Tríó Richard Simm, Guðný Guðmundsdóttir og Gunnar Kvaran.
Tríó Richard Simm, Guðný Guðmundsdóttir og Gunnar Kvaran.
Tríó Reykjavíkur býður til tónleika á morgun, sunnudaginn 21. október, kl. 16 á Kjarvalsstöðum til að minnast þess að í ár eru 30 ár liðin frá stofnun tríósins. „Þar verða leikin tvö öndvegisverk tríótónbókmenntanna, tríó eftir J.

Tríó Reykjavíkur býður til tónleika á morgun, sunnudaginn 21. október, kl. 16 á Kjarvalsstöðum til að minnast þess að í ár eru 30 ár liðin frá stofnun tríósins. „Þar verða leikin tvö öndvegisverk tríótónbókmenntanna, tríó eftir J. Brahms í C-dúr Op. 87 og hið fræga tríó nr. 2 í e-moll eftir D. Sjostakovitsj,“ segir í tilkynningu. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari, Halldór Haraldsson píanóleikari og Gunnar Kvaran sellóleikari stofnuðu tríóið á sínum tíma. Halldór starfaði með tríóinu í sjö ár, en þá tók Peter Máté við og sl. þrjú ár hefur Richard Simm setið við píanóið. Tríóið hefur á ferli sínum leikið víða, bæði innanlands og utan, hélt reglulega tónleika í samvinnu við Hafnarborg í 22 ár, stóð fyrir tónlistarhátíðinni Bjartar sumarnætur í Hveragerði um 10 ára skeið og hefur í áratug staðið fyrir hádegistónleikaröð á Kjarvalsstöðum í samvinnu við Listasafn Reykjavíkur.