[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gyrðir er galdramaður. Nýja skáldsagan hans, Sorgarmars , er blandin sársauka; hvergi hef ég t.d. lesið magnaðri lýsingu á andvökunótt en í kaflanum á bls. 136-137.

Gyrðir er galdramaður. Nýja skáldsagan hans, Sorgarmars , er blandin sársauka; hvergi hef ég t.d. lesið magnaðri lýsingu á andvökunótt en í kaflanum á bls. 136-137. „Það eru engir mildir tónar sem halda fyrir mér vöku, heldur ærandi mishljómur ævi minnar. Ég gref upp allar mínar óbærilegu yfirsjónir í huganum, og gnísti tönnum af vanmætti og niðurlægingu...“

Það er samt svo mikil glettni í textanum að maður fyllist bjartsýni.

Umræðuefnið er Gyrðislegt: listamaður (Jónas) í leit að skjóli til að sinna hugðarefni sínu. Hann fór snemma „að breyta umhverfishljóðum í eitthvað annað“, eins og hann segir sjálfur (54). Hann hefur fórnað miklu, lokast inni í sjálfum sér. Samt er eins og hann þekki varla sjálfan sig, og í framhaldinu spyr hann: „En rétti nú hver upp hönd sem þekkir sjálfan sig að einhverju gagni“ (156).

Kannski er þetta bók um hlutverk listarinnar og um kraftinn sem býr innra með okkur en fer forgörðum, týnist eins og minniskompan þar sem tónhendingarnar voru hripaðar niður. – Þetta er líka bók um sambandsleysi; einnig um verkkvíða og alkul í starfi. Við þekkjum víst eitthvað svipað; sennilega er örlítill Jónas í okkur öllum. – En þetta eru ekki síður merkilegar vangaveltur um tónlist og tónlistarmenn. Og margt fleira, t.d. sérkennilegt mannlíf í íslensku þorpi „þar sem öllum utanaðkomandi er haldið í hæfilegri fjarlægð“ (91). Já, og það glittir í nýlega ástarsögu úr þorpinu – og jafnvel eldgamalt ástarævintýri í snilldarkafla sem hefst á bls. 73.

Söguþráðurinn er á yfirborðinu tíðindalítill, en undiraldan er svo sterk að þetta verður að spennusögu þar sem t.d. vaknar grunur um nótnabókarþjóf (124). En líkið sem farið er með milli staða undir segldúk reynist að vísu ekki til komið vegna morðs.

Við útförina var tónlist flutt í þorpskirkjunni. „Organistinn hafði ekki verið sérlega góður, en hann var þó hátíð hjá kórnum. Það voru nágalar af guðs náð. Óhreinar og falskar raddirnar hreinlega skáru í eyrun“ (124).

Kaupmaðurinn í Melkjör er mikilvæg persóna og nafnið á búðinni hans skiptir Jónas máli. Síðan breytist nafnið með nýjum eiganda í 9/11. Og nú legg ég erfiða spurningu fyrir ykkur: Hvers vegna fáum við að vita hvað tímanum leið þegar Jónas ók út úr þorpinu?

Ný orð hafa bæst í forða okkar, sbr. „nágalana“ og það að vera á „síðmiðaldri“ sínum (134).

En myndmál Gyrðis er alveg sér á parti. Jónas minnist ömmu sinnar og sér í huganum „þessa gömlu konu þyrlast um eldhúsgólfið í mynstraða kjólnum – eins og vængbrotið aðmírálsfiðrildi. Hún fékk aldrei önnur tækifæri en eldhúsgólfið, hún amma...“ (55).

Stóri bróðir í fræðunum sagði á sveitasíma: „Var að lesa nýju söguna hans Gyrðis, las svo hinar tvær í trílógíunni. Ætli þessar bækur samanlagðar séu ekki hápunkturinn á glæsilegum ferli hans hingað til: heimsbókmenntir.“

Baldur Hafstað bhafstad@hi.is

Höf.: Baldur Hafstað bhafstad@hi.is