— Morgunblaðið/Eggert
Hvers vegna uppistand? „Mér hefur alltaf þótt gaman að grínast og fann nokkuð snemma að uppistandsformið væri fín leið fyrir mig til að miðla gríni.
Hvers vegna uppistand?

„Mér hefur alltaf þótt gaman að grínast og fann nokkuð snemma að uppistandsformið væri fín leið fyrir mig til að miðla gríni. Ég byrjaði að koma fram á viðburðum í MR, meðan ég var þar við nám, og út frá því fór ég að fá beiðnir um að skemmta í afmælum og slíku. Ég hélt áfram að þróa formið og í haust áttaði ég mig á því að ég hafði enga ástæðu til að bíða með að þreyta frumraun mína á sviði. Nú er bara að henda sér út í djúpu laugina.“

Hverjar eru áherslurnar í gríninu?

„Ég er nýorðinn tvítugur og skoða heiminn vitaskuld með þeim augum. Hvernig var að vera í menntaskóla og hvernig er að byrja í háskóla, en ég hóf nám í stjórnmálafræði í haust. Margir tengja við þetta, ungir sem aldnir. Ég skoða líka þjóðfélagið sem við búum í út frá minni persónu og í því sambandi eru viðfangsefnin nokkuð almenn.“

Hefurðu áhuga á pólitík?

„Já, það hef ég og þjóðfélagsumræðu almennt og samskiptum fólks. Ég nálgast grínið þó ekki út frá mínum pólitísku skoðunum heldur út frá orðræðunni almennt. Við erum öll mennsk og hægt er að finna eitthvað fyndið í öllum stjórnmálamönnum.“

Hverjar eru grínfyrirmyndir þínar?

„Ég er fæddur á svipuðum tíma og Jón Gnarr var að gera „Ég var einu sinni nörd“ og ég hef fylgst mikið með honum gegnum tíðina. Síðan er Mið-Ísland-hópurinn auðvitað orðinn klassískur. Ég ferðaðist nýlega um Bretland og sá nokkrar uppistandssýningar og fattaði þá enn betur hvað við búum vel hér heima; eigum uppistandara í mjög háum gæðaflokki.“

Þú ert titlaður „alþýðumaður“ í símaskránni. Er einhver saga á bak við það?

„Í raun ekki. Þetta er bara eitthvað sem mér þótti fyndið þegar ég var yngri og hef haldið mig við það. Ætli ég sé ekki bara óbreyttur alþýðumaður?Annars er ég ánægðastur með að þú hafir veitt þessu athygli; fólk gerir það almennt ekki.“

Hefurðu áhuga á að leggja uppistandið fyrir þig í framtíðinni?

„Já, ég hef tvímælalaust áhuga á því. Best er þó líklega að bíða eftir viðtökum og sjá hvernig þetta þróast.“