Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Þetta bil á bolla er. Báðum megin hefur fat. Víða sést á húsum hér. Haft er líka undir mat.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Þetta bil á bolla er.

Báðum megin hefur fat.

Víða sést á húsum hér.

Haft er líka undir mat.

Guðrún Bjarnadóttir svarar:

Borð er á bolla og norð-

urborð stórt á kökufati,

í húsi með bandsöguð borð,

á borði hjá matargati.

Helgi R. Einarsson á þessa lausn:

Lausnarinnar leita að,

litlu földu orði,

en hvert það er, ja, það er nú það,

því ekki að borði.

Helgi Seljan leysir gátuna þannig:

Borð er oft á bolla hér,

borð er yzt á fötum víst.

Úr borðviði oft byggjum vér,

á borðið hlaðið krásum líst.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Þetta borð á bolla er.

Borð að sönnu hefur fat.

Borð sjást víða á húsum hér.

Haft svo borð er undir mat.

Þá er limra:

Björn skipstjóri frá er fallinn,

er fór hann um borð í dallinn

fyrir borð,

ég á ekki orð

álpaðist blessaður kallinn.

Og að síðustu ný gáta eftir Guðmund:

Lít ég út um ljóra minn,

ljósið góða flæðir inn

skírast þankann fljótt ég finn,

fangar gátu hugurinn:

Hæð á landi líta má.

Legstaður nú blasir við.

Oft má finna fjósi hjá.

Fjarska latt er mannkertið.

Árni Björnsson sendi mér tölvupóst og leiðrétti mig í Vísnahorni á fimmtudag: „Revían Haustrigningar var sýnd árið 1925 og varla hefurðu verið farinn að hlaupa um Laugaveginn á því méli.“ Ég þakka Árna og bið lesendur afsökunar.

Síra Jón Brynjólfsson Háfshól orti um Metu-Gísla:

Herra Gísli harðar píslir þoldi

undir hríslu allsnakinn,

Árnessýsluböðullinn.

Þetta þóttu góð tíðindi:

Er nú sagður andaður,

- ævidaga fullsaddur –

öldungurinn Andskoti,

óðalsbóndi í Helvíti.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is