fallast í faðma á ströndinni miklu.

Hver ævi og saga, hvert aldabil

fer eina samleið sem hrapandi straumur.

– Eilífðin sjálf, hún er alein til.

Vor eigin tími er villa og draumur.

(E. Ben.)

Blessuð sé minning Bjarna Sighvatssonar.

Guðni Ágústsson.

Látinn er góður vinur okkar, Bjarni Sighvatsson frá Ási. Bjarni var einn af þessum eðal Eyjamönnum sem bera hagsmuni samfélagsins okkar fyrir brjósti. Hann lá ekkert á skoðunum sínum og lét þær óhikað í ljós, samt með þeim hætti að það mátti ekki særa neinn. Bjarni hafði ekki bara ákveðnar skoðanir á málefnum okkar Eyjamanna, hann fylgdi þeim eftir. Oftar en ekki var Bjarni í forsvari fyrir hópi góðra manna sem keyptu ýmislegt sem þeim fannst vanta inn í samfélag okkar Eyjamanna. Heilbrigðisstofnunin í Eyjum naut sérstakrar velvildar þessa ágæta hóps. Þetta voru helstu áhugamál Bjarna seinni árin í lífi hans, þ.e. að gefa til þess samfélags sem fæddi hann og gaf honum gott líf.

Starfsævi Bjarna var að mestu leyti tengd sjávarútvegi en í Bjarna leyndist líka bóndi og var hann bæði með kindur og hesta. Aðstaða hans fyrir þennan frístundabúskap var í Þorlaugargerði og á þeim slóðum leið Bjarna vel.

Eiginkona Bjarna var Dóra Guðlaugsdóttir en hún lest árið 2007. Fráfall hennar tók mjög á Bjarna. Bjarni og Dóra eignuðust fimm börn. Þrátt fyrir þennan mikla missi var lífslöngun Bjarna mikil, honum fannst hann eiga svo margt ógert þó svo að hann væri kominn vel á níræðisaldurinn. Honum fannst það algjör tímasóun að sitja aðgerðarlaus á Hraunbúðum tímunum saman án þess að hafa neitt fyrir stafni, enda naut hann þess að fara í bíltúr með fjölskyldu sinni og vinum. Seinni árin voru veikindi Bjarna oft erfið en eins og áður sagði var lífslöngunin það mikil að hann neitaði að gefast upp.

En eins og við vitum öll ráðum við ekki vitjunartíma okkar á þessu jarðríki. Bjarni í Ási hefur verið kallaður til annarra starfa á stað sem við á þessu jarðríki þekkum ekki. En eftir kynni okkar á Bjarna í Ási vitum við að hann skilur eftir fallegar minningar hjá fjölskyldu og vinum. Við sem þekktum Bjarna vissum alltaf að þar áttum við góðan vin.

Um leið og við kveðjum vin okkar viljum við senda ættingjum hans okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hvíl í friði, kæri vinur, og skilaðu kveðju til Dóru þinnar.

Stefán og Björk.

Bjarni Sighvatsson er látinn. Að slíkum manni er mikill sjónarsviptir. Það fór ekki framhjá neinum þegar hann arkaði um bæinn eða brunaði á ellinöðrunni eins og síðustu árin. Svo hafði hann ákveðnar skoðanir á flestum málum og fannst alger óþarfi að liggja nokkuð á þeim, enda alltaf mjög hressandi að rökræða við hann.

En hann var líka örlátur, hjálpsamur og einlægur maður, vinur vina sinna í raun og reynd og hrókur alls fagnaðar í góðum félagsskap.

Hann var í öllum skilningi stór maður með stórt hjarta sem gaf sig að lokum.

Hann mun lifa í minningu þeirra sem þekktu.

Elisabet Weisshappel.