Guðbjörg Anna Bergsdóttir lögfræðingur
Guðbjörg Anna Bergsdóttir lögfræðingur
Að sögn Guðbjargar Önnu Bergsdóttur lögmanns, sem Kristín hefur leitað til hér á landi, er málið snúið. „Hún hefur enga leið til að sækja málið fyrir dómi hér á landi nema hún flytji til Íslands.

Að sögn Guðbjargar Önnu Bergsdóttur lögmanns, sem Kristín hefur leitað til hér á landi, er málið snúið. „Hún hefur enga leið til að sækja málið fyrir dómi hér á landi nema hún flytji til Íslands. Af því að hvorki hún né faðir hennar eru búsett hér á landi rekast þau alls staðar á veggi, 8. grein barnalaga kveður á um lögsögu í faðernismálum og er skýr um að aðilar þurfi að vera búsettir hér á landi,“ segir Guðbjörg.

Hún hefur kannað aðra leið sem hægt er að fara í faðernismálum, en það er að leita til sýslumanns. „Það kemur fram í 4. gr. barnalaga að hægt sé að gera faðernisviðurkenningu hjá sýslumanni. En þar gilda sömu reglur. Fram kemur í 68. gr. barnalaga að stjórnvöld geti leyst úr þeim málum er tengjast öðrum ríkjum ef barn er búsett hér á landi, eða sá sem krafa beinist að er búsettur hér á landi. En í barnalögum kemur einnig fram að dómsmálaráðherra geti úrskurðað um umdæmi sýslumanns, jafnvel þótt hann sé ekki búsettur í því umdæmi.“

Þarna vísar Guðbjörg í 4. mgr. 69. gr. barnalaga þar sem segir: [Ráðuneytið] 1) ákveður úrskurðarumdæmi ef hvorki barn né sá sem krafan beinist að er búsett hér á landi eða ef annars leikur vafi á því hvar leysa skuli úr máli samkvæmt framangreindu.

Guðbjörg skoðaði hvort hægt væri að fara þessa leið, að sækja um breytingu á faðerni til sýslumanns og fá því þannig breytt í þjóðskrá.

„Ég kannaði þessa leið, en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég fékk frá dómsmálaráðuneyti þá hefur það aldrei farið þannig. Ávallt hefur verið úrskurðað samkvæmt heimilisfesti. Það er alveg hægt að láta á það reyna, en miðað við þetta eru litlar líkur á að það verði úrskurður sem hjálpar Kristínu í hennar máli. Þá mun að öllum líkindum einnig taka töluverðan tíma að fá slíkan úrskurð.“

Hún segir málið í raun óskiljanlegt, þar sem í þessu tilviki leiki enginn vafi á faðerni. Kristín sé nú ófeðruð í þjóðskrá. „Það samþykkja allir að hann sé faðir hennar, það þarf bara að fá þetta skjalfest og staðfest og skráð á fæðingarvottorð. Hann vill gjarnan láta skrá sig sem föður hennar. Fram kemur í 1. gr. a í barnalögum að barn eigi rétt á að þekkja báða foreldra sína og að móður sé skylt að feðra barn sitt. Hún er núna ófeðraður Íslendingur og getur ekkert gert í því nema flytja til Íslands og höfða dómsmál hér. Það er meira en að segja það að flytja milli landa,“ segir Guðbjörg.