Fyrsti fundur Samninganefndir VR og SA funduðu í gærmorgun.
Fyrsti fundur Samninganefndir VR og SA funduðu í gærmorgun. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Fundurinn var mjög uppbyggilegur. Það eru fjölmargir snertifletir í áherslum þessara aðila,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Fundurinn var mjög uppbyggilegur. Það eru fjölmargir snertifletir í áherslum þessara aðila,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Fyrsti fundur samninganefnda Samtaka atvinnulífsins og VR fyrir komandi kjarasamninga fór fram í húsakynnum VR í gærmorgun. Á fundinum fór fram kynning á kröfugerð verslunarmanna og samningsáherslum atvinnurekenda.

„Í kjölfar þess að hvor aðili fór yfir sínar áherslur var farið yfir viðræðuáætlun sem vonandi verður skilað inn á mánudag. Í beinu framhaldi var ákveðið að beita mjög öguðum vinnubrögðum næstu vikurnar,“ segir Halldór Benjamín.

Hann segir að SA hafi gengið á eftir því á fundinum hvert sé kostnaðarmat við kröfugerð VR, bæði á hendur atvinnurekendum og á hendur ríkinu.

„Þau kostnaðarmöt liggja ekki fyrir af hálfu VR. Það er óheppilegt að mati Samtaka atvinnulífsins þar sem erfitt er að taka afstöðu til kröfugerðar þegar ekki er ljóst hver kostnaðurinn er né hvernig hann skiptist. Við hljótum að kalla eftir slíku kostnaðarmati.“

Halldór Benjamín ítrekar að fundurinn hafi verið uppbyggilegur, á honum hafi verið góð samtöl um þá snertifleti sem eru milli samningsaðila.

„Jafnvel þó við séum kannski ekki sammála um útfærslur þá eru tækifæri, til að mynda í styttingu á heildarvinnutíma, breytingu á dagvinnutíma og aðgerðum á húsnæðismarkaði,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson.

Kröfurnar „skynsamar“

„Það eru allir mótiveraðir í að reyna að ná saman fyrir áramót og láta ekki orðræðuna trufla sig í því. Ég er tiltölulega bjartsýnn á að það náist lending enda tel ég kröfur okkur vera skynsamar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, en á fundinum lögðu VR og Landssamband verslunarmanna fram sameiginlega kröfugerð.

Ragnar segir að VR hafi kostnaðarmetið allar kröfur félagsins en vill ekki upplýsa um matið á þessu stigi. „Kostnaðarmatið gagnvart SA liggur fyrir og er tilbúið en við ákváðum að leggja það ekki fram á þessum fundi út af þeirri orðræðu sem hefur verið að skapast. Við munum gera grein fyrir því á einhverju stigi málsins. Við höfum líka teiknað upp sviðsmyndir um útfærslur á kröfur gagnvart ríkinu, um persónuafslátt og fleira. Það er ekki tímabært að fara fram með þær útfærslur. Við þurfum að vera í samfloti við hin stéttarfélögin ef við eigum að ná fram kerfisbreytingum.“

Samningskröfur VR
» VR gerir kröfu um 41 til 42 þúsund króna hækkun á öll laun 1. janúar næstu þrjú ár og verða lágmarkslaun því 425 þúsund krónur í lok tímabilsins, eða 1. janúar 2021.
» Þá gerir VR kröfu um að vinnuvika félagsmanna verði stytt í 35 stundir á viku án launaskerðingar.
» Félagið gerir einnig þá kröfu að stjórnvöld endurskoði persónuafslátt og tekjutengingar.