Ari Eldjárn er einn besti grínisti landsins. Í spjallþætti Loga Bergmanns Eiðssonar, Með Loga, fór Ari á kostum í einlægu viðtali. Ari er ófeiminn við að gefa innsýn í hvernig hann vinnur og afhjúpa hvernig hann fer að því að herma eftir fólki.

Ari Eldjárn er einn besti grínisti landsins. Í spjallþætti Loga Bergmanns Eiðssonar, Með Loga, fór Ari á kostum í einlægu viðtali. Ari er ófeiminn við að gefa innsýn í hvernig hann vinnur og afhjúpa hvernig hann fer að því að herma eftir fólki. Ugglaust eiga þeir sem hafa hug á að feta í fótspor Ara eftir að horfa á þennan þátt með mikilli athygli og jafnvel oftar en einu sinni.

Víkverji hefur oft velt því fyrir sér að það hljóti að vera erfitt að vera uppistandari á gervihnattaöld. Tilvist hinna ýmsu vefmiðla og sú staðreynd að hver einasti maður er með fullkomna upptökuvél í vasanum, sem nota má til að taka upp og setja efni á netið á augabragði, gerir að verkum að ítrekað þarf að endurnýja efni og brandarar verða nánast einnota.

Menn eiga misjafnlega auðvelt með að herma eftir öðru fólki. Jóhannes Kristjánsson eftirherma er í sérflokki í þeim efnum. Hann nær Guðna Ágústssyni það vel að vart má á milli heyra hvor er orginallinn. Sú saga hefur verið sögð að Guðni Ágústsson hafi einhverju sinni hringt heim til Jóhannesar og verið sagt að hætta þessu gríni og drífa sig heim.

Það var athyglisvert að heyra Ara lýsa því þegar hann ákvað að gera Bubba Morthens að viðfangsefni. Hann sagði að það hefði verið auðvelt að fara þá leið sem margir hefðu gert að gera grín að lesblindu söngvarans, en honum hefði ekki hugnast það. Víkverji er ekki með orðalag Ara í kollinum, en inntakið í orðum hans var að Bubbi gæti ekki að því gert að hann væri lesblindur. Það væri fyrir neðan beltisstað að gera sér mat úr því og hann vildi ekki leggjast svo lágt.

Þetta er kannski ástæðan fyrir árangri og velgengni Ara. Hann hefur frábært auga fyrir hinu skoplega og það er ekki vottur af illkvittni í gríninu hjá honum.