Kúariða Kýr á bás hjá mjólkurframleiðanda en á býlinu kom upp riða.
Kúariða Kýr á bás hjá mjólkurframleiðanda en á býlinu kom upp riða. — Reuters
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is „Við verðum að átta okkur á því hvaða umhverfi við fáum ef við vöndum okkur ekki við fráganginn [á breytingum á lögum um varnir við búfjársjúkdómum].

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Við verðum að átta okkur á því hvaða umhverfi við fáum ef við vöndum okkur ekki við fráganginn [á breytingum á lögum um varnir við búfjársjúkdómum]. Við höfum fáa þekkta sjúkdóma og sjúkdómar sem eru vægir á meginlandinu geta verið alvarlegir hér þegar þeir berast í búfjárstofna sem lengi hafa verið einangraðir,“ segir Haraldur Benediktsson, alþingismaður og fyrrverandi formaður Bændasamtaka Íslands.

Í færslu á Facebook-síðu sinni vekur hann athygli á alvarlegum sjúkdómum sem komið hafa upp í nágrannalöndunum. Haraldur nefnir tvo sjúkdóma í þessu sambandi; kúariðu og blátungu.

Þótt kúariðufaraldurinn sem gekk yfir Bretland og nálæg lönd á níunda og tíunda áratug 20. aldar sé genginn yfir hefur riða komið upp annað slagið í Evrópu. Nú síðast í Skotlandi en tíu ár eru liðin frá því síðast greindist kúariða þar. Gerðar voru ráðstafnir til að reyna að hindra útbreiðsluna frá viðkomandi býli.

Kúariðulaust land

Alþjóðlega dýraheilbrigðismálastofnunin (OIE) hefur viðurkennt Ísland sem kúariðulaust land þar sem kúariða hefur aldrei greinst hér á landi og vegna þeirra ráðstafana sem hér hafa verið gerðar. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun smitast kúariða ekki á milli nautgripa og smitefnið finnst ekki í mjólkurafurðum. Rannsóknir benda til þess að eini áhættuþátturinn í dreifingu hefðbundinnar kúariðu sé þegar nautgripir eru fóðraðir á kjöti eða beinamjöli úr sýktum nautgripum. Kúariða getur borist í fólk með neyslu á sýktu kjöti og valdið banvænu afbrigði af Creutzfeldt-Jakob sjúkdómnum.

Samkvæmt upplýsingum Sigrúnar Bjarnadóttur, dýralæknis nautgripa- og sauðfjársjúkdóma, er áhættan af sjúkdómnum hér á landi óveruleg sökum þess að hún hefur aldrei greinst hér, lifandi nautgripir hafa ekki verið fluttir inn síðan árið 1933, bannað hefur verið að flytja inn kjöt- og beinamjöl síðan 1968 og óheimilt hefur verið að fóðra nautgripi á kjöt- og beinamjöli frá árinu 1978.

Haraldur nefnir einnig vírussjúkdóminn blátungu sem kom upp í Englandi í sumar og nú aftur í Frakklandi og leggst aðallega á sauðfé og geitur en einnig nautgripi. Blátunga berst ekki með hráu kjöti heldur fer milli gripa með mýflugum sem ekki lifa hérlendis, skv. upplýsingum Mast.

Svigrúm í frystiskyldu

Segir Haraldur að þótt frystiskyldan hafi fyrst og fremst beinst gegn kamfýlóbakter geti biðtími með frystingu í 30 daga skapað svigrúm til að bregðast við ef sjúkdómar koma upp í framleiðslulöndum kjöts sem hingað er flutt.

Fyrir dyrum stendur að breyta lögum um varnir gegn búfjársjúkdómum vegna þess að dómstóll EFTA og innlendir dómstólar hafa dæmt að frystiskyldan stangist á við ákvæði EES-samningsins. Haraldur segir mikilvægt að vanda sig við frágang á þeim breytingum.

Bendir hann á hversu illa gangi að eiga við þá alvarlegu sjúkdóma sem komi upp í nágrannalöndunum og segir að vægir sjúkdómar í Evrópu sem varla eru taldir sjúkdómar geti valdið miklum skaða hér. Nefnir hann hrossasóttina sem upp kom fyrir nokkrum árum sem dæmi um það.