Tímamót Þórður Eyjólfsson, fyrir miðju, afhendir hjónunum Halldóri Hjálmarssyni og Huldu Gísladóttur lyklana að 50. íbúð Búhölda.
Tímamót Þórður Eyjólfsson, fyrir miðju, afhendir hjónunum Halldóri Hjálmarssyni og Huldu Gísladóttur lyklana að 50. íbúð Búhölda. — Morgunblaðið/Björn Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Björn Björnsson Sauðárkróki Á einum fallegasta haustdeginum, síðastliðinn þriðjudag, afhenti Þórður Eyjólfsson, fráfarandi formaður Búhölda, félags um byggingu húsa fyrir eldri borgara, síðustu íbúðina sem hann setti sér að byggja í nafni félagsins.

Björn Björnsson

Sauðárkróki

Á einum fallegasta haustdeginum, síðastliðinn þriðjudag, afhenti Þórður Eyjólfsson, fráfarandi formaður Búhölda, félags um byggingu húsa fyrir eldri borgara, síðustu íbúðina sem hann setti sér að byggja í nafni félagsins.

Fyrsta íbúðin var afhent árið 2000, en þá setti Þórður sér það takmark að reisa 50 slíkar. Það takmark náðist, nú 18 árum síðar. Öll húsin eru í stórum dráttum byggð eftir sömu teikningu og því að mestu eins, utan það að tvö þau fyrstu voru ekki með bílgeymslu. Alls eru þetta 25 parhús, byggð úr forsteyptum einingum, fullfrágengin úti sem inni, með hita í gólfum og öllum lögnum frágengnum.

Tæplega hafa margir leyst slík stórvirki af höndum sem Þórður, sem réðst í framkvæmdirnar með Búhöldum löngu eftir að hann átti samkvæmt öllum lögmálum að vera sestur í hinn margfræga „helga stein“ en Þórður er nú kominn í aldri nokkuð á tíunda áratuginn.

Og þar sem takmarkinu er nú náð, og ætlunarverkinu lokið, lét Þórður formennskuna í hendur Gunnars Sigurjóns Steingrímssonar, um leið og hann afhenti hjónunum Huldu Gísladóttur og Halldóri Hjálmarssyni fimmtugustu íbúðina, bjarta og glæsilega.

Aðspurður sagðist Gunnar taka við góðu búi og sjálfsagt yrði haldið eitthvað sömu stefnu en nú þegar væru að minnsta kosti fjórir á biðlista eftir íbúð hjá Búhöldum.